27. febrúar 2023

Bestu kokkanemar á Ítalíu matreiða úr íslenskum saltfiski

Ljósmynd

Bacalao de Islandia stóð fyrir keppni á Rimini í febrúar um besta ítalska kokkanemann, í góðu samstarfi við ítalska kokkalandsliðið

Francesco Orsi var valinn besti ungi kokkur Ítalíu 2023 á viðburði sem Bacalao de Islandia og ítalska kokkaslandsliðið héldu samhliða bjór og matarhátíðinni “Beer and Food attraction” sem haldin var á Rimini á Ítalíu dagana 19.- 23. febrúar. 

Undankeppnir voru haldnar í 18 af 20 héruðum Ítalíu, allt frá Sikiley til fjallasvæða í Ölpunum. Fulltrúar 18 skóla komu til Rimini og var hráefnið sem notað var í keppninni íslenskur saltfiskur. Það var Franceso Orsi, frá Luigi Veronelli kokkaskólanum í Casalecchio di Reno, Bologna (BO), sem stóð uppi sem sigurvegari. Hann komst í landsúrslitakeppnina sem fulltrúi fyrir héraðið Emilia-Romagna. Sigurréttur hans Francesco var saltfiskur eldaður í olíu með majónesi, spínati, beurre blanc sósu, kartöflum, smjöri og timian, kasjúhnetum, rúsínum og þurrmjólk. Ítalski meistarakokkurinn Lorenzo Alessio sem hefur oft komið að verkefnum Bacalao de Islandia, bæði á Íslandi og á Ítalíu var yfir dómnefnd var hæst ánægður með réttinn og sagði: “Réttur Francesco Orsi er mjög skapandi og vel framsettur og bragðgóður. Þar að auki var Franceso mjög fagmannlegur í öllum sínum athöfnum í eldhúsinu.”  

Þetta er í þriðja skiptið sem markaðsverkefnið Bacalao de Islandia stendur fyrir sambærilegum viðburði en hinar keppnirnar fóru fram í Róm, 2019 og 2022. Þetta var hins vegar í fyrsta skipti sem samstarf er við ítalska kokkalandsliðið, en með því samstarfi hefur tekist að ná til mun fleiri skóla og lyfta allri umgjörð upp á hærra plan. Sigurvegarinn hlýtur að launum Íslandsferð í september ásamt kennara sínum. Verkefnið Bacalao de Islandia hefur allt frá árinu 2015 staðið fyrir kynningum í kokkaskólum í Suður Evrópu og á þann hátt fjárfest í markaðsstarfi og fræðslu til ungra og upprennandi matreiðslumanna. 

Íslandsstofa - Útflutningsaðstoð, landkynning, fjárfestingar

Sjá allar fréttir