13. mars 2023

Íslensk matvæli og náttúruvörur í brennidepli í Kaliforníu

Ljósmynd

Fjögur íslensk fyrirtæki tóku þátt á Íslandsbásnum: Íslensk Hollusta, GeoSilica, Primex og Saltverk.

Íslandsstofa stóð fyrir þjóðarbás á Expo West sýningunni sem fór fram dagana 9.- 11 mars í Anaheim, Kaliforníu. Auk Íslandsstofu kom alræðisskrifsofa Íslands í New York að skipulagningu og framkvæmd verkefnisins.

Expo West sýningin er ein sú allra stærsta og mikilvægasta þegar kemur að mat- og heilsuvörum á vesturströnd Bandaríkjanna. Fjögur íslensk fyrirtæki tóku þátt á básnum: Íslensk Hollusta, GeoSilica, Primex og Saltverk, og létu þau öll afar vel af sýningunni. Vigfús Rúnarsson, markaðsstjóri Primex, komst svo að orði: „Við erum afar sátt við sýninguna og náðum flestum okkar markmiðum. Það er styrkur í því fyrir okkur íslensku fyrirtækin koma fram undir einum hatti, básinn var glæsilegur og dró að sér mikla athygli. Við erum því jákvæð fyrir því að taka aftur þátt að ári.“

Segja má að íslensk fyrirtæki hafi verið í brennidepli á sýningunni, en fyrir utan þjóðarbásinn tóku Dropi, Good Good, Næra, Icelandic Glacial og Algalíf einnig þátt. Þarna var að finna fulltrúa allra stærstu kaupenda á sviði matvæla og heilsuvara. Sýningin er því góður vettvangur fyrir fyrirtæki, bæði þau sem eru að taka sín fyrstu skref á bandaríska markaðinum eða þau sem vilja komast í samtal við nýja dreifingaraðila eða kaupendur.

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir