Ljósmynd

Skapandi Ísland

Skapandi Ísland

Eflum vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum

Markaðsverkefni skapandi greina

Skapandi Ísland er markaðsverkefni skapandi greina og er samstarfsverkefni Íslandsstofu og stjórnvalda. Verkefnið er unnið í samstarfi við miðstöðvar listgreina, sendiráð Íslands erlendis og fagfólks innan greinanna. Verkefninu er ætlað að efla vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum, auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum hér á landi og styðja við útflutning íslenskra listamanna og hins skapandi geira.

Verkefni ársins 2023 voru unnin í góðu samstarfi við miðstöðvar skapandi greina, sendiráð Íslands erlendis og þau ráðuneyti sem verkefnið fellur undir. Skapandi Ísland kemur að fjölmörgum verkefnum sem snúa að þátttöku Íslands í alþjóðlegum hátíðum og kaupstefnum sem skila verðmætum tengslum og viðskiptum fyrir listir og skapandi greinar.

rich text image

Frá HönnunarMars hátíðinni sem fram fór í maí

Samstarf á fjölmörgum sviðum

Meðal viðburða má helst nefna tengslaviðburð og kynningu á íslenskri tónlist á South by South West í Bandaríkjunum, svokallaðar ferðatöskusýningar í sendiráðsbústöðum í Bandaríkjunum, Finnlandi og Hollandi, LésBoréales menningarhátíðina í Frakklandi, Reeperbahn og Eurosonic tónlistarhátíðarnar í Þýskalandi og Hollandi, bókamessurnar í Gautaborg og Frankfurt, Hæ/Hi hönnunarsýninguna í Bandaríkjunum, 3 Days of Design hönnunarvikuna í Danmörku, og herferð Hið volaða lands kvikmyndarinnar sem tilnefnd var sem framlag Íslands til Óskarsverðlauna árið 2023.

Skipulagðar voru fjölmargar blaðamannaferðir á árinu í samstarfi við almannatengslaskrifstofur Íslandsstofu, miðstöðvar skapandi greina og alþjóðlegar hátíðir á Íslandi. Helst má þar nefna blaðamannaferð á HönnunarMars, Reykjavik International Film Festival og Iceland Airwaves tónlistarhátíðina. Að auki var Íslandsstofa í samstarfi við fjölmargar aðrar alþjóðlegar hátíðir um komu erlendra fjölmiðla og listrænna stjórnenda til landsins. Þessar hátíðirnar voru Myrkir Músikdagar, Reykjavík Jazz, Iceland WritersRetreat, Iceland Noir, IceDocs, Reykjavik Feminist Film Festival, Stockfish Film Festival, Extreme Chill Music Festival, Reykjavik Dance Festival, Lókal og Freyja Jazz Festival.

rich text image

Hátíðin Taste of Iceland fór fram í fjórum borgum Bandaríkjanna þar sem m.a. var blásið til tónleika með íslenskum flytjendum. Hér má sjá DJ Hermigervil í fullu fjöri.

Herferðir og árangur

Skapandi Ísland fór einnig í herferðir á samfélagsmiðlum í samstarfi við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTON) til að kynna íslenska lagalista á streymisveitum í Bandaríkjunum. Þá var einnig samstarf um kynningu í Norður Ameríku, Þýskalandi og Suður Kóreu þar sem vakin var athygli á endurgreiðsluverkefnum Record in Iceland fyrir upptöku tónlistar á Íslandi, og Film in Iceland sem kynnir kosti þess að taka upp kvikmyndaverkefni á hér á landi. Verkefnin voru öll unnin í samstarfi við og undir merkjum Inspired by Iceland sem jók sýnileika aðgerðanna, sem og í samstarfi við íslensk fyrirtæki,. Sameiginlegt markmið aðgerðanna var að auka vitund á íslenskum listum og skapandi greinum, á faglegum forsendum greinanna. 

Samanlagt skilaði markaðsverkefnið yfir 1480 umfjöllunum í ókostuðum birtingum og 700 í kostuðum birtingum í erlendum fjölmiðlum í gegnum almannatengsl og skipulagðar fjölmiðlaferðir til Íslands. Umfjöllun á samfélagsmiðlum snerti rúmlega 700.000 manns, með dekkun upp á um 1,6 milljón. Tengslamyndunar- og kynningarviðburðir á árinu voru ríflega 40 talsins og sóttu þá yfir 1000 listrænir stjórnendur og fagaðilar innan lista og skapandi greina. 

Ársskýrsla 2023 - Skapandi Ísland

Meira frá ársskýrslu 2023

    Aftur í ársskýrslu