Nýting orkuauðlinda í þágu útflutnings olli efnahagslegum straumhvörfum á Íslandi á síðari hluta 20. aldar. Allar götur síðan hefur sala á orku, eða öllu heldur, afurðum orkusækins iðnaðar, verið ein styrkasta stoð gjaldeyrisöflunar hér á landi. Það gaf því auga leið að orka, og afleiddar greinar orkuframleiðslu, yrðu í forgunni þeirrar langtímastefnumótunar fyrir íslenskan útflutning sem unnin var árið 2018. Undir þennan þjónustuflokk fellur framleiðsla og dreifing raforku ásamt nýtingu endurnýjanlegrar orku og hugvitsamlegar lausnir í þágu umhverfis- og loftslagsmála.

Afurðir orkusækins iðnaðar verða áfram mikilvæg stoð í gjaldeyrisöflun landsins, en forgangsröðun frekari orkuöflunar í þágu orkuskipta innanlands þýðir að helstu vaxtartækifæri þessa flokks verða í nánustu framtíð einkum fólgin í þeim grænu lausnum sem hann er kenndur við, og hins vegar útflutningi á þekkingu og reynslu á sviði auðlindanýtingar. Það fellur jafnframt vel að stefnu stjórnvalda í loftlags- og atvinnumálum, framtíðarsýn Norðurlandanna fyrir norrænt samstarf og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Eftirspurn eftir grænum lausnum eykst hratt á flestum sviðum og íslensk fyrirtæki hafa náð eftirtektarverðum árangri, t.d. í tækni til orkusparnaðar, fullnýtingu hráefna, og föngun, förgun og nýtingu kolefnis svo fátt eitt sé nefnt. Þá er þekking og reynsla Íslenskra fyrirtækja á því að beisla náttúruöfl í þágu orkuframleiðslu og fjölnýtingu jarðvarma vel þekkt.

Í viðhorfs- og vitundarkönnunum sem Íslandsstofa lætur gera á 6 erlendum mörkuðum kemur fram að fólk tengir ímynd Íslands almennt sterkt við sjálfbærni, en með metnaðarfullri aðgerðaáætlun á sviði loftslagsmála, aukinni kolefnisbindingu og að lokum kolefnishlutleysi getur Ísland orðið fyrirmynd í loftslagsmálum á alþjóðavísu. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld og atvinnulífið að taka höndum saman um að segja söguna og markaðssetja lausnirnar.