22. mars 2024

Íslensk ferðaþjónusta heimsækir París og Mílanó

Ljósmynd

Að jafnaði sækir Íslandsstofa á þriðja tug viðburða erlendis á sviði ferðaþjónustu.

Íslandsstofa skipulagði vinnustofu í París fyrir íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu þann 19. mars sl., í samstarfi við Visit Denmark, Visit Finnland og Visit Norway.  

Alls tóku 40 norræn ferðaþjónustufyrirtæki frá Norðurlöndunum þátt í vinnustofunni og þar af voru níu frá Íslandi. Viðburðurinn gekk vel og voru samtals á sjötta hundrað fundir skráðir þennan dag við 81 kaupanda frá frönskum ferðaþjónustuaðilum sem vildu komast í tengsl við norræn fyrirtæki.   

Þá tók Íslandsstofa þátt í vinnustofu í Mílanó á Ítalíu tveimur dögum síðar, þann 21. mars, ásamt tíu íslenskum fyrirtækjum. Vinnustofan fór vel fram og að þessu sinni tóku samtals þátt 54 ferðaþjónustufyrirtæki frá Norðurlöndunum. Yfir 1500 fundir fóru fram með þeim 90 kaupendum sem komu frá ítölskum fyrirtækjum á staðnum. Viðburðurinn var haldinn í samstarfi við Visit Denmark, Visit Finnland, Visit Norway og Gateway South. 

Á báðum stöðum voru með frá Íslandi fyrirtækin BusTravel Iceland, GoNorth Travel, Hey Iceland, Hótel Klaustur, Icelandair, Icelandia, Iceland Travel, Laugavatn Fontana og Snæland Travel, auk þess sem Travelling Iceland bættist í hópinn í Mílanó. 

Íslandsstofa sækir árlega á þriðja tug viðburða erlendis á sviði ferðaþjónustu. Sjá yfirlit yfir áætlaðar vinnustofur og sýningar árið 2024.

Tilkynningar um skráningar á ferðasýningar eða vinnustofur berast til þeirra sem skráðir eru á póstlista ferðaþjónustunnar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá vinnustofunum.

Íslensk ferðaþjónusta heimsækir París og Mílanó

Sjá allar fréttir