5. febrúar 2023

Íslenskur fiskur í aðalhlutverki í Strassborg

Ljósmynd

Veitingastaðir í Strassborg buðu viðskiptavinum upp á íslenska sjávarrétti í tengslum við kynningu Seafood from Iceland

Markaðsverkefnið Seafood from Iceland stóð fyrir glæsilegri kynningu á íslenskum fiski í Strassborg í Frakklandi, í samstarfi við fastanefnd Íslands í Evrópuráðinu í Strassborg.

Kynningin var haldin dagana 26. janúar til 5. febrúar og var unnin með þátttöku fjögurra virtra veitingastaða á svæðinu sem buðu viðskiptavinum sínum upp á ljúffenga íslenska sjávarrétti meðan á viðburði stóð. Þetta voru veitingastaðirnir The Drunky Stork Social Club, L‘Alsace a table, La Casserole og Le Cap d‘Hag í Halles du Marché Gare.

Opnunarviðburður fór fram í húsakynnum Drunky Strork Social Club miðsvæðis í Strassborg, einum veitingastaðanna. Viðburðinn sóttu alls um 200 manns en þar á meðal voru fjölmiðlar, starfsmenn sendiráða og ræðismenn, auk fulltrúa Íslandsstofu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti ávarp til gesta þar sem hún kom m.a. inn á sérstöðu Íslands sem framleiðanda hágæða sjávarfangs og tengslin við franska markaðinn. Fanney Dóra Sigurjónsdóttir, eigandi veitingastaðarins Hnoss í Hörpu, var fulltrúi íslenskra matreiðslumanna á svæðinu. Bauð hún upp á góðmeti eldað úr íslenskum fiski og mældust réttirnir vel fyrir hjá gestum.

Kynningin var auglýst fyrir neytendum í gegnum samfélagsmiðla og náði til 230 þúsund manns á Strassborg svæðinu, auk þess birtist í staðbundnum miðlum (dagblöðum og útvarpi).

Seafood from Iceland markaðsverkefnið er vettvangur fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til að vinna saman að markaðssetningu undir einu upprunamerki til að hámarka virði íslenskra sjávarafurða.

Sjá allar fréttir