Ljósmynd

Film in Iceland

Film in Iceland

Kynnum Ísland sem vænlegan tökustað kvikmyndaverkefna með 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar.

Kvikmyndalandið Ísland

Verkefni Film in Iceland er að kynna kynna Ísland sem vænlegan tökustað, 35% endurgreiðslu framleiðslukostnaðar, innviði íslenska kvikmyndaumhverfisins og að taka við fyrirspurnum erlendra framleiðanda og aðstoða þá eftir fremsta megni.

Á árinu 2022 var skrifað undir nýjan þjónustusamning á milli menningar- og viðskiptaráðuneytisins og Íslandsstofu um fjármögnun á verkefninu til loka ársins 2026. Íslandsstofa sinnir rekstri Film in Iceland verkefnisins samkvæmt þjónustusamningi við menningar- og viðskiptaráðuneytið.

Verkefni ársins 2022

Film in Iceland stóð fyrir móttökum í bæði Stokkhólmi og Helsinki í samstarfi við Útón og sendiráð Íslands í mars. Þangað mættu framleiðendur á sviði kvikmynda, sjónvarpsefnis og tónlistar sem höfðu áhuga á að kynna sér kosti íslensku endurgreiðslukerfanna og var góð mæting á báðum stöðum.  

Í maí var sex stjórnendum kvikmyndavera frá Hollywood boðið til Íslands til að kynna sér kosti landsins sem tökustaðar. Þetta var í áttunda skipti frá 2009 sem Íslandsstofa stendur fyrir slíkri ferð í samstarfi við hagaðila. Ferðirnar hafa skilað góðum árangri og hafa gestir sem boðið hefur verið til landsins komið hingað með fjölda verkefni í kjölfarið. 

Film in Iceland tók þátt í kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí þar sem fundað var með erlendum framleiðendum. Þá fór fram sameiginlegt boð Norðurlandanna undir merkjum Nordic Film Commissions og komust færri að en vildu. 

Ísland var kynnt sem ákjósanlegur kostur til kvikmyndatöku á Location Expo viðburðinum á AFCI Week í Los Angeles í lok júní. Þar fór einnig fram röð viðburða með framleiðendum og tökustaðastjórum sem Film in Iceland tók þátt og fundað með fjölda framleiðslufyrirtækja á borð við Amazon, Twentieth Century Fox, Apple og Sony.

rich text image

Fulltrúar Íslandsstofu ásamt ráðherra og sendinefnd og fulltrúum Warner í Los Angeles

Tengslaviðburðir um víðan völl

Í kjölfar breytinga á lögum um hækkun í allt að 35% endurgreiðslu fór menningar- og viðskiptaráðherra fyrir sendinefnd til Los Angeles í september, í samstarfi við Film in Iceland og Record in Iceland. Þar var fundað með lykilaðilum í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu auk útgáfufyrirtækja í tónlist. Meðal annars var fundað með stjórnendum hjá Warner Bros, Paramount, Universal, Amazon og Netflix. Þá var haldin vel heppnuð móttaka þar sem fjöldi framleiðenda og tökustaðastjóra komu til að kynna sér hækkun endurgreiðslunnar og mynda tengsl við aðra gesti undir ljúfum tónum íslenskra tónlistarmanna. 

Fundað var með framleiðendum frá Kanada, Bretlandi og Bandaríkjunum í tengslum við Toronto International Film Festival um miðjan september auk þess sem Film in Iceland tók þátt í boði European Film Promotion og Scandinavian Films.  

Undir lok september tók fulltrúi Film in Iceland þátt í vinnufundi Nordic Film Commissions. Nordic Film Commissions stendur fyrir tengslaviðburðum og fyrirlestrum á helstu kvikmyndamörkuðum og kynnir Norðurlöndin sem kjörinn áfangastað fyrir framleiðslu á kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.  

rich text image

Frá tökum þáttanna Witcher: Blood origin á Íslandi

Í tengslum við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin vann Film in Iceland með Evrópsku kvikmyndaakademíunni að því að heiðra Kaffibarinn sem merkilegan stað í sögu íslenskrar kvikmyndagerðar undir merkjum Treasure of European Film Culture þann 3. október. Settur var upp heiðursskjöldur og fluttu ráðherra menningar- og viðskipta, borgarstjóri Reykjavíkurborgar, framkvæmdarstjóri Evrópsku kvikmyndaakademíunnar og framkvæmdarstjóri Íslandsstofu erindi. Fullt var út úr dyrum á viðburðinum sem var að hluta í beinni útsendingu í fréttum RÚV. 

Íslandsstofa tók þátt í viðburði í lok október í London á vegum Icelandair, ásamt 66° Norður og Bláa Lóninu, sem bar heitið Around the Corner. Film in Iceland og Record in Iceland tóku höndum saman og buðu til móttöku fyrir framleiðendur á sviði kvikmynda, sjónvarps og tónlistar og mættu 150-200 gestir.

Film in Iceland tók þátt í sendinefnd ráðherra menningar og viðskipta til Seoul í Suður-Kóreu í nóvember. Fulltrúi Film in Iceland upplifði mikinn áhuga á Íslandi og fundaði með 41 aðila frá 25 fyrirtækjum. Þetta var fyrsta ferð Film in Iceland til Seoul, en ljóst er að þar eru mikil tækifæri enda er kvikmyndageirinn í S-Kóreu sá virtasti í Asíu og framleiðir mikið af efni sem nýtur vinsælda í Suðaustur-Asíu.

rich text image

Þáttaraðir 2-8 af Game of Thrones voru teknar upp að hluta á Íslandi

Film in Iceland tók þátt á sameiginlegum bás Norðurlandanna undir vörumerkinu Nordic Film Commissions á staðarvalssýningunni FOCUS í London í byrjun desember. Verkefnið stóð jafnframt fyrir VIP boði í nýrri verslun °66 Norður þar sem boðsgestir voru bandarískir framleiðendur og tökustaðastjórar, auk íslenskra þjónustufyrirtækja.

Árangur

Fyrirspurnum til Film in Iceland vegna erlendra tökuverkefna fjölgaði á ný árið 2022 eftir samdrátt árið áður. Það má segja að framleiðsluárið hafi farið fram úr björtustu vonum þegar litið er til stöðunnar í heiminum framan af ári. Mikið var um erlend kvikmyndaverkefni og nam heildarvelta þeirra rúmlega 12 milljörðum króna. Fyrst má þar nefna HBO verkefnið True Detective (Night Country) sem er stærsta sjónvarpsverkefni í sögu Íslands. Áætlað er að heildarkostnaður í tengslum við verkefnið endi í um níu milljörðum þegar yfir lýkur.

rich text image

Grænland er sögusvið myndarinnar Against the Ice en þó var myndin tekin upp á Íslandi

Önnur verkefni sem má nefna eru;  

Bíómyndir: 
  • Luther (Netflix) 

  • Heart of Stone (Netflix) 

  • Retreat (FX Productions) 

  • Halo – Season 2 (Paramount) 

  • Suddenly (Studio Canal) 

  • Mickey 7 (Warner Bros) 

  • Kraven the Hunter (Columbia Pictures) 

  • Fast & Furious 10 (Universal) 

Sjónvarpsþættir: 
  • True Detective (HBO) 

  • Washington Black (Hulu) 

  • The Witcher (Netflix) 

  • While you were Breeding (Disney) 

  • First Love (Netflix, Japan) 

  • Awkwafina is Nora from Queens (Viacom CBS) 

  • SATT (Silverback Films) 

  • World´s Most Dangerous Roads (Renegade Pictures) 

  • Our Planet (First Loop) 

  • Farmer wants Wife (Freemantle) 

  • Siblings (Making Movies Oy) 

Hér er ótalið fjöldi heimildamynda, sjónvarpsauglýsinga, ljósmyndaverkefna og tónlistarmyndbanda. 

rich text image

Frá tökum vinsælu ævintýraþáttanna The Witcher á Íslandi

Fjölmiðlar

Film in Iceland sendi út fréttatilkynningu á fjölda miðla þegar staðfest voru lög um hækkun á endurgreiðslu allt að 35%. Í kjölfarið var m.a. fjallað um hækkunina á miðlum Deadline og Hollywood Reporter. Tækifærið var einnig nýtt til að kynna Ísland sem tökustað, aukna uppbyggingu innviða á Íslandi, svo sem opnun kvikmyndavera, og það öfluga tökulið sem aðgengilegt er á Íslandi. Fréttatilkynningin náði til rúmlega 70 milljón manns. 

Þá stóð Film in Iceland fyrir fjölmiðlaferð til Íslands í tengslum við Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í desember. Blaðamenn kynntu sér helstu innviði kvikmyndaiðnaðarins hér á landi ásamt því að hlýða á kynningar frá íslensku kvikmyndagerðafólki sem eru með kvikmyndir og þætti í framleiðslu. Í kjölfarið birtust meðal annars fréttir á miðlum Screen Daily, Le Figaro og filmAnd

Önnur kynningarstarfsemi Film in Iceland var í gangi allt árið. Síðla árs var send út grein sem listaði fimm helstu kosti þess að taka upp kvikmyndir á Íslandi og birtist meðal annars í Chicago Tribune og náði til rúmlega 11 milljón manns. 

Settar voru í loftið reglulegar færslur á samfélagsmiðla Film in Iceland yfir árið með fréttum og almennri markaðssetningu verkefnisins. Náði efnið þar til rúmlega 1 milljón manns með yfir 1,5 milljón birtinga á efni. Samfélagsmiðlar Film in Iceland á LinkedIn, Facebook og Instagram hafa samanlagt rúmlega 16.000 fylgjendur og er stærsti hlutinn frá Bandaríkjunum.  

Ársskýrsla 2022 - Film in Iceland

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu