Ljósmynd

Ísland - Saman í sókn

Ísland - Saman í sókn

Aukum eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkjum ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhöldum samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu.

Allt sem íslenskt er haft í hávegum

Markmið verkefnisins er að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina. Verkefnið er unnið í samræmi við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem ber yfirskriftina „Leiðandi í sjálfbærri þróun“ og langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. 

Verkefnið á að styrkja ímynd og auka eftirspurn í því skyni að auðvelda fyrirtækjum að auka sölu. Íslandsstofa vinnur markaðsáætlun og greiningar í breiðu samstarfi og viðheldur virkri upplýsingagjöf milli hagaðila.

Samningur um framhald verkefnisins var undirritaður í febrúar 2022 með 550 milljón króna viðbótar framlagi. Í desember 2023 var 100 milljónum til viðbótar veitt til verkefnisins í þeim tilgangi að bregðast við óvæntum samdrætti í ferðaþjónustu vegna jarðhræringa á Reykjanesi. 

rich text image

Frá eldgosinu við Litla-Hrút á Reykjaneskaga sem gaus 10. júlí 2023. Mynd Þráinn Kolbeinsson

Markaðsaðgerðir á árinu

Eiginlegur starfstími verkefnisins rann sitt skeið í lok árs 2022. Ein aðgerð hafði þó verið skipulögð á árinu 2023 sem var birtingar á sígrænu markaðsefni sem sýnir fjölmarga kosti Íslands sem áfangastaðar, og er ekki hluti af sértækum markaðsherferðum. Birtingar stóðu yfir í 23. janúar til 28. Febrúar, 2023 í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Stuðst var við birtingar á samfélagsmiðlum, streymisveitum og á miðlum Expedia. Í lok árs 2023 voru verkefninu veittar aukalega 100 milljónir til þess að nýta í birtingar á sama efni. Birtingar hófust í á öðrum degi jóla og standa yfir til loka febrúar 2024. 

Árangurinn mældur

Skilgreindir árangursmælikvarðar fyrir birtingar snúa m.a. að fjölda snertinga við markhóp gegnum keyptar birtingar, og áhrif markaðsefnis á vilja til að ferðast til Íslands.  

Helstu árangurstölur birtinga sígræns markaðsefnis voru eftirfarandi:  

  • Auglýsingar birtust alls 15,7 milljón sinnum 

  • Myndbandsáhorf voru alls 12,3 milljónir 

  • 23 þúsund heimsóknir á lendingarsíður 

  • Skv. mati Expedia skilaði þáttur þeirra í birtingum nær fimmföldu virði á fjárfestingu (4,9 ROAS).  

Ísland – saman í sókn er án efa eitt best heppnaða markaðsverkefni sem framkvæmt hefur verið fyrir áfangastaðinn Ísland og þótt víðar væri leitað. Skjót endurkoma ferðaþjónustu og gríðarlegur áhugi ferðamanna á Íslandi í kjölfar heimsfaraldursins er besta merkið þar um. Má með sanni segja að verkefnið hafi náð öllum þeim markmiðum sem því voru sett í upphafi, þ.e. að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu við erfiðar aðstæður í gegnum heimsfaraldur. 

Ársskýrsla 2023 - Saman í sókn

Meira frá ársskýrslu 2023

    Aftur í ársskýrslu