16. maí 2022

Flestir jákvæðir gagnvart Íslandi sem áfangastað

Ljósmynd

Niðurstöður nýrrar könnunar sem framkvæmd var meðal neytenda frá Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi gefa fyrirheit um tækifæri og samkeppnishæfni Íslands á erlendri grundu. Könnun var framkvæmd af Maskínu í mars 2022 voru svarendur með meðal eða hærri tekjur og menntum, virkir á atvinnumarkaði og ferðast með reglubundnum hætti. Þúsund svör bárust frá hverju markaðssvæði.

Sem fyrr reyndust Spánn, Ítalía og Bandaríkin þau þrjú lönd sem flestir íhuguðu að heimsækja á næstu 24 mánuðum. Ísland var í tuttugasta sæti yfir þau lönd sem voru oftast nefnd og fylgdi þar fast á eftir Hollandi og Sviss. Um 8 af hverjum 10 svarendum segjast vera jákvæðir gagnvart Íslandi sem áfangastað, sem var hæsta hlutfallið samanborið við áfangastaði á borð við Nýja sjáland, Noreg, Sviss og Svíþjóð.

Hlutfall þeirra sem fannst eftirsóknarvert að vinna á Íslandi í sinni starfsgrein var sambærilegt við niðurstöður síðustu mælingar, eða um 49%. Kanadískir svarendur (56,5%) voru líklegastir að vilja vinna á Íslandi en sænskir ólíklegastir (41,8%). Helstu ástæður þess að svarendur töldu aðlaðandi að starfa í sinni starfsgrein á Íslandi voru, sem fyrr, náttúran og öryggi á meðan skortur á þekkingu á Íslandi og samgöngur til og frá landinu voru helstu ástæður þess að svarendum fannst ekki aðlaðandi að starfa á Íslandi.

Meirihluti svarenda voru jákvæðir gagnvart íslenskum vörum, þjónustu og vörumerkjum og var hlutfall jákvæðara það sama og í fyrri mælingu, ríflega 64%. Flestir voru jákvæðir gagnvart svissneskum og sænskum vörum en lítill munur var þó á niðurstöðum þeirra landa sem spurt var um.

12% neytenda kjósa helst að kaupa íslenskt sjávarfang, en í fyrsta sæti situr Noregur með 19%. Tæplega 45% svarenda vildu helst neyta sjávarfangs sem á uppruna frá þeirra eigin heimalandi.

Svíþjóð var það land sem oftast var nefnt sem leiðtogi í sjálfbærni. Þar á eftir voru Noregur, Danmörk og Þýskaland oftast nefnd. Ísland var í sjöunda sæti og heldur sömu sætistölu frá síðustu mælingu, en þar á eftir situr Kanada í því áttunda. Þeir sem nefndu Ísland sem leiðandi land á sviði sjálfbærni nefndu náttúruvernd og endurnýjanlega orku sem megin ástæðu. Stjórnmál í Svíþjóð þykja standa framarlega í sjálfbærnismálum en svarendur áttu erfiðara með að rökstyðja hvers vegna þau nefnu Svíþjóð sem leiðtoga.

Hér má sjá heildarniðurstöður

Flestir jákvæðir gagnvart Íslandi sem áfangastað

Sjá allar fréttir