Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
23. júní 2021

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins

Loftslagsvegvísir atvinnulífsins
Sigurður Hannesson, stjórnarformaður Grænvangs og framkvæmdastjóri SI, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Eggert Benedikt Guðmundsson, forstöðumaður Grænvangs.

Í dag var nýr Loftslagsvegvísir atvinnulífsins gefinn út og kynntur í Húsi atvinnulífsins. Vegvísirinn er gerður að frumkvæði atvinnulífsins sem sýnir mikinn vilja og áhuga þeirra fjölmörgu samtaka  sem standa að honum til að láta að sér kveða á sviði loftslagsmála.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

„Útgáfan nú er fyrsta skrefið sameiginlegri vegferð atvinnulífsins í loftslagsmálum sem getur stutt vel við aðgerðaráætlun stjórnvalda. Mikilvægt er að við byggjum á þessari góðu vinnu og höldum áfram í næsta áfanga.“

Íslensk fyrirtæki hafa fjölmargar grænar lausnir fram að færa sem nýst geta í baráttunni við eitt stærsta mál samtímans; loftslagsvandann. Það má hins vegar alltaf gera betur og nýi vegvísirinn mun auðvelda það verkefni.

Sigurður Hannesson, formaður Grænvangs og framkvæmdstjóri Samtaka iðnaðarins:

„Útgáfa skýrslunnar markar ákveðin tímamót og staðfestir að atvinnulífið leggur allt kapp á að nálgast loftslagsvandann á ábyrgan og lausnamiðaðan hátt. Markmiði stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verður ekki náð nema með nánu samstarfi atvinnulífsins og stjórnvalda. Hjá atvinnulífinu verða til grænar lausnir sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda en á sama tíma þurfa stjórnvöld að ryðja hindrunum úr vegi, hlúa að starfsskilyrðum og fjárhagslegum hvötum til að örva slíka nýsköpun og tækniframfarir auk þess að hvetja til fjárfestinga. Með slíku uppbyggilegu samstarfi og jákvæðum hvötum náum við árangri í loftslagsmálum.“

Fjölmargir aðilar standa að útgáfunni: Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar (SAF), Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), Samtök iðnaðarins (SI), Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) og Bændasamtök Íslands auk Grænvangs.

Loftslagsvegvísi atvinnulífsins má nálgast á vef Grænvangs (PDF)

Þar er m.a. að finna ýmis hagnýt ráð og leiðir sem geta hjálpað til við að ná árangri svo markmið stjórnvalda um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verði að veruleika.

Hægt er að horfa á upptöku af kynningarfundinum hér að neðan.


Grænvangur er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Hlutverk Grænvangs er að efla samstarf atvinnulífs og stjórnvalda við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og styðja við markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040.

Grænvangur leiðir saman íslensk fyrirtæki og stjórnvöld í innlendum aðgerðum til að ná því sameiginlega markmiði. Auk þess styður Grænvangur við útflutning grænna lausna frá Íslandi með markaðsverkefninu Green by Iceland.

Deila