Ljósmynd

Erlendar fjárfest­ingar

Erlendar fjárfestingar

Íslandsstofa hefur það lögbundna hlutverk að laða erlenda fjárfestingu til landsins, upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um það.  

Árið 2022 í hnotskurn

Áhersla stjórnvalda er á fjárfestingar sem styðja við stöðu Íslands sem leiðandi lands í sjálfbærni og sem stuðla að því að ná markmiðum stjórnvalda í loftslagsmálum. Þá hefur áherslan á þekkingargreinar, nýsköpun, rannsóknir og þróun, ýtt undir öran vöxt hugverkageirans og erlenda fjármögnun vaxtarfyrirtækja. Hluti af þeim vexti er kynning á Íslandi sem ákjósanlegum stað fyrir erlenda sérfræðinga að búa og starfa.

Í lok árs 2022 kom saman í fyrsta sinn stýrihópur verkefnis með vinnuheitið Græni dregillinn. Í hópnum sitja fulltrúar lykilráðuneyta og -stofnana sem koma að viðskiptaumhverfi og framgangi stærri fjárfestingaverkefna. Verkefnið er vistað í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og þar er verkefnisstjórn þess. Markmiðið er að bæta samkeppnishæfni Íslands og gera starfið markvissara með vel skilgreindum tækifærum. Á árinu var lokið seinni hluta verkefnisins um græna iðngarða í samstarfi Íslandsstofu, stjórnarráðsins, Landsvirkjunar og Norðurþings með útgáfu skýrslu um mögulegan grænan iðngarð á Bakka.

rich text image

Framleiðsluaðstaða smáþörungafyrirtækisins VAXA við Hellisheiðarvirkjun skoðuð í heimsókn í nóvember.

Nýfjárfestingar

Fjárfestingarverkefni í virkri skoðun 2022 falla aðallega í þrjá flokka: Margvísleg rafeldsneytisverkefni til orkuskipta, gjarnan tengd væntanlegum iðngörðum eða hringrásarsvæðum auk nýtingar vindorku til framleiðslu á vetni. Verkefni á sviði matvæla svo sem hárækt við stýrðar aðstæður, smáþörungaframleiðsla, nýting stórþörunga, sbr. fyrirætlanir Íslandsþara á Húsavík, landeldi og framleiðsla á áfengum drykkjum. Ferðaþjónustuverkefni, einkum hótel sem áfangastaðir, en á árinu hófst uppsteypa á 5 stjörnu áfangastað við Grenivík með aðkomu erlendra fjárfesta.

Vaxandi áhugi er hjá sveitarfélögum, landshlutasamtökum og sérverkefnum atvinnuþróunarfélaga og orkufyrirtækja að stíga stærri skref í að skipuleggja græna iðngarða eða afmörkuð svæði í þágu loftslagsvænna fjárfestingaverkefna og eflingar hringrásarhagkerfisins og bjóða fram sem vel skilgreind og aðgengileg tækifæri fyrir fjárfesta og fyrirtækin.

Ársskýrsla 2022 - Beinar erlendar fjárfestingar

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu