Ljósmynd

Skapandi Ísland

Skapandi Ísland

Eflum vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum

Markaðsverkefni skapandi greina

Skapandi Ísland er markaðsverkefni skapandi greina og er samstarfsverkefni Íslandsstofu og stjórnvalda. Verkefnið er unnið í samstarfi við miðstöðvar listgreina, sendiráð Íslands erlendis og fagfólks innan greinanna. Verkefninu er ætlað að efla vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum, auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum hér á landi og styðja við útflutning íslenskra listamanna og hins skapandi geira. 

Verkefni á fjölmörgum sviðum

Verkefni ársins 2022 voru öll unnin í góðu samstarfi við miðstöðvar skapandi greina, sendiráð Íslands erlendis og þau ráðuneyti sem verkefnið fellur undir. Skapandi Ísland snertir fjölmörg verkefni sem snúa að þátttöku Íslands í alþjóðlegum hátíðum og kaupstefnum sem skila verðmætum tengslum og viðskiptum fyrir listir og skapandi greinar.

rich text image

Framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2022 var verkið Ævarandi hreyfing eftir Sigurð Guðjónsson. Mynd: Hönnunarmiðstöð Íslands.

Helstu verkefni sem má nefna eru Feneyjartvíæringurinn í myndlist, IceHot sviðslistamessan í Finnlandi, Nordic Bridges menningarkynningarnar í Kanada, Reeperbahn og Eurosonic tónlistarhátíðirnar í Þýskalandi og Hollandi, bókamessurnar í Gautaborg og Frankfurt, Hæ/Hi hönnunarsýningin í Bandaríkjunum, Íslandsvikuna í París og herferð Dýrsins sem var framlag Íslands til Óskarstilnefningar. 

Skipulagðar voru fjölmargar blaðamannaferðir á árinu í samstarfi við almannatengslaskrifstofur Íslandsstofu, miðstöðvar skapandi greina og alþjóðlegar hátíðir á Íslandi. Helst má nefna blaðamannaferð í tengslum við HönnunarMars, Reykjavik International Film Festival, Iceland Airwaves tónlistarhátíðina og European Film Awards sem haldin var í Reykjavík að þessu sinni. Að auki var Íslandsstofa í samstarfi við fjölmargar aðrar alþjóðlegar hátíðir um komu erlendra fjölmiðla og listrænna stjórnenda. Þar má nefna Myrka músikdaga, Reykjavík Jazz, Iceland Writers Retreat, Iceland Noir, Ice Docs, Listahátíð í Reykjavík, Reykjavik Feminist Film Festival, Stockfish Film Festival, Extreme Chill Music Festival, Reykjavik Dance Festival, Lókal og Nordic Music Days. 

rich text image

Hátíðin Taste of Iceland fór fram í sex borgum Bandaríkjanna þar sem m.a. var blásið til tónleika með íslenskum flytjendum.

Skapandi Ísland fór einnig í herferðir á samfélagsmiðlum í samstarfi við Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar til að kynna íslenska lagalista fyrir Bandaríkjamönnum sem njóta tónlistar í gegnum streymisveitur. Þá var einnig samstarf um kynningu á endurgreiðsluverkefnunum Record in Iceland og Film in Iceland í Norður Ameríku, Norðurlöndunum, Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi.

Verkefnin voru öll unnin samhliða markaðsverkefninu Inspired by Iceland sem jók sýnileika aðgerðanna og unnu saman við að auka vitund á íslenskum listum og skapandi greinum, á faglegum forsendum greinanna, í samstarfi við íslensk fyrirtæki. 

Árangur

Samanlagður árangur af almannatengslum og fjölmiðlaferðum sem markaðsverkefnið snerti skilaði yfir 500 umfjöllunum í ókostuðum birtingum og 1000 í kostuðum birtingum. Samfélagsmiðlaumfjöllun og herferðir náðu til yfir 5 milljón manns með 10 milljón snertingum á samfélagsmiðlum í gegnum herferðir á völdum mörkuðum. Tengslamyndunar- og kynningarviðburðir á árinu voru ríflega 30 og náðu til yfir 450 listrænna stjórnenda og fagaðila innan lista og skapandi greina.

Ársskýrsla 2022 - Skapandi Ísland

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu