Vatnaskil
Ávarp
Ávarp formanns og framkvæmdastjóra.
Vatnaskil
Við lifum á sérkennilegum tímum. Nú þegar áhrif kórónaveirufaraldursins fara minnkandi er hafið stríð í Evrópu. Einræðisherra í Rússlandi tók þá afdrifaríku ákvörðun að efna til ófriðar við nágranna sína í Úkraínu. Daglega berast okkur fréttir af mannfalli óbreyttra borgara, barna og gamalmenna sem eru fórnarlömb stríðsátaka. Milljónir hafa flúið heimkynni sín, fótgangandi undir sprengjuregni rússneskra hersveita. Hugur okkar allra er hjá þessu fólki sem ekkert hefur til saka unnið.
Áhrifin af stríðinu eru víðtæk og fjarri því að vera öll komin fram. Viðskiptaþvinganir, hækkun hrávöruverðs og röskun í aðfangakeðjum eru allt birtingarmyndir þessa. Þessi áhrif koma víða fram og auðvitað hér á Íslandi. Við þessar aðstæður skiptir öllu máli að órofa samstaða sé um það að við stöndum með íbúum Úkraínu. Við Íslendingar megum vera stolt af því að vera í hópi þeirra lýðræðisríkja sem standa gegn stríðinu og beita viðskiptaþvingunum sem bíta.
Auknar útflutningstekjur
Segja má að vatnaskil hafi orðið á seinasta ári eftir mikið fall útflutningstekna árið áður. Á seinasta ári jókst útflutningur um rúmlega 20% frá árinu 2020 og nam ríflega 1.230 milljörðum króna. Aukninguna má meðal annars rekja til hækkana á álverði og þess að ferðaþjónustan er að byrja að ná vopnum sínum. Þá er afar ánægjulegt að sjá að aukning útflutningstekna af hugverkaiðnaði heldur áfram, en áætlað er að tekjur í þeim geira séu að nálgast 200 milljarða króna. Hér er orðin til ný stoð í gjaldeyristekjum sem gera má ráð fyrir að haldi áfram að vaxa á næstu árum og áratugum. Það leikur enginn vafi á því að margvíslegar aðgerðir stjórnvalda á undanförnum árum hafa stutt við þennan vöxt. Þá er ánægjulegt að sjá vöxt á útflutningstekjum vegna sjávarafurða. Greinin hefur tekist á við áskoranir kórónuvírusfaraldursins af mikilli útsjónarsemi og krafti og jafnharðan fundið nýjar dreifileiðir þegar hefðbundnir markaðir lokuðust.
Fjölbreytt markaðssetning mikilvæg
Íslendingar hafa sett sér metnaðarfull markmið um hlut hugvits í hagvaxtaraukningu framtíðar. Fyrir því liggja einfaldar ástæður – vöxtur framtíðar þarf að byggja á hugvitsdrifnum útflutningsgreinum fremur en greinum sem byggja á náttúrulegum auðlindum sem takmörk eru sett.
Í könnunum sem Íslandsstofa hefur látið framkvæma um viðhorf og vitund neytenda á okkar helstu mörkuðum erlendis skorar Ísland lægra en viðmiðunarlönd þegar kemur að þáttum sem snúa að viðskiptaumhverfi og nýsköpun. Markaðsstarf Íslandsstofu miðar að því að gera Ísland að eftirsóttum stað til lifa, mennta sig og starfa, ekki síður en til rannsókna, þróunar, og fjárfestinga. Á undanförnum misserum hefur verið unnið markvisst að þessu. Annars vegar með nýjum markaðsverkefnum og hins vegar með því að efla þau verkefni sem fyrir voru. Stjórn Íslandsstofu hefur ákveðið að enn verði aukið við markaðssetningu á íslensku hugviti og tækni á næstu misserum og árum.
Þjónusta á mörkuðum
Á seinasta ári hóf Íslandsstofa samstarf við systurfyrirtæki sitt í Svíþjóð, Business Sweden. Með samstarfinu opnast nýir möguleikar til að veita íslenskum fyrirtækjum þjónustu á erlendum mörkuðum. Unnið er að þróun þjónustunnar og er sérstaklega horft til vaxtarfyrirtækja á sviði hugvits og tækni og hafa þegar verið gerðir við íslensk fyrirtæki um verkefni í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu.
Við búum vel
Útflutningstekjur eru grunnurinn að hagsæld og velferð á Íslandi. Þegar horft er til baka undanfarin tvö ár blasir við hversu mikilvægt það er að geta stundað frjáls viðskipti milli landa. Þar stöndum við Íslendingar vel, með víðtækt net viðskiptasamninga um allan heim. Þegar horft er til okkar mikilvægustu greina getum við verið bjartsýn á framtíðina. Við búum vel og höfum alla burði til þess að halda áfram að byggja upp framúrskarandi samfélag á grundvelli sjálfbærrar verðmætasköpunar með lífsgæði að leiðarljósi.