Útflutningsgreinar
Matvæli og náttúruafurðir
Matvæli og náttúruafurðir
Íslenskir framleiðendur matvæla, drykkjarvara, húð- og næringarvara hafa nýtt sér íslenskan uppruna og tengsl við ímynd landsins og hreinleika íslenskrar náttúru til aðgreiningar fyrir vörur sínar á erlendum mörkuðum.

Markaðsstarf Íslandsstofu miðar að því að efla vitund um Ísland sem upprunaland hreinna og heilnæmra matvæla og náttúruafurða sem unnar eru með sjálfbærum hætti og vekja athygli á tækifærum sem felast í sjálfbærri nýtingu orku- og efnastrauma frá jarðvarmaverum, m.a. til hátækniframleiðslu á lífvirkum efnum með grænni orku.
Fjölbreytt verkefni á árinu
Íslandsstofa skipulagði Íslandsbás með þremur fyrirtækjum á Vitafoods sýningunni í Genf. Þá töku fimm fyrirtæki þátt í Íslandsbás á China International Import Expo í Sjangæ. Í september stóðu Íslandsstofa og utanríkisráðuneytið fyrir veglegri ráðstefnu undir yfirskriftinni “The Future of Food – Innovation from Singapore and Iceland” í því skyni að kynna framtíðarlausnir í matvælaframleiðslu sem fyrirtæki í löndunum tveimur hafa þróað og skoða tækifæri til samstarfs.
Íslandsstofa stóð fyrir vefkynningum og miðlun efnis tengdu útflutningi matvæla og heilsuvara til Bandaríkjanna í samstarfi við Business Sweden. Fjölmörg fyrirtæki eru að vinna að því að koma vörum sínum í dreifingu þar eftir að hafa stigið fyrsta skrefið inn á markaðinn með netsölu.
Í lok árs skipulagði Business Sweden rafræna ráðstefnu um um nýsköpun og sjálfbæra matvælaframleiðslu þar sem eitt íslensk fyrirtæki fékk tækifæri til að kynna sig fyrir bandarískum fjárfestum og Íslandsstofa átti fulltrúa í panel.
Eiderdown of Iceland er markaðssamstarf við æðarbændur og framleiðendur á Íslandi. Tilgangur þess er að hækka hlutfall fullunninna útflutningsvara og afla nýrra markaða fyrir íslenskan æðardún. Lokið var við að móta áherslur verkefnisins og unnið að nýjum markaðsvef og gerð markaðsefnis.
Markaðsverkefni
Íslenski hesturinn

Horses of Iceland
Markaðsverkefnið Horses of Iceland vinnur að því að styrkja orðspor íslenska hestsins um allan heim og leggja grunn að aukinni verðmætasköpun og útbreiðslu hestsins á heimsvísu. Verkefnið hefur nú verið framlengt út árið 2025.
Markaðsaðgerðir á árinu voru fyrst og fremst í formi rafrænna viðburða með áherslu á fræðslu og samskipti hestafólks um allan heim. Tvær sýningar voru þó sóttar heim á árinu. Íslenski hesturinn var í öndvegi á Sweden International Horse Show, en sendinefnd var einnig Equine Affair í Ohio í október í samstarfi við félag íslenska hesta í Bandaríkjunum.