6. mars 2024

Íslendingar taka þátt í fish & chips "Óskarnum" í London

Ljósmynd

Seafood from Iceland var styrktaraðili í flokknum „restaurant of the year" á hátíðinni en Íslandsstofa er framkvæmdaraðili markaðsverkefnisins.

Glæsileg verðlaunahátið fór fram í London 28. febrúar síðastliðinn þegar fish & chips iðnaðurinn í Bretlandi kom saman, um 650 manns. Þar voru verðlaunaðir aðilar sem þótt hafa skarað fram úr í greininni. Hátíðin ber heitið „National Fish and Chip Awards” og var haldin í annað sinn í núverandi mynd. Það eru samtökin National Federation of Fish Friers (NFFF) sem standa fyrir viðburðinum sem er nokkurs konar “Óskarsverðlauna" hátíð fyrir fish & chips geirann í Bretlandi. 

Markaðverkefnið Seafood from Iceland sem er í eigu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Íslandsstofa sér um framkvæmd á, voru meðal þátttakenda auk fulltrúa frá sendiráði Íslands í London. Fulltrúar frá nokkrum framleiðendum sem eru þátttakendur í markaðsverkefninu létu sitt ekki eftir liggja, Brim, Gunnvör, Ice Fresh, Ísfélagið, SVN og Þorbjörn, tóku þau þátt af miklum myndarskap og nýttu tækifærið til að hitta trausta viðskiptavini í London. 

Á "Óskarnum" í London voru veitt verðlaun í 13 flokkum og var Seafood from Iceland styrktaraðili í flokknum „Restaurant of the Year" – eða veitingastaður ársins. Í efstu þremur sætunum voru veitingastaðirnir Noah´s í Bristol (3. sæti), Pier Point í Torquay (2. sæti) og Knights Fish Restaurant í Glastonbury (1. sæti). Það voru Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS og Pétur Þ. Óskarsson sem veittu verðlaunin og héldu einnig stutt ávarp fyrir hönd Seafood from Iceland. 

Það hráefni sem Íslendingar selja inn á breska fish & chips markaðinn eru sjófryst flök (þorskur og ýsa) í hæsta gæðaflokki sem koma af okkar öflugu frystiskipum. Íslenski fiskurinn er eftirsóttur hjá erlendum dreifingaraðilum, sem segja stoltir frá upprunalandi vörunnar og vilja margir ekki sjá neitt annað en íslenska fiskinn í þjóðarrétt sinn fish & chips. 

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir frá viðburðinum. 

Íslendingar taka þátt á fish & chips "Óskarnum" í London

Sjá allar fréttir