28. desember 2022

Ísland hafði betur gegn verslanakeðjunni Iceland

Ljósmynd

Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins, hafa farið fyrir ógildingarkröfum Íslands á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins frá 2016 varðandi kröfur Iceland verslanakeðjunnar um notkun á orðmerkinu Iceland.

Ísland bar sigur úr býtum gegn verslanakeðjunni Iceland Foods Ltd. þann 15. desember sl. þegar áfrýjunarnefnd Hugverkastofu Evrópusambandsins hafnaði öllum kröfum hennar varðandi notkun á orðmerkinu Iceland. Fyrirtækið getur ekki lengur hindrað að íslensk fyrirtæki auðkenni sig með upprunalandinu við markaðssetningu á EES-svæðinu á vörum sínum og þjónustu.

Málið varðar grundvallarhagsmuni íslenskra fyrirtækja í utanríkisviðskiptum. Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Íslandsstofu og Samtök atvinnulífsins, hafa farið fyrir ógildingarkröfum Íslands á vettvangi Hugverkastofu Evrópusambandsins (EUIPO) frá 2016. 

Munnlegur málflutningur fyrir áfrýjunarnefndinni fór fram í september sl. Krafa íslenska ríkisins um ógildingu orðmerkisins ICELAND hjá EUIPO frá árinu 2016 byggist á því að vörumerkið uppfylli ekki lagaskilyrði til þess að fást skráð sem vörumerki í Evrópusambandinu.

Árið 2019 féllst Evrópska hugverkastofan á allar kröfur íslenska ríkisins er hún komst að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning verslunarkeðjunnar á orðmerkinu ICELAND væri ógild í heild sinni. Með úrskurði sínum staðfestir áfrýjunarnefndin þá niðurstöðu í öllum atriðum. Hægt er að áfrýja niðurstöðunni til Evrópudómstólsins en frestur til þess er til 15. febrúar nk.

„Þessi afdráttarlausa niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar er mjög ánægjuleg þótt málið sé í raun algjörlega fáránlegt,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki skiptir höfuðmáli að geta vísað til upprunans ekki síst vegna þess að landið okkar er þekkt fyrir hreinleika og gæði. Það á enginn að geta slegið eign sinni á heiti fullvalda ríkis. “

Sjá frétt í heild á vef Stjórnarráðs Íslands

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir