27. maí 2024

Hönnunarteymi Exponex hannar sýningu fyrir skála Norðurlandanna á heimssýningunni í Japan

Ljósmynd

Að undangengnu útboði hefur verið gengið frá samningi við hönnunarteymi Exponex um hönnun og útfærslu sýningar fyrir norræna skálann á heimssýningunni í Osaka í Japan árið 2025. Exponex mun leiða verkefnið, í samstarfi við fyrirtækin Wintenex, Habegger, Kvorning Design, Rintala Eggertsson Architects og íslensku hönnunarstofuna Gagarín.

Sameiginlegur skáli Norðurlandanna fimm: Danmerkur, Finnlands, Noregs, Svíþjóðar og Íslands á að sýna fram á einingu landanna. Hann á að gefa innsýn í lífið í norðri, norræn gildin og náið samband landanna við náttúruna. Sýningin mun kynna fyrir gestum hugsjónir í norrænu samfélagi þar sem traust ríkir og samvinna er lykilhugtak. Tæknilausnir á heimsvísu verða síðan ofnar inn í þessa reynslu.

„Við teljum að norræni skálinn á Expo 2025 Osaka muni ekki aðeins styrkja stöðu Norðurlandanna á Japansmarkaði heldur einnig laða að japanska gesti og hafa jákvæð áhrif á viðskipti samstarfsaðila í norrænum útflutningsgreinum,“ sagði Dag Olav Koppervik, verkefnastjóri norræna skálans.

Í hönnunarteyminu eru fyrirtækin Kvorning Design, Rintala Eggertsson Architechts og Gagarín sem eru meðal reyndustu sýningarhönnuða á Norðurlöndum og hafa staðið fyrir hönnun á fjölda sýninga- og safna á síðasta áratug. Sýningarskálinn er framleiddur undir stjórn fyrirtækisins Exponex frá Tékklandi og Wintenex og Habegger frá Sviss, en þau hafa víðtæka reynslu í uppsetningu á alþjóðlegum sýningarsvæðum, sér í lagi heimssýningum.

rich text image

Tækifæri fyrir útflutningsfyrirtæki frá Íslandi

Í norræna sýningarskálanum verður samnorræn starfsemi og viðburðir. Þar á meðal eru þemadagar með áherslu á grænar lausnir og hringrásarhagkerfið, lífsstíl og vellíðan, svo eitthvað sé nefnt. Þessir viðburðir draga fram sameiginleg gildi og styrkleika Norðurlandanna, og hvetja til samstarfs og samskipta milli norrænna og japanskra hagsmunaaðila.

Sýningarskálinn er gerður úr timbri og er 1200 m2 á stærð og 17 m. á hæð. Þar verður, auk sýningarinnar, ráðstefnusalir og fundaraðstaða, verslun og þakverönd með kaffihúsi. Íslandsstofa mun setja íslenskar útflutningsgreinar í forgrunn á þemadögum Íslands og bjóða fyrirtækjum að taka þátt í viðburðum þeim tengdum.

Norræni skálinn er hugsaður sem vettvangur sem sýnir fram á skuldbindingu Norðurlandanna í sjálfbærni, nýsköpun og samvinnu. Hugsjón skálans er í takt við „Vision 2030“ sem hefur það að markmiði að gera Norðurlöndin að sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi fyrir árið 2030.

EXPO 2025 Osaka mun leiða saman lönd víðsvegar að úr heiminum til að kanna þemað "Hönnun framtíðarsamfélags fyrir líf okkar." Viðburðurinn mun sýna fram á nýstárlegar lausnir, stuðla að alþjóðlegu samstarfi og hvetja til samtals um mótun sjálfbærrar framtíðar án aðgreiningar,“ segir á vef sýningarinnar.

Hönnunarteymi Exponex hannar sýningu fyrir skála Norðurlandanna á heimssýningunni í Japan

Sjá allar fréttir