Ljósmynd

Reykjavik Science City

Reykjavik Science City

Við kynnum umgjörð nýsköpunar, vísinda og tækni í Vatnsmýrinni

Ísland verði þekkt sem land nýsköpunar og tækni

Markaðsverkefnið Reykjavík Science City (RSC) var stofnað árið 2021 til að kynna á alþjóðlegum grundvelli innviði og umgjörð nýsköpunar, vísinda og tækni í Vatnsmýrinni. Að verkefninu koma fimm hagaðilar: Reykjavíkurborg, Landspítalinn, Vísindagarðar, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Íslandsstofu var falið að sjá um framkvæmd verkefnisins. 

Ísland er í dag fyrst og fremst þekkt fyrir náttúru og eftirsótta áfangastaði fyrir ferðamenn. Landið er minna þekkt sem staður nýsköpunar, tækni og viðskipta. Markmið verkefnisins er að Vatnsmýrin verði eftirsóttur staður menntunar, nýsköpunar, rannsókna og alþjóðlegs vísindastarfs. Áhersla er lögð á að kynna einstaka staðsetningu og þá kosti sem  felast í henni og nálægð við háskólaumhverfið, Landspítala, Vísindagarða og leiðandi fyrirtæki á sviði rannsókna og hugvits, ásamt kostum þess að búa í Reykjavík, s.s. fjölskylduvænt samfélag og nálægð við náttúru.  

Verkefnið á að stuðla að því að erlendir aðilar velji Vísindaþorpið í Vatnsmýri (Reykjavík Science City) sem ákjósanlegan stað fyrir starfsemi sinna fyrirtækja, fyrir samstarfsverkefni á sviði rannsókna og vísinda og efla beina og óbeina fjárfestingu á svæðinu.  Markhópar verkefnisins eru erlendir fjárfestar, erlendir sérfræðingar og alþjóðleg tæknifyrirtæki. 

rich text image

Viðburðir ársins 2023


Áhersla var lögð á að sýna lifandi samfélag nýsköpunar og tækni, m.a. í tengslum við fjölsótta viðburði Íslandsstofu á Nýsköpunarvikunni í maí 2023.

Árið 2023 voru keyrðar herferðir til þess að kynna verkefnið Reykjavík Science City. Markmið herferðanna var mismunandi, oftast snerust þær um að auka vitund (e. awareness) skilgreindra markhópa á kostum Reykjavíkur fyrir fjárfesta, fyrirtæki, sérhæft vinnuafl og stúdenta. Í öðrum tilfellum var markmiðið að koma efni og upplýsingum á framfæri á vef eða samfélagsmiðlum; að vekja athygli á þátttöku RSC í viðburðum erlendis t.a.m. á Tech BBQ, Nordic Fintech Week, Slush, o.fl. Á sömu viðburðum voru svæðisbundnar birtingar efnis þar sem vakin var athygli á verkefninu og á íslenskum fyrirtækjum sem tóku þátt í viðburðunum.

Blaðamannaferðir

Í maí 2023 komu blaðamenn á vegum verkefnisins til Íslands í tengslum við Nýsköpunarvikuna. Í heimsókninni var áhersla lögð á fjártækni og tölvuleikjaframleiðendur, og að kynna framtíðarsýn Reykjavíkurborgar á sviði atvinnuþróunar. Vakti fyrirlestur og samtal við Óla Örn Eiríksson frá Reykjavíkurborg sérstakan áhuga blaðamanna í þessu samhengi. Þá var farið í heimsóknir í fyrirtæki á borð við Lucinity, PayAnalytics CCP og efnt til ýmissa viðburða með lykilaðilum úr nýsköpunarumhverfinu, m.a. morgunráðstefnunnar OK, bye.

rich text image

Frá heimsókn blaðamanna í Höfuðstöðina í nóvember

Önnur heimsókn frá blaðamönnum var í júní og þriðji hópurinn kom til landsins í nóvember. Móttaka fjölmiðlafólksins hafði það sameiginlega markmið að sýna fram á fjölbreytt svið nýsköpunar og tækni á íslandi. Í heimsókninni í nóvember voru sex blaðamenn með í för og var vakin athygli á þeirri staðreynd að á Íslandi eru hlutföll karla og kvenna jöfn innan framtakssjóða. Þá var viðburðurinn „Nordic Women in Tech Awards" sóttur og kastljósi beint að kvenstofnendum tæknifyrirtækja hér á landi. Að þessu inni var áhersla lögð á einkaviðtöl sem bókuð voru fyrirfram, eftir áhugsviði og óskum blaðamannanna. Lesa meira

Fjárfestaviðburðir

Haldnir voru níu fjárfestaviðburðir á árinu í nafni Reykjavik Science City. Á viðburðunum TechBBQ og Slush var boðið til fjárfestaviðburða fyrir hugverkafyrirtæki úr fjölbreyttum greinum. Að lokum má nefna boð sem haldið var í samvinnu við fjártæknifyrirtækið Lucinity og fjártækniklasann á Nordic Fintech week í Kaupmannahöfn í september. Þá var erlendum stofnfjárfestum boðið á sérstaka dagskrá í maí í Nýsköpunarvikunni þar sem þeir fengu að hitta lykil aðila úr íslensku nýsköpunarumhverfi, m.a. íslenska stofnfjárfesta úr röðum „Family offices" íslenskum framtakssjóði og valin fyrirtæki sem sýndu vel breidd þeirra. Reykjavik Science City verefninu var haldið á lofti í Nýsköpunarvikunni sem laðaði til sín ríflega 400 erlenda gesti úr röðum fjárfesta og stofnenda hugbúnaðarfyrirtækja. Erlendir fjárfestar voru þar í miklum meirihluta.

rich text image

Árangur

Samfélagsmiðlaherferðir:  

  • Þegar á heildina er litið gengu herferðir á samfélagsmiðlum vonum framar. Efnið sem framleitt hefur verið fyrir RSC virðist vera að virka vel, en þó ólíkt eftir miðlum. 

  • Viðbrögðin voru almennt betri en gert var ráð fyrir og ef miðað er við sambærilegar herferðir. Til dæmis var smellihlutfall (e. CTR) oftast fremur hátt.

Samantekt á árangri á samfélagsmiðlum og samanburður við árið 2022:  

  • 5 milljón birtinga á samfélagsmiðlum​ (voru 4 milljónir árið 2022) 

  • 1 milljón dekkun samanlögð á öllum miðlum (voru 800 þúsund+ árið 2022) 

  • 56 þúsund smellir​ á auglýsingar​ (voru 26 þúsund árið 2022) 

Fjöldi fyrirtækja í sendinefndum á vegum RSC árið 2023 

  • 7 íslensk fyrirtæki á sviði sjávartækni sóttu Nordic Innovation Summit í Seattle í maí  

  • 40 fyrirtæki fóru á TechBBQ í Kaupmannahöfn í september 

  • 13 íslensk fjártæknifyrirtæki sóttu Nordic Fintech Week í september 

  • 6 íslensk fyrirtæki á sviði sjávartækni sóttu kaupstefnu og vinnustofur í Kanada og Seattle í september

  • 6 íslensk fyrirtæki voru með viðveru á Nordic Life Science Days í Kaupmannahöfn í nóvember       

  • 67 íslensk fyrirtæki fóru með á SLUSH í nóvember 

Framkvæmdar eru þjónustukannanir um alla viðburði á vegum markaðsverkefnisins og voru viðbrögð þátttakenda í öllum tilvikum afar jákvæð. 

Sjá vef Reykjavik Science City

Ársskýrsla 2023 - Reykjavik Science City

Meira frá ársskýrslu 2023

    Aftur í ársskýrslu