18. janúar 2024

Bláa lónið hlýtur hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu

Ljósmynd

Bláa lónið hlaut í gær viðurkenningu fyrir frábær störf í þágu sjálfbærni, hringrásarhagkerfis og nærandi ferðaþjónustu. Hvatningarverðlaunin voru afhent  af Elizu Reid, forsetafrú Íslands á Degi Ábyrgrar ferðaþjónustu sem haldinn var hátíðlegur í Grósku í gær.

Viðburðurinn í ár var samstarfsverkefni Íslandsstofu og Íslenska ferðaklasans en að verkefninu kemur allt stoðkerfi íslenskrar ferðaþjónustu sem til viðbótar eru Samtök ferðaþjónustunnar, Markaðsstofur landshlutanna og Ferðamálastofa. Þetta eru þeir sömu aðilar og standa að Ferðaþjónustuvikunni sem nú stendur sem hæst.

Aðstandendur að verkefninu horfðu til þess við val á fyrirtæki ársins að fyrirtækið hefði um langan tíma lagt áherslu á hringrásarhagkerfið og hefði grunngildi sjálfbærni í starfsemi sinni að leiðarljósi. Til viðbótar er horft til þess hvernig fyrirtækið hefur mótandi áhrif á nærumhverfi sitt, starfsmenn, náttúruna og öryggi gesta. Sérstök áhersla í ár er lögð á þátt nærandi ferðaþjónustu sem gengur út á að ganga enn lengra en að ná kolefna hlutleysi og er þróun í átt til þess að skila jákvæðum ábata til áfangastaðarins.

Flest þekkja Bláa Lónið enda rótgróið fyrirtæki og eitt af okkar verðmætustu vörumerkjum þegar kemur að landkynningu og íslenskri ferðaþjónustu. Færri þekkja þó eða tengja Bláa lónið við hringrásarhagkerfið og hvernig það hefur unnið með auðlindastrauma síðustu 30 árin.

Sjálfbærni er kjarni og uppspretta Bláa Lónsins. Bláa lónið nýtir jarðsjó, gufu og koltvísýring sem fellur til við framleiðslu á grænni orku frá nærliggjandi jarðvarmaveri til að skapa aukin verðmæti. Fyrirtækið hefur að leiðarljósi að fullnýta auðlindastrauma úr iðrum jarðar í upplifun gesta þess sem og í framleiðslu á vörum. Allur rekstur Bláa Lónsins er samofinn fjölnýtingu dýrmætra auðlindastrauma sem er einstakt á heimsvísu. Í yfir 30 ár hefur félagið rannsakað jarðsjóinn og eiginleika hans og skapað einstaka upplifun í sátt við umhverfi, samfélag og móður náttúru.

Við óskum Bláa lóninu innilega til hamingju með verðlaunin.

Sjá nánar á vef Íslenska ferðaklasans

Bláa lónið hlýtur hvatningaverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu

Sjá allar fréttir