15. janúar 2024

Kynning í London á millilandaflugi frá Akureyri

Ljósmynd

Hrafnhildur Þórisdóttir, Lína Petra Þórarinsdóttir, Þorleifur Þór Jónsson, Halldór Óli Kjartansson, Lilja Alfreðsdóttir og Arnheiður Jóhannsdóttir

Þann 11. janúar sl. stóð Íslandsstofa fyrir kynningu í London í samstarfi við Sendiráð Íslands í London í nafni verkefnisins Nature Direct. Verkefnið stuðlar að samvinnu Íslandsstofu, Isavia, Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrúar um kynningu á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum fyrir beint millilandaflug frá svæðinu. Viðburðurinn var haldinn í Sendiráði Íslands í London og hafði það meginmarkmið að kynna beint flug frá London Gatwick.

Sendiherra Íslands, Sturla Sigurjónsson, bauð gesti velkomna. Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, flutti ávarp. Þá hélt Hrafnhildur Þórisdóttir, viðskiptastjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu og tengiliður við Bretlandsmarkað, kynningu á áfangastaðnum Íslandi. Að því búnu leiddi Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, gesti í allan sannleikann um náttúruperlur Norðurlandsins.

Að loknum kynningum var boðið upp á léttar veitingar og gafst kostur á viðtölum við framsöguaðila.  Einnig bættust í hópinn frá Íslandsstofu þau Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri stofunnar, Lína Petra Þórarinsdóttir fagstjóri ferðaþjónustu, Þorleifur Þór Jónsson, viðskiptastjóri og tengiliður við Norðurlönd og fjarmarkaði, auk Halldórs Óla Kjartanssonar, verkefnastjóra hjá Markaðsstofu Norðurlands og fulltrúum frá EasyJet, en öll sátu þau fyrir svörum um áfangastaðinn Ísland og beint millilandaflug til landsins.

Viðburðurinn var mjög vel sóttur af bæði fjölmiðlafólki og ferðaskipuleggjendum og var mikill áhugi á hvoru tveggja beinu flugi til Akureyrar, Norðurlandi og Íslandi í heild sem áfangastað. Flug EasyJet hefur hlotið mjög góðar móttökur og gefið norðlenskri ferðaþjónustu byr undir báða vængi. Áframhaldandi flug easyJet næsta vetur byggir svo enn frekar undir ímynd Akureyrar og Norðurlands sem áfangastaðar, að sögn Arnheiðar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands.

Sjá einnig Stutt við uppbyggingu alþjóðaflugs á landsbyggðinni

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum

Kynning í London á beinu millilandaflugi frá Akureyri

Sjá allar fréttir