Ljósmynd

Horses of Iceland

Horses of Iceland

Styrkjum ímynd íslenska hestsins og byggjum upp orðspor hans á heimsvísu

Samstarf um íslenska hestinn

Markaðsverkefninu Horses of Iceland (HOI) var hleypt af stokkunum árið 2016. Tilurð verkefnisins má rekja til þess að fulltrúar hagsmunaaðila hestamanna óskuðu eftir fjármagni frá ríkinu til að setja aukinn kraft í kynningu á íslenska hestinum hér heima og erlendis. Horses of Iceland hefur frá upphafi verið hýst hjá Íslandsstofu sem leggur verkefninu til verkefnastjóra, aðstöðu og aðgengi að sérfræðingum m.a. á sviði markaðssamskipta. Samstarfssamningur matvælaráðuneytis, Íslandsstofu og þriggja hagsmunaaðila hestamanna var endurnýjaður í mars 2022 og gildir til loka árs 2025.

Verkefninu er ætlað að samhæfa skilaboð í markaðsaðgerðum með það fyrir augum að styrkja ímynd íslenska hestsins, byggja upp orðspor hans á heimsvísu og skapa auknar gjaldeyristekjur með sölu á hrossum og vörum og þjónustu þeim tengdum.  

Markhópar verkefnisins eru erlendir aðilar sem nú þegar tengjast íslenska hestinum, erlendir ferðamenn á Íslandi, eigendur og reiðmenn annarra hestakynja og framtíðar reiðmenn á Íslandi og erlendis.  

rich text image

Í verkefnisstjórn eiga sæti fulltrúar Landssambands hestamannafélaga (LH), deildar hrossabænda í BÍ, Félags tamningamanna (FT), Samtaka ferðaþjónustunnar, útflytjenda og matvælaráðuneytis. Horses of Iceland starfar með FEIF, alþjóðasamtökum 23 Íslandshestafélaga í Evrópu, Ameríku og Eyjaálfu en hefur áhuga á að auka það samstarfi enn frekar. Þá gerðist HoI á árinu aðili að European Equestrian Business Association, EEBA.

Verkefni á árinu

Horses of Iceland var með kynningarbás á Equitana, stærstu hestasýningu í heimi sem haldin var í apríl í Þýskalandi. Básinn var samstarfsverkefni HoI og IPZV, Íslandshestafélagsins í Þýskalandi. Á kvöldsýningum Equitana var myndband HoI sýnt á 90 m. löngum skjá auk þess sem þýska ræktunarbúið Lixhof var með atriði á sýningunni. Einn dagur var tileinkaður íslenska hestinum þegar Hrimnir Isi-Cup fór fram. 

rich text image

Mynd: @Knights of Iceland

Alþjóðadagur dagur íslenska hestsins er 1. maí. Í tilefni hans efndi Horses of Iceland til gjafaleiks á Instagram þar sem fólk um allan heim var hvatt til að fara út í náttúruna og taka myndbönd með íslenska hestinum sínum. Besta myndbandið var verðlaunað með gjafakorti frá Icelandair og tveimur miðum á Landsmót hestamanna. Alls var deilt 30 myndböndum, 45 reels og 72 myndum fyrir utan allmargar IG stories. 

Landsmót hestamanna var haldið á Hellu í júlí undir yfirskriftinni „Loksins landsmót“. Horses of Iceland var með kynningarbás í samstarfi við Bændasamtök Íslands, Ráðgjafarmiðstöð Landbúnaðarins og Landgræðsluna. Í tengslum við mótið skipulagði Horses of Iceland heimsókn tveggja blaðamanna frá Bandaríkjunum og eins frá Þýskalandi á mótið. Á lokadegi mótsins stóð HOI fyrir Degi ræktenda þar sem átta ræktunarbú opnuðu dyr fyrir gestum, þar á meðal Árbakki, Hjarðartún og Kjarr sem eru þátttakendur í verkefninu. Þá sá verkefnið til þess að knöpum framtíðarinnar væri gert hátt undir höfði með því að taka myndir af öllum þátttakendum í barnaflokki sem síðan voru hengdar upp á markaðssvæði mótsins. Í aðdraganda mótsins tók HOI þátt í kynningu á mótinu og lagi mótsins í sjónvarpsþættingum Vikan með Gísla Marteini.  


Horses of Iceland var með kynningarbás á Equine Affaire í Springfield, MA í Bandaríkjunum í nóvember í samstarfi við Northeast Icelandic Horse Club. Á sýningunni hélt fulltrúi verkefnisins fyrirlestur um íslenska hestinn, auk þess sem 24.000 áhorfendur nutu sýninga reiðhópsins Knights of Iceland. Gestum á sýningunni var boðið að skrá sig á póstlista og átti einn heppinn kost á að vinna gjafakort frá Icelandair.  

Sweden International Horse Show sýningin var haldin í Stokkhólmi í lok nóvember. Þar var auglýsingamyndband HoI sýnt fyrir keppni í tölti auk þess sem Íslandsmynd og lógó verkefnisins vor á risaskjá á móti áhorfendastúku á meðan á keppni stóð. Þá sáu samstarfsaðilar úr Íslandshestafélaginu í Svíþjóð um fræðsluerindi um islenska hestinn. 

Horses of Iceland var með kynningarbás á Landbúnaðarsýningunni þar sem hesturinn, verkefnið og samstarfsaðilar þess voru kynntir. Gestum var boðið að skrá sig á póstlista og einn heppinn var dreginn út og vann gjafakort frá Icelandair. 

Horses of Iceland kom að undirbúningi Outhorse Your E-mail herferðarinnar sem Íslandsstofa gerði fyrir áfangastaðinn Ísland síðastliðið sumar. Það stóðu hestarnir Hrímnir frá Hvammi, Hekla frá Þorkellshóli og Litla Stjarna frá Hvítárhóli vaktina og notuðu sérsmíðað lyklaborð til að svara tölvupóstum fólks á meðan það var í fríi. Horses of Iceland tók jafnframt þátt í að skipuleggja upptökur á nýju kynningarmyndbandi Meet in Reykjavík. 


Myndbandið The Export Journey of the Icelandic Horse var framleitt í samstarfi við Wildhorse Films og dreift á miðlum verkefnisins og víðar, m.a. í afþreyingarkerfi Icelandair. Auk þess var framleitt myndband til kynningar á Horses of Iceland verkefninu og árangri þess í því skyni að afla nýrra þátttakenda.  

Ljósmyndarinn Donald Boyd, sem er með um eina milljón fylgjenda á samfélagsmiðlum, valdi íslenska hestinn sem viðfangsefni í kynningarmyndbandi fyrir ljósmyndabúnað. Myndbandið var unnið með samstarfsaðilum Horses of Iceland og kynnt á miðlum verkefnisins. HoI vann einnig með ljósmyndaranum Guadalupe Laiz sem kom til landsins til að mynda íslenska hestinn og voru myndir hans birtar á samfélagsmiðlum verkefnisins. Þá stóð verkefnið fyrir gerð leiðbeininga til ljósmyndara og áhrifavalda sem eiga samstarf við Horses of Iceland um hvernig best sé að mynda íslenska hestinn.  


Horses of Iceland styrkti samfélagsmiðlarherferð LH „Hundrað hestamenn heimsóttir“. Í þeim tilgangi að gera hestamennsku sýnilegri og auka nýliðun. Verkefnið átti vann einnit með Meistaradeildinni í hestaíþróttum og Meistaradeild KS um efnigerð, auglýsingar og kynningu á samfélagsmiðlum. 

Samfélagsmiðlar eru mikið notaðir í markaðsstarfi verkefnisins. Instagram og Facebook spila þar stórt hlutverk, en þar er mjög reglulega birt eigið efni með áherslu á hestinn í náttúrinni en einnig efni sem sýnir samband manns og hests sem m.a. verður til í tengslum við viðburði og verkefni með samstarfsaðilum. Einnig eru birtar aðsendar myndir.  

Einstakar færslur á Instagram náðu dekkun (reach) allt að 130.000. en flestar á bilinu 20.000-35.000. Samtals dekkun á Instagram á árinu var 5,8 milljónir. Hlutfall þeirra sem bregðast við færslum (engagement) var að meðaltali 7,61%, en einstaka færslur ná allt að 15%. Á Facebook náði vinsælasta færslan 227.000 í dekkun og fékk tæplega 3.700 viðbrögð. Heildardekkun á Facebook var 4,7 milljónir.

rich text image

Árangur

Undanfarin ár hefur verið talsverð aukning í útflutningsverðmætum hrossa. Árið 2019 nam hann um einum milljarði, en var um einn og hálfur árið 2020 og nam rúmlega tveimur milljörðum árið 2021. Endanlegar tölur fyrir 2022 liggja ekki fyrir en gögn fyrir fyrstu 11 mánuði ársins benda til að þær verði um einn og hálfur milljaður.  

Horses of Iceland naut góðs af þátttöku í OutHorse your email herferðinni sem skilaði 722 umfjöllunum fjölmiðla, 4.4 milljarði birtinga, 800.000 áhorfum á myndbönd og 20.000 úthestuðum tölvupóstum. 

Fylgjendum Horses of Iceland á Instagram fjölgaði úr 72.268 í 74.318 eða 2,84% og fylgjendum á Facebook úr 60.687 í 61.983 eða 2,31%. 

Áætlað virði af dekkun samfélagsmiðla nemur um $128.729 eða rúmar 18 milljónir ISK.  

Ársskýrsla 2022 - Horses of Iceland

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu