Ljósmynd

Á árinu var gefið út nýtt myndband fyrir Horses of Iceland þar sem Rauðhólar eru sögusviðið.

Horses of Iceland

Horses of Iceland

Styrkjum ímynd íslenska hestsins og byggjum upp orðspor hans á heimsvísu.

Samstarf um íslenska hestinn

Markaðsverkefninu Horses of Iceland (HOI) var hleypt af stokkunum árið 2016. Tilurð verkefnisins má rekja til þess að fulltrúar hagsmunaaðila hestamanna óskuðu eftir fjármagni frá ríkinu til að setja aukinn kraft í kynningu á íslenska hestinum hér heima og erlendis. Horses of Iceland hefur frá upphafi verið hýst hjá Íslandsstofu sem leggur verkefninu til verkefnastjóra, aðstöðu og aðgengi að sérfræðingum m.a. á sviði markaðssamskipta. Samstarfssamningur matvælaráðuneytis, Íslandsstofu og þriggja hagsmunaaðila hestamanna var endurnýjaður í mars 2022 og gildir til loka árs 2025.

Verkefninu er ætlað að samhæfa skilaboð í markaðsaðgerðum með það fyrir augum að styrkja ímynd íslenska hestsins, byggja upp orðspor hans á heimsvísu og skapa auknar gjaldeyristekjur með sölu á hrossum og vörum og þjónustu þeim tengdum. 

rich text image

Mynd: Íshestar

Markhópar verkefnisins eru erlendir aðilar sem nú þegar tengjast íslenska hestinum, erlendir ferðamenn á Íslandi, eigendur og reiðmenn annarra hestakynja og framtíðar reiðmenn á Íslandi og erlendis. 

Í verkefnisstjórn eiga sæti fulltrúar Landssambands hestamannafélaga (LH), deildar hrossabænda í BÍ, Félags tamningamanna (FT), Samtaka ferðaþjónustunnar, útflytjenda og matvælaráðuneytis, en fulltrúi þess er jafnframt formaður stjórnarinnar. Verkefnisstjórn fundar að jafnaði einu sinni í mánuði til að ræða framgang og árangur verkefnisins og taka ákvarðanir. 

HoI starfar með FEIF, alþjóðasamtökum 24 Íslandshestafélaga í Evrópu, Ameríku og Eyjaálfu. 

Verkefni á árinu

Þann 1. febrúar 2023 tók nýr verkefnastjóri við verkefninu og var fyrsta verk hennar að mæta á ráðstefnu FEIF í Stokkhólmi. Þar fékk hún að fylgja Dr. Michael Weishaupt á ýmsum fundum um Social Licence to Operate (e. félagslegt leyfi til ástundunar). Til þess að tryggja áframhaldandi leyfi verða hestamenn á heimsvísu að sýna fram á að hesturinn þeirra sé hæfur til að gegna því hlutverki sem honum er ætlað og að hestafólk sé hæft til að meta þær kröfur. Seinna á árinu setti HOI saman vinnuhóp til að ræða þessi mál á Íslandi og gerðist aðili að The International Society for Equitation Science (ISES).

rich text image

Mynd: Íslandshestar

HOI hefur undanfarin ár sent ljósmyndara á viðburði Meistaradeildar í hestaíþróttum, og einnig séð um samfélagsmiðla þessarar keppnisraðar. Í ár var öllum viðburðum deildarinnar streymt á streymisveitunni Alendis en HOI var með auglýsingu þar. Áhorf Meistaradeildarinnar á Alendis var 12.453 í beinni útsendingu og 8.510 á upptöku. HOI stóð einnig fyrir ljósmyndun á viðburði Meistaradeildar KS á Sauðárkróki. 

HOI var með kynningarbás á Equitana, stærstu hestasýningu í heimi, sem haldin var 9.- 15. mars í Essen í Þýskalandi. Básinn var samstarfsverkefni HOI og IPZV (landssamtök um íslenska hestinn í Þýskalandi) en IPZV gerðist einmitt samstarfsaðili verkefnisins á þessu ári. Sportkader Rheinland stóð daglega fyrir vel heppnuðum sýnikennslum og sýningum á mismunandi svæðum sýningarinnar. Þrjú viðtöl voru tekin við verkefnastjóra HOI, þar af tvö frá þýskum miðlum ætluðum áhugafólki um íslenska hestinn. 112.000 heimsóttu sýninguna og 89.000 sáu efni HOI á samfélagsmiðlum á meðan hún stóð yfir. Í kjölfar gjafaleikjar HOI skráðu einnig 300 manns sig á póstlista verkefnisins. Lesa meira

Alþjóðadagur íslenska hestsins er 1. maí. Í tilefni hans efndi HOI til gjafaleikjar á Instagram þar sem fólk um allan heim var hvatt til að deila myndböndum af sér að kemba hestum sínum. Fimm vinningshafar voru dregin út og fengu kamb merktan HOI. Gaman er að segja frá því að vinningshafarnir komu frá fimm mismunandi löndum: Hollandi, Þýskalandi, Danmörku, Austurríki og Íslandi. 

rich text image

Miðbæjarreiðin er orðinn árlegur viðburður þar sem knapar ríða frá Hallgrímskirkju niður á Lækjartorg og gestum og gangandi gefst færi á að heilsa knöpunum og klappa hestunum.

Miðbæjarreiðin fór fram þann 3. júní í samstarfi við Landssamband hestamannafélaga. Í ár var reiðinni gefið enskt nafn: „Reykjavík hoofbeats" til að auðvelda auglýsingar á ensku. 60 knapar og hestar á öllum aldri tóku þátt í reiðinni en Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tók einnig þátt og flutti ávarp. Á samfélagsmiðlum náði efni HOI um reiðina til yfir 104.000 aðila. Lesa meira

Nýtt myndband Horses of Iceland var tekið upp í júní á Rauðhólum í samstarfi við HorseDay, sem er samstarfsaðili í verkefninu.
Myndbandið hefur nú þegar fengið um tíu þúsund spilanir á YouTube og náð til um 77 þúsund manns á samfélagsmiðlum. Lesa meira

Samhliða var einnig tekið upp nýtt sýndarveruleikaefni þar sem fólk getur upplifað það að vera knapi íklæddur lopapeysu, ríðandi um á leirljósum hesti. 

Taste of Iceland menningarhátíðin fór fram í Þýskalandi í fyrsta sinn og þann 24. júní var haldinn ókeypis viðburður í samstarfi við HOI þar sem 300 þátttakendur gátu skráð sig. Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við IPZV og reiðskólann og ræktunarbúið Pferdehof Menzinger sem kom með íslenska hesta og sjálboðaliða á staðinn. Gestum var boðið á sýningu þar sem gangtegundir og geðslag hestsins voru kynnt. Einnig gátu gestirnir farið á hestbak, bragðað á grilluðu íslensku lambakjöti frá fulltrúa kokkalandsliðsins og notið íslenskrar tónlistar í boði DJ Hermigevils. Lesa meira 

Nýtt plakat um smitvarnir var búið til í samstarfi við MAST. Því var deilt á vefsíðu MAST, vefsíðu HOI og á samfélagsmiðlum og hefur efnið náð til yfir 50.000 manns. Sjá nánar

rich text image

Frá Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem haldið var í Hollandi í ágúst

Heimsmeistaramót íslenska hestsins fór fram í Hollandi dagana 8.- 13. ágúst. HOI var með 180m2 tjald þar sem tíu fyrirtæki og samtök voru með bása. Á meðan mótið stóð yfir voru sex viðburðir haldnir í tjaldinu. Eitt fyrirtæki gerðist samstarfsaðili stuttu eftir mótið og sex lýstu yfir áhuga á að gerast þátttakendur árið 2024. HOI efndi til gjafaleiks þar sem aðal vinningurinn var gjafabréf með Icelandair upp á 1500 evrur, ásamt reiðtúr og gistingu hjá samstarfsfyrirtækinu HestaSport. Þá voru níu aðrir vinningar í boði frá öðrum samstarfsaðilum. Lesa meira

Í september kom blaðamaður til Íslands á vegum FEI (regnhlífasamtök yfir Ólympíugreinar í hestaíþróttum). Verkefnastjóri HOI fór með hana í Skagafjörðinn þar sem stutt heimildarmynd var tekin upp í Unadalsrétt. Myndin kom út í byrjun desember og hefur verið birt á 65 miðlum um allan heim. 

HOI efldi þátttöku Knights of Iceland á Equine Affaire í Ohio 13.-16. apríl með því að kaupa auglýsingu á póstkorti sem var notað til að gefa eiginhandaráritun og aðstoðaði USIHC með bás sinn og afnot af markaðsefni 9.-12. nóvember í Massachussets. 

HOI var með bás á Sweden International Horse Show í samstarfi við SIF (samtök íslenska hestsins í Svíþjóð) sem gerðist samstarfsaðili verkefnisins í ár. Á básnum var HOI með sýndarveruleikagleraugu með efninu sem tekið hafði verið upp á Rauðhólum. Þetta dró marga að og myndaðist daglega röð af fólki á öllum aldri við básinn.

HOI var einnig styrktaraðili „World Cup Tölt" eða tölt keppni þar sem efstu knöpum og hestum heimslistans er boðið að keppa. Á meðan keppninni stóð var mynd af norðurljósum yfir Stokksnesi sýnd á risaskjá með merki HOI. Einnig var auglýsingamynband HOI sýnt reglulega á skjá alla vikuna. Sendiherra Íslands í Svíþjóð, Bryndís Kjartansdóttir afhenti verðlaun í tölt keppninni. Að keppni lokinni var knöpum og skipuleggjendum boðið í móttöku með sendiherranum. Um 77 þúsund gestir heimsóttu sýninguna og gaman er að segja frá því að tölt keppnin var sýnd í beinni útsendingu á næstvinsælustu sjónvarpsstöð Svíþjóðar, TV channel 4.

rich text image

Horses of Iceland skipulaði sýningarsvæði á Equitana í Essen, stærstu hestasýningu í Þýskalandi

Árangur á samfélagsmiðlum

Instagram og Facebook eru stór hluti í markaðsstarfi verkefnisins. Þar eru reglulega birtar fallegar myndir og myndbönd af íslenskum hestum og áhersla lögð á að sýna hesta í íslenskri náttúru og efni sem sýnir fallegt samband milli hests og manns. Samstarfsaðilar eru einnig kynnt á þessum miðlum og hafa þau fengið að taka yfir reikningana í 24 tíma í senn til að koma starfi sínu á framfæri. 

Samtals dekkun á Instagram yfir árið var 6.147.280 en hlutfall þeirra sem bregðast við færslum (engagement rate) var að meðaltali 7.94%, en sem viðmið er talið að allt yfir 6% hlutfall á Instagram sé mjög hátt. 

Samtals dekkun á Facebook yfir árið var 6.335.578. Hlutfall þeirra sem bregðast að jafnaði við færslum á Facebook er um 5.7%, en á Facebook er telst hlutfall á bilinu 3.5% til 6% hátt. 

Sjá vef Horses of Iceland

Ársskýrsla 2023 - Horses of Iceland

Meira frá ársskýrslu 2023

    Aftur í ársskýrslu