21. mars 2024

Ísland álitið öruggt land og ímyndin er sterk

Ljósmynd

Ársfundur Íslandsstofu fór fram fyrir fullum sal í Grósku þann 20. mars. Umfjöllunarefni fundarins var vörumerkið Ísland.

Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra ávarpaði fundinn. Í máli Bjarna kom meðal annars fram að ímynd Íslands út á við væri sterk. Sagði hann tækifærin á Íslandi fjölmörg og að gróska ríkti í hinum ýmsum atvinnugreinum: „Hér á Íslandi er mikill hagvöxtur, lítið atvinnuleysi, við erum ung og vel menntuð þjóð, nýsköpun er í miklum vexti á Íslandi og samhliða stendur nýsköpunin stöndugum, rótgrónum atvinnugreinum. Hér verða til stór alþjóðleg fyrirtæki sem bjóða upp á spennandi störf.“

Undirstrikaði hann mikilvægi þess að halda góðri ímynd Íslands á lofti erlendis og minntist í því samhengi á að koma fréttum af landi og þjóð vel á framfæri:

“Þessar staðreyndir selja sig ekki sjálfar og velgengni okkar er langt í frá sjálfsögð, sér í lagi þegar tilvist okkar hér á landi er háð duttlungum náttúrunnar sem hefur sannarlega látið til sín taka nýverið. Það er nefnilega viðvarandi verkefni að tala máli Íslands á alþjóðavettvangi og styrkja ímynd okkar…Við þurfum að koma því fram að hingað sé óhætt að koma, að daglegt líf haldi áfram utan gossvæðisins, það sé beinlínis eftirsóknarvert að heimsækja landið og sjá náttúruöflin virk.“

Hildur Árnadóttir, formaður stjórnar Íslandsstofu flutti ávarp. Þar ræddi hún ímynd landsins út á við og mikilvægi góðra verka þegar kemur að ímyndasköpun: „það sem skipti mestu máli er hvað við gerum – en ekki hvað við segjumst gera. Hvert er raunverulegt framlag okkar til heimsins?“. Hér hefði Ísland sannarlega góða sögu að segja, t.a.m. hvað varðar lýðræðisleg gildi, jafnrétti, jöfnuð og réttlæti.

Þá talaði hún um hlutverk Íslandsstofu í mörkun á Íslandi sem vörumerkis og sagði að mikilvægt væri að láta verkin tala: „Það er ekki hlutverk Íslandsstofu að fegra hlut okkar á alþjóðavettvangi, heldur fyrst og fremst að miðla sönnum sögum af landi og þjóð sem styðja við þá ímynd sem við viljum að fólk hafi af okkur. Þannig getur vörumerkið Ísland skapað áþreifanlegan virðisauka fyrir íslensk fyrirtæki. Verkin tala.“  

Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu skautaði yfir starfsemi stofunnar á árinu 2023. Ræddi hann útflutningsþjónustuna og nefndi að á árinu hafi starfsfólk Íslandsstofu leitt saman 841 íslensk fyrirtæki við viðskiptavini í 26 löndum, á samtals 82 viðburðum. Fór hann fór yfir þróun erlendrar fjárfestingar á Íslandi og vakti athygli á að fjárfesting í líf- og heilsutækni á Íslandi hafi numið um 1500 milljónum evra á tveimur síðustu árum.

Ræddi Pétur markaðsstarf Íslandsstofu á sviði ferðaþjónustu og nefndi að stjórnvöld hafi lagt til yfir tvo milljarða kr. í fjárframlög fyrir neytendamarkaðssetningu á árunum 2018-2022. Markaðsaðgerðir Íslandstofu miðuðu að því að halda áfangastaðnum Íslandi áfram ofarlega í hugum ferðamanna að heimsfaraldri loknum og voru m.a. fjórar markaðsherferðir settar í loftið á tímabilinu.

Það virðist hafa tekist, ef marka má niðurstöður rannsóknar á endurheimt ferðaþjónustu eftir COVID, sem sýndu að þegar heimsóknartölur frá árinu 2019 og 2023 voru bornar saman kom í ljós að fjöldi ferðamanna sem sótti Ísland jókst um 15,3% fyrstu 11 mánuði ársins. Þetta eru mjög jákvæðar niðurstöður þar sem mörg þeirra landa sem við berum okkur saman við eru að glíma við talsverða fækkun gesta.

Þá undirstrikaði hann að þegar mæla á gæði Íslands sem ferðamannalands, ætti helst að horfa á meðmælaskorið (Net Promoter Score) sem er mjög hátt fyrir Ísland eða 78%. Á þeim nótum sagði hann m.a. að :„Það að tvær milljónir gesta fari héðan ár hvert og mæli með áfangastaðnum við vini, ættingja og kunningja, það er umfjöllun sem erfitt er að kaupa.“

Pétur greindi stuttlega frá niðurstöðum neytendakönnunar á lykilmörkuðum Íslands. Þar kom m.a. fram að Ísland er með sterka stöðu þegar kemur að sjálfbærni og hefur verið í efstu 10 sætunum síðustu ár, þegar fólk er beðið um að nefna lönd sem það tengir helst við sjálfbærni. Einnig skorum við hátt þegar kemur að náttúru, sögu og menningu, en heldur lægra þegar kemur að spurningum um viðskiptaumhverfi, nýsköpun og nútímalegt samfélag.

Að lokum kynnti Pétur svör við spurningunni „Er Ísland öruggt land?“ Hér höfum við ávallt skorað mjög hátt. Í ljósi jarðhræringa og eldsumbrota var þess beðið með eftirvæntingu að sjá hvort þetta hefði breyst í kjölfarið. Góðu fréttirnar eru að niðurstöður sýndu að ímynd Íslands á þessu sviði er alls óbreytt. Ísland er enn álitið öruggt og gott land til að heimsækja í hugum neytenda.

Hér má sjá ársskýrsluvef Íslandsstofu fyrir árið 2023

Simon Anholt, sérfræðingur í ímyndarmálum þjóða og stofnandi „The Good Country Index“ var aðalræðumaður á fundinum.

Simon sagði að þegar kemur að velgengni í alþjóðaviðskiptum væri ímynd þjóðar lykilþáttur. Sagði hann að samkvæmt The Good Country Index, umfangsmikillar könnunar sem framkvæmd er árlega, væru alla jafna sterk tengsl milli alþjóðlegra gjaldeyristekna og jákvæðrar ímyndar landa. Þó væru nokkur lönd undantekning hér. Þar á meðal eru Ísland, Finnland og Nýja-Sjáland sem hafa lægri gjaldeyristekjur en ímynd þeirra gefur til kynna. Sagði hann góða ímynd Íslands því veita visst forskot og svigrúm til að þéna hærri gjaldeyristekjur.

Samkvæmt Simon er ímynd þjóða seigfljótandi fyrirbæri og breytist ímyndin sáralítið ár frá ári. Þá sagði hann að staðalímyndir á löndum og þjóðernum væru oft rótgrónar í hugum fólks og yfir höfuð þyrfti mikið til að breyta þessum fyrirfram ákveðnu hugmyndum.

Hann fór inn á eldgosin á Íslandi og áhrifin á ímynd landsins og sagði að þótt það hefði kannski áhrif á þann fjölda ferðamanna sem kjósa að sækja landið heim, breyttu náttúruhamfarir ekki ímynd landsins sjálfs út á við. Sem er í samræmi við niðurstöður neytendakönnunarinnar sem nefnd var áður.

The Good Country Index mælikvarðinn er að sögn Simons byggður á staðreyndum eða hversu “góð“ lönd eru og hvert raunverulegt framlag þeirra er til heimsins. Ísland situr í 20. sæti af 170 löndum á listanum sem telst mjög gott. Við skorum þar mjög hátt í sjálfbærni- og loftslagsmálum (e. planet & climate) sem við gætum nýtt okkur enn betur í markaðssetningu á landinu og jafnvel gerst e.k. sendiherrar sjálfbærni í heiminum, að hans mati.  

Þá væru einnig tækifæri til að bæta vitund og ímynd okkar á sviði menningar og arfleifðar (e. culture & heritage) og gæti fjárfesting á þessu sviði skilað miklu fyrir jákvæða vitund erlendis um Ísland, samkvæmt Simon.

Menningin var einmitt höfð í hávegum í viðtali við Max Gredinger, umboðsmann Laufeyjar Lín Jónsdóttur. Aðspurður nefndi hann að Laufey notaði uppruna sinn mikið í listsköpun fyrir tónlist sína. Að hún væri stolt af því að vera íslensk og segði gjarnan frá því að hún kæmi frá Íslandi í viðtölum.

Að lokum var boðið upp á pallborðsumræður með vel völdum fulltrúum nokkurra útflutningsfyrirtækja en þar tóku þátt:

  • Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair

  • Guðmundur Fertram Sigurjónsson stofnandi og forstjóri Kerecis

  • Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS

  • Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri sölu, rekstrar og þjónustu hjá Bláa lóninu

  • Helgi Rúnar Óskarsson forstjóri 66°Norður

Þátttakendur voru sammála um að vörumerkið Íslands væri einstaklega sterkt út á við. Þau nýttu landið óspart í markaðssetningu fyrir sín fyrirtæki og héldu nafni Íslands á lofti. Þar spilaði náttúran, menningin og ekki síst sagan, stórt hlutverk. Þá hjálpaði einnig að við skorum hátt í málefnum eins og sjálfbærni og jafnrétti. Hvað náttúruöflin varðaði, eldgos á Íslandi hefðu kannski ekki jákvæð áhrif til skamms tíma fyrir ímynd landsins, en gætu hæglega styrkt vitund og umfjöllun um Ísland til lengri tíma.

Sigríður Dögg Guðmundsdóttir forstöðumaður útflutnings og fjárfestinga hjá Íslandsstofu stjórnaði umræðum sem og sjálfum fundinum.

Hér fyrir neðan má sjá upptöku og myndir frá ársfundinum

Ísland álitið öruggt land og ímyndin er sterk

Sjá allar fréttir