Ljósmynd

Á árinu 2023 var lögð sérstök áhersla á að ná til erlenda ferðamanna á Íslandi og hvetja þá til að snæða fisk á meðan á dvöl þeirra stóð.

Seafood from Iceland

Seafood from Iceland

Aukum vitund og bætum viðhorf markhóps gagnvart íslenskum sjávarafurðum

Markaðsstarf í sjávarútvegi

Seafood from Iceland er vettvangur fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til að vinna saman að markaðssetningu undir einu upprunamerki til að hámarka virði íslenskra sjávarafurða. Verkefnið hófst árið 2019 en byggir að hluta til á Bacalao de Islandia sem nær aftur til 2013.

Meginmarkmið verkefnisins er að auka virði og útflutningsverðmæti íslensks sjávarfangsmeð því að auka vitund og bæta viðhorf markhóps gagnvart íslenskum sjávarafurðum.

Á árinu 2023 var lögð sérstök áhersla á að ná til erlenda ferðamanna á Íslandi og hvetja þá til að snæða fisk á meðan á dvöl þeirra stóð. Herferðin bar heitið „Icelandic Nature – It Goes Great with Fish“. Yfir 100 veitingastaðir tóku þátt í verkefninu.  


Dekkun (e. reach) herferðarinnar var yfir 180 þúsund, heimsóknir á vef voru rúmlega 18 þúsund og smellir (e. clicks) voru rúmlega 19 þúsund. Þá horfðu tæplega 150 þúsund á myndbönd. Lesa meira um herferðina

Í kjölfar herferðarinnar voru framkvæmdar kannanir á árangri, bæði á meðal ferðamanna og hjá veitingamönnum sem tóku þátt. Helstu niðurstöður úr könnun á meðal ferðamanna (965 svör) voru eftirfarandi:  

Matur og matarmenning virðist ekki vera að lyfta ímynd áfangastaðarins Íslands og hafa samkvæmt svörum lítil áhrif á ákvörðun ferðamanna að heimsækja landið. Um helmingur ferðamanna segjast ánægðir með matinn sem þeir neyttu hér á landi, en um helmingur er hlutlaus eða óánægður. Það er þó ánægjulegt að sjá að mikill meirihluti (78%) þeirra sem neyttu sjávarafurða meðan þeir dvöldu hér á landi eru mjög ánægðir með gæði þeirra. Eftir að hafa dvalið hér á landi eru ferðamenn líklegastir til að nefna sjávarafurðir (59%) þegar þeir eru spurðir um hvaða matvæli þeir tengja helst við landið.  

Á meðal þess sem kom fram í könnun á meðal veitingamanna (60% svarhlutfall) má nefna að rekstraraðilar veitingahúsa telja mikilvægt að íslensk matvæli og íslenskar sjávarafurðir séu markaðssettar sérstaklega til erlendra ferðamanna. Það var almenn ánægja með framtakið og frumkvæði Seafood from Iceland að fara af stað með verkefnið. Veitingamenn segjast skynja meiri neyslu og aukinn áhuga erlendra ferðamanna á sjávarafurðum. 

rich text image

Íslandsstofa fór fyrir málstofu á ráðstefnunni sem Sigríður Dögg Guðmundsdóttir stýrði

Sjávarútvegsráðstefnan í Reykjavík 

Íslandsstofa var með umsjón með málstofu um markaðsmál  sem bar heitið „Hverjir borða íslenskan fisk?” á Sjávarútvegsráðstefnunni sem haldin var í Hörpu þann 3. nóvember. Í málstofunni kom meðal annars fram að Ísland flytur út sjávarafurðir til u.þ.b. 85 landa. Rætt var hvaða vörur þetta eru og hvernig þær birtast neytendum. Vörurnar eru þekktar fyrir mjög góð gæði og afhendingaröryggi. Hins vegar er ekki öllum ljóst hvert þessar afurðir fara og hverjir hinir eiginlegu neytendur eru. Lesa meira

Bretland  
Seafood from Iceland var einn af styrktaraðilum National Fish & Chip Awards hátíðarinnar sem haldin var í London 27. og 28. febrúar og veitti verðlaun í flokknum „Restaurant of the Year”.  Lesa meira

Seafood from Iceland lagði upp í kynningarstarf með fyrirtækinu Chesterford Group dagana 1.- 14. maí á 38 sölustöðum í Suður Englandi. Markaðsefni verkefnisins var sýnilegt á sölustöðunum og blásið var til vinningsleikjar með yfir 1.600 þátttökum. Vinningurinn var Íslandsferð fyrir tvo og heimsóttu vinningahafarnir landið í nóvember. 

rich text image

Frá hátíðinni Fish & Chip Award í London þar sem fulltrúi Seafood from Iceland veitti verðlaun fyrir besta veitingastaðinn

Frakkland
Íslenskur fiskur var á boðstólum á fjórum virtum veitingastöðum í Strassborg dagana 26. janúar til 5. febrúar. Þetta var samstarf Seafood from Iceland og fastanefndar Íslands í Evrópuráðinu þar sem Ísland fór með formennsku fyrri hluti ársins. Á opnunarviðburði flutti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra m.a. ávarp. Kynningin var auglýst fyrir neytendum í gegnum samfélagsmiðla og náði til 230 þúsund manns á Strassborgar svæðinu. Lesa meira

Kokkaskólakeppnir - samstarf í Suður Evrópu


Rúmlega 400 nemendur í matreiðsluskólum á Spáni, Portúgal og Ítalíu hafa fengið kynningu á íslenskum saltfiski í skólum sínum undir formerkjum Bacalao de Islandia. Forkeppnir voru haldnar í flestum skólum og síðan tóku 40 nemendur þátt í lokakeppni í hverju landi fyrir sig. Um er að ræða stóran viðburð, þangað sem fjölmörgum gestum er boðið, m.a. úr röðum styrktaraðila, kaupenda og dreifingaraðila í viðkomandi löndum, auk fulltrúa frá skólunum. Þá sækja fjölmiðlar viðburðina, en Íslandsstofa og almannatengslastofur vinna saman að því að fá umfjallanir um viðburðina í fjölmiðlum viðkomandi landa.  

Auk alls þessa, þá náði umfjöllun um keppnirnar til um 55 milljón manns og var reiknað virði umfjallana metið á yfir 700 þúsund evrur, sem er hækkun um 200 þúsund evrur frá árinu áður.

Hópurinn úr saltfiskkeppninni ásamt fulltrúa Íslandsstofu og saltfiskvinnslu VSV um borð í fiskiskipi

Sigurvegarar heimsóttu Vestmannaeyjar þar sem þau fóru m.a. um borð á fiskiskip


Hér má lesa samantekt um lokakeppnirnar þrjár:  

  • Lokakeppni á Ítalíu fór fram á Rimini þann 19. febrúar. Framkvæmdin var í samstarfi við Samtök ítalskra matreiðslumanna stóð Francesco Orsi frá Bologna uppi sem sigurvegari. Keppnin var haldin samhliða bjór- og matarhátíðinni „Beer and Food attraction”. Undankeppnir voru haldnar í 18 af 20 héruðum Ítalíu, allt frá Sikiley til fjallasvæða í Ölpunum. Fulltrúar frá þátttökufyrirtækjum Seafood from Iceland og kaupendur mættu á viðburðinn. Þá birtust umfjallanir í tíu fjölmiðlum eftir lokakeppnina á Rimini. Lesa meira

  • Lokakeppni í Portúgal fór fram 21. mars. Kvöldið fyrir keppnina var keppendum og nemendum boðið til kvöldverðar á veitingastaðnum „O Abrigo do Martinho”. Eftir keppnina var hádegisverður fyrir gesti, blaðamenn og borgarstjóra Portalegre. Fulltrúar frá VSV Portugal og Grupeixe mættu á viðburðinn (í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum). Rúmlega 3 mín. innslag um keppnina var sýnt á sjónvarpsstöðinni CMTV. Pedro Pena Bastos, Michelin kokkur frá veitingastaðnum Cura á Four Seasons Ritz í Lissabon var formaður dómnefndar. 

Baccalau de Islandia in Spain and Portugal

Kokkar frá Ítalíu, Portúgal og Spáni léku listir sínar með íslenskan saltfisk

  • Lokakeppni á Spáni fór fram í Malaga þann 23. mars í „La Cónsula” kokkaskólanum. Hinn þekkti matreiðslumaður Dani Garcia var andlit keppninnar þetta árið. Daginn fyrir keppni var kvöldverður með keppendum og nemendum á veitingastaðnum Tragabuches (Dani Garcia). Eftir keppnina var keppendum, blaðamönnum og öðrum gestum boðið til hádegisverðar og komu fulltrúar frá Iceland Seafood einnig með. Fréttainnslag um keppnina var sýnt í Europa Press, stórum fréttamiðli á Spáni. Sigurvegari var Diego Chavero Rosa frá Malpartida de La Serena, sem er örsmátt þorp í Extremadura héraði. 

Sigurvegarar frá löndunum þremur, auk kennara, komu síðan í heimsókn til Íslands dagana 18.-22. september. Þau elduðu m.a. vinningsrétti sína úr íslenskum saltfiski í Hótel- og matvælaskólanum í MK. Gestir á viðburðinum voru framleiðendur og þátttakendur í verkefninu auk fjölmiðla. Þá fór hópurinn einnig til Vestmannaeyja þar sem farið var í heimsókn í saltfiskvinnslu VSV og um borð í fiskiskip, auk þess sem gestirnir fengu að upplifa dýrindis fiskmeti á veitingastöðum í Eyjum. Sjá nánar grein á MBL

Frá opnun matarhátíðar í Barcelona, Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ásamt kokkum

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra var viðstödd opnun matarhátíðar í Barcelona

Seafood Expo Barcelona 
Fimm fyrirtæki voru sýnendur á bás Íslandsstofu í Barcelona og merktu bása sína og markaðsefni með upprunamerki „Seafood from Iceland: Bacco Seaproducts". Þetta voru Brim, Iceland Seafood, Samherji, Vísir og VSV. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra heimsótti sýninguna og var Íslandsstofa ráðuneytinu til aðstoðar varðandi undirbúning og dagskrá í Barcelona. Þá heimsótti ráðherra einnig verksmiðju Iceland Seafood í Viladecavalls, rétt fyrir utan Barcelona og kynnti sér starfsemi fyrirtækisins. 

Ruta de Bunyols de Bacallá 
Þann 26. apríl stóð Bacalao de Islandia fyrir formlegri opnun á matarhátíðinni Ruta de Bunyols de Bacallá þar sem 25 veitingastaðir og 10 matarmarkaðir í Barcelona buðu upp á sína útgáfu af Bunyols (saltfiskbollur) úr íslenskum fiski. Formleg opnun hátíðarinnar fór fram á hinum þekkta matarmarkaði La Boqueria í miðborg Barcelona og flutti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarp við þetta tækifæri. Ráðherra heimsótti einnig Mercat del Ninot og hitti þar þátttakendur í matarhátíðinni, kynnti sér starfsemi þeirra og bragðaði nokkra mismunandi saltfiskrétti. Hátíðin stóð frá 26. apríl til 21. maí og er samstarf Bacalao de Islandia, Gremi de Bacallaners de Cataluña (félag saltfisksölumanna í Katalóníu), Olis Bargalló (katalónskur framleiðandi ólífuolíu) og Mercats de Barcelona.

Umfjöllun um hátíðina náði alls til 12 milljón manns og var auglýsingavirðið metið í kringum 780 þúsund evrur. Lesa meira

Ársskýrsla 2023 - Seafood from Iceland

Meira frá ársskýrslu 2023

    Aftur í ársskýrslu