15. júní 2022

Gull og silfur til Íslands

Markaðsherferðin Sweatpant Boots vann til tveggja verðlauna á US EFFIE Awards verðlaunahátíðarinnar.
Gull og Silfur til Íslands

Markaðsherferðin Sweatpant Boots vann til gullverðlauna í flokknum smærri auglýsendurþjónusta og silfurverðlaun í flokknum Davíð vs Golíat á Effie verðlaunahátíðinni sem haldin var í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Effie verðlaunin eru ein eftirsóttustu fagverðlaun sem veitt eru fyrir markaðssetningu og er einungis veitt herferðum sem geta sýnt fram á framúrskarandi árangur. Dómnefnd er skipuð fagfólki í markaðssetningu sem velur sigurvegara úr miklum fjölda innsendinga.

Markaðsherferðin gekk út á að bjóða ferðamönnum að mæta með „heimsfaraldurs-joggingbuxurnar“ sínar í pop-up búð í Bankastræti þar sem þær voru endurunnar í gönguskó. Alls náði herferðin 1.4 milljarði snertinga, og 62 milljónir hafa horft á myndband herferðarinnar, og rúmlega 100 erlendir fréttamiðlar fjallað um herferðina.

Skórnir voru hönnun fatahönnuðarins Ýrar Þrastardóttur. Herferðinni var fylgt úr hlaði með frumsömdu lagi, Sweatpant Boots, eftir Ásgeir Orra Ásgeirsson og Rögnu Kjartansdóttir, einnig þekkt sem Cell 7, sem flytur lagið.

„Það er ótrúlega gaman að fá þessa viðurkenningu,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri Ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. „Við tókum þá ákvörðun að halda áfram að markaðssetja áfangastaðinn í gegnum heimsfaraldurinn, og sú ákvörðun hefur heldur betur borgað sig, því vinsældir Íslands sem áfangastaðar hafa aldrei verið meiri, og ferðaþjónustan er að ná sér á strik á ný með undraverðum hraða eftir ládeyðu undanfarinna ára.“

Herferðin er hluti af markaðsverkefninu Saman í sókn og var gerð í samstarfi við auglýsingastofuna M&C Saatchi og íslensku auglýsingastofuna Peel. Leikstjórn var í höndum Guðnýjar Rósar Þórhallsdóttur, en Skot Productions sá um framleiðslu. Herferðin fór í loftið fyrir ári síðan, þann 21. júní 2021 og stóð í 11 vikur.

Sjá alla verðlaunahafa.

Sjá allar fréttir