Ljósmynd

Heims­torgið

Heimstorgið

Fjölmörg tækifæri eru í samstarfi fyrir íslensk fyrirtæki í uppbyggingaverkefnum í þróunarlöndum og víðar.

Þjónustuborð atvinnulífsins

Heimstorg - þjónustuborð atvinnulífsins er upplýsinga- og samskiptagátt fyrir íslensk fyrirtæki sem leita viðskiptatækifæra í þróunarlöndum og víðar. Grunnur þess er vefsvæðið www.heimstorg.is þar sem kynnt eru ýmis tækifæri og fjármögnunarleiðir í þróunarlöndum og víðar sem íslenskt atvinnulíf getur sótt til, m.a. í gegnum alþjóðastofnanir sem Ísland er aðili að. Auk vefsvæðisins felst rekstur Heimstorgsins í að kynna fyrrnefnd tækifæri fyrir atvinnulífinu, m.a. með beinni markaðssókn og samtali við fyrirtæki áhugasöm eða líkleg til að eiga erindi í slík verkefni, auk þess að vera fyrirtækjum innan handar við gerð umsókna. 

Heimstorgið er afrakstur samstarfs Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins og kemur til í kjölfar samkomulags um þjónustuborð atvinnulífsins sem hleypt var af stokkunum í mars 2021. Starfsemi Heimstorgsins byggir m.a. á stefnu stjórnvalda um þróunarsamvinnu – þar sem síaukin krafa er gerð um þátttöku atvinnulífsins. 

Markmið þjónustuborð atvinnulífsins er að vera brú milli atvinnulífs og stjórnvalda. Undirliggjandi markmið með starfsemi Heimstorgsins er að stuðla að auknum útflutningstekjum þannig að „langtímahagvöxtur verði sjálfbær með áherslu á verðmætasköpun sem grundvallast á hugviti og auknum verðmætum afurða úr sjálfbærri nýtingu takmarkaðra auðlinda.“

rich text image

Verkefni ársins 2022

Stöðugt verkefni ársins 2022 var að nálgast fyrirtæki og kynna Heimstorgið og tækifærin þar á svonefndum Heimstorgsfundum. Þá var Heimstorgið og tækifærin kynnt á ýmsum fundum og viðburðum eins og t.d. á Loftslagsmóti Grænvangs, fyrir sjávartæknifyrirtækjum í Grósku, nemum í Jarðhita- og landgræðsluskólum GRÓ í samstarfi við Grænvang og víðar. Auk samtals við hina ýmsu hagaðila tók verkefnastjóri einnig þátt í vinnustofu á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu í lok september, úttekt á Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu í ágúst, og kynnti Heimstorgið á fundi þróunarsamvinnunefndar í UTN í nóvember o.fl. 

Af stærri viðburðum má nefna vel sóttan fund um tækifæri hjá Uppbyggingarsjóði EES sem haldinn var í Sjávarklasanum í maí í samstarfi við Rannís og Orkustofnun. Fjármögnunartækifæri grænna verkefna með Nefco og Nopef voru einnig kynnt á vel heppnuðum fundi sem haldinn var í samstarfi við græna bankann í Húsi atvinnulífsins í maí, einnig í samstarfi við Grænvang og SI. Þá var einnig kynnt ráðstefna um bláa hagkerfið á vegum Uppbyggingarsjóðs EES sem fram fór í Aþenu í maí – í samstarfi við Rannís og þrjú íslensk fyrirtæki sóttu.  

Opnanir í Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífs um þróunarsamvinnu voru þrjár á árinu og kynntar með ýmsum leiðum – þ.e. fundum, markpóstum, kynningarefni og auglýsingum á samfélagsmiðlum og vefsíðum o.fl. Þá voru einnig framleidd tvö kynningarmyndbönd með reynslusögum fyrirtækja af samstarfi við sjóðinn – þ.e. Áveitunnar ehf. og BBA // Fjeldco.  

rich text image

Árangur

Árangur Heimstorgsins má einkum meta á tvennan hátt, annars vegar af markaðsstarfi, og hins vegar með tilliti til þátttöku fyrirtækja í þeim verkefnum sem Heimstorgið kynnir. Þegar litið er til árangurs af markaðsstarfi má fyrst nefna hátt í 100 skráningar á póstlista Heimstorgsins þar sem fólk fær reglulega markpósta um möguleg tækifæri tengd Heimstorginu. Þá hefur fjöldi fyrirspurna sem hafa borist Heimstorginu verið rúmlega 30 á árinu. Þá hafa rúmlega 150 manns sótt kynningafundi um Heimstorgið, og eru þá ótaldar örkynningar inn á stærri ráðstefnum, s.s. Loftslagsmótinu og víðar.  

Ef horft er til þátttöku fyrirtækja þá hefur fulltrúi Heimstorgsins átt fundi með 18 fyrirtækjum á árinu vegna mögulegra umsókna. Þá hefur verið reglulegur stígandi í fjölda umsókna í Heimsmarkmiðasjóð atvinnulífs um þróunarsamvinnu þar sem nokkur fyrirtæki hafa hlotið styrk í kjölfar kynninga frá Íslandsstofu. Þá hefur töluverð aukning orðið í umsóknum um fjármögnun af hálfu NEFCO í kjölfar sameiginlegs kynningarstarfs græna bankans og Íslandsstofu m.a. kynningarfunda. 

rich text image

Mikilvægur lærdómur

Á þeim tíma sem Heimstorgið hefur verið hluti af þjónustuframboði Íslandsstofu hefur mikil grunnvinna verið unnin á stuttum tíma. Á sama tíma hefur þurft að bregðast aðeins við breyttum forsendum – sbr. breytingar hjá bæði hjá Uppbyggingarsjóði EES og Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífs um þróunarsamvinnu. Á meðan er sjónum Heimstorgsins beint í aðrar áttir – m.a. í frekari mæli að tækifærum hjá alþjóðastofnunum á borð við SÞ og Alþjóðabankanum, en það samtal er þegar hafið, auk þess sem áhersla lögð á framleiðslu markaðsefnis.  

 Kynntu þér Heimstorgið

Ársskýrsla 2022 Heimstorgið

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu