Ljósmynd

Heims­torgið

Heimstorgið

Fjölmörg tækifæri eru í samstarfi fyrir íslensk fyrirtæki í uppbyggingaverkefnum í þróunarlöndum og víðar.

Þjónustuborð atvinnulífsins

Heimstorg - þjónustuborð atvinnulífsins er upplýsinga- og samskiptagátt fyrir íslensk fyrirtæki sem leita viðskiptatækifæra í þróunar- og uppbyggingarlöndum, í samvinnu við norrænar- evrópskar- og ýmsar alþjóðastofnanir. Heimstorginu var hleypt af stokkunum í mars 2021 í kjölfar samkomulags Íslandsstofu og utanríkisráðuneytisins um þjónustuborð atvinnulífsins og byggir m.a. á stefnu stjórnvalda um þróunarsamvinnu en jafnframt á aðild Ísland að hinum fjölmörgum alþjóðastofnunum og -verkefnum, þar sem þátttaka atvinnulífsins er mikilvæg. Grunnur þess er vefsvæðið www.heimstorg.is, hvar kynnt eru bæði tækifæri og fjármögnunarleiðir sem íslenskt atvinnulíf getur sótt í.  

Markmið þjónustuborð atvinnulífsins er að vera brú milli atvinnulífs og stjórnvalda. Undirliggjandi markmið með starfsemi Heimstorgsins er að stuðla að auknum útflutningstekjum þannig að „langtímahagvöxtur verði sjálfbær með áherslu á verðmætasköpun sem grundvallast á hugviti og auknum verðmætum afurða úr sjálfbærri nýtingu takmarkaðra auðlinda.“ 

Á fyrri hluta ársins var skipulagi Heimstorgsins breytt á þann hátt að það var fært undir Útflutningsþjónustu Íslandsstofu í því skyni að efla þjónustuna enn frekar. Með því fæst aukinn slagkraftur og möguleikar á að kynna fyrrnefnd tækifæri fyrir atvinnulífinu, hvort heldur í beinu samtali við áhugasöm fyrirtæki, á viðburðum sem og með beinni markaðssókn.  

rich text image

Helstu verkefni 2023 

Heimstorgið og tækifæri til samstarfs við alþjóðastofnanir og í þróunar- og uppbyggingarlöndum voru reglulega kynnt á fjölmörgum fundum með fyrirtækjum sem og viðburðum sem fulltrúar Heimstorgs og Útflutningsþjónustu tóku þátt í á árinu. Á póstlista Heimstorgsins eru skráð yfir eitt hundrað aðilar og fengu þeir upplýsingar um það sem var döfinni hverju sinni. Gerðar voru vefauglýsingar, í nokkrum útgáfum, í því skyni að auglýsa bæði einstaka viðburði og tækifæri sem og að kynna Heimstorgið sem slíkt, sérstaklega. Á árinu var m.a. framleitt nýtt kynningarmyndband um verkefni Fisheries Technologies sem félagið hlaut styrk fyrir úr Heimsmarkmiðasjóði, til innleiðingar á upplýsingakerfi á sviði fiskveiðistjórnunar í Karíbahafi.  

Heimsmarkmiðasjóður 

Heimsmarkmiðasjóður atvinnulífs um þróunarsamvinnu styrkir íslensk fyrirtæki í verkefnum sem styðja við framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og eru framkvæmd í samvinnu við aðila í viðkomandi samstarfslandi. Opnanir í sjóðinn voru tvær á árinu, í apríl og í september og var tilkynnt um úthlutanir í júlí og desember. Alls hlutu fimm fyrirtæki styrkveitingar úr sjóðnum að þessu sinni; Verkís, Fisheries Technologies, Tern, AsWeGrow og Creditinfo. 

Uppbyggingarsjóður EES 

Unnið er að nýrri áætlun hjá Uppbyggingarsjóði EES og af þeirri ástæðu voru engin ný köll auglýst á árinu en stefnt er að því að ný áætlun verði kynnt á árinu 2024 og í framhaldi tækifæri fyrir fyrirtæki í samstarfsríkjunum. 

Í september var haldin kynningarfundur í uppbyggingar- og þjálfunarverkefninu KeyGeothermal, á jarðhita í Póllandi, sem unnið er að í samstarfi Orkustofnunar á Íslandi og IGSMiE PAN í Póllandi, á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. 

Tækifæri í samstarfi við aðra samstarfsaðila 

Á árinu voru ýmsir fundir og viðburðir kynntir í samvinnu við alþjóðastofnanir og samstarfsaðila Heimstorgsins. 

Fjármögnunarmöguleikar grænna verkefna með aðkomu Nefco og Nopef voru kynntir á vel sóttum fundi, „Grænir styrkir“ sem skipulagður var af Rannís, Grænvangi, Festu, Orkustofnun auk Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.  

Hér að ofan má sjá upptöku frá fundinum „Grænir styrkir“ em skipulagður var af Rannís, Grænvangi, Festu, Orkustofnun auk Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.  

Tveir viðburðir voru haldnir til að kynna áætlanir um uppbyggingu í Úkraínu að loknu stríði  og aðkomu fyrirtækja að henni. Alþjóðabankinn í samstarfi við efnahagsráðuneyti Úkraínu hélt vinnustofu í maí um hvernig fyrirtæki geta búið sig undir þátttöku í enduruppbyggingu samfélags og innviða. Um miðjan júní var svo kynningarfundur í London á vegum yfirvalda í Bretlandi og Úkraínu þar sem fyrirtækjum gafst kostur á því að gerast aðilar að Ukraine Business Compact og sýna í verki stuðning við uppbyggingu og framtíðartækifæri af afloknu stríði. Tvö íslensk fyrirtæki tóku þátt í hvorum viðburði. 

Viðburðir í samvinnu við stofnanir Sameinuðu þjóðanna. 

Í samstarfi við aðalræðisskrifstofu Noregs í New York var haldin vinnustofa fyrir norræn fyrirtæki um möguleg tækifæri hjá friðargæslu SÞ á sviði endurnýjanlegrar orku og upplýsingatækni. Fundurinn var haldinn í New York og tók aðalræðismaður þátt í skipulagningu fyrir hönd Íslands.

Í samvinnu við norrænar systurstofnanir Íslandsstofu var boðað til fyrirtækjastefnumóts fyrir norræn fyrirtæki með Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP).  
Auk þess að fá kynningu á stofnuninni og innkaupaþörfum hennar bauðst fyrirtækjum frá hverju Norðurlandanna að fá fimmtán mínútna einkafund til að kynna fyrirtækið og mynda tengsl við þessa stofnun SÞ. Þrjú íslensk fyrirtæki tóku þátt. 

rich text image

Í samvinnu við norrænar systurstofnanir Íslandsstofu var boðað til fyrirtækjastefnumóts fyrir norræn fyrirtæki með Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme, WFP).  
Auk þess að fá kynningu á stofnuninni og innkaupaþörfum hennar bauðst fyrirtækjum frá hverju Norðurlandanna að fá fimmtán mínútna einkafund til að kynna fyrirtækið og mynda tengsl við þessa stofnun SÞ. Þrjú íslensk fyrirtæki tóku þátt. 

Um miðjan nóvember var haldið tveggja daga norrænt útboðsþing Sameinuðu þjóðanna í UN City i Kaupmannahöfn og var það samstarfsverkefni systurfyrirtækja Íslandsstofu og sendskrifstofa norrænu þjóðanna í Danmörku auk danska utanríkisráðuneytisins. 

Á viðburðinum, sem var afar vel heppnaður, gafst norrænum fyrirtækjum færi á að kynna sér innkaupaþarfir fjölda stofnana SÞ og viðskiptatækifæri þeim tengdum. Alls mættu um fjörtíu fulltrúar frá átján stofnunum SÞ og um tvö hundruð fulltrúar norrænna fyrirtækja.  Á fyrri degi viðburðarins hlýddu viðstaddir á kynningar og panel umræður um helstu innkaupatækifæri hjá hinum ýmsu stofnunum SÞ og fengu innsýn í hvernig best er að eiga viðskipti við þær. Á seinni deginum tóku fyrirtækin þátt í þematengdum vinnustofum þar sem þau gátu átt milliliðalaus samskipti við fulltrúum viðkomandi stofnana. Átta fulltrúar frá sjö íslenskum fyrirtækjum tóku þátt í þinginu. 

rich text image

Á árinu tóku svo fimm íslensk fyrirtæki þátt í sendinefnd sem heimsótti þrjú fylki í norð-austurhluta Indlands til að leita nýrra viðskiptatækifæra. Var framtakið í boði indverska viðskipta- og iðnaðarráðsins og í samvinnu við Íslensk-indversku viðskiptasamtökin (IIBA) í Nýju-Delí og viðkomandi fylkisstjórnir. Um var ræða verkefni innan ramma G20 formennsku Indverja, undir yfirskriftinni B20.  

Lærdómur og framtíðarsýn 

Á þeim tíma sem Heimstorgið hefur verið hluti af þjónustuframboði Íslandsstofu hefur verið unnin ákveðin grunnvinna við að byggja upp tengsl við samstarfsaðila, alþjóðastofnanir og fyrirtækin í landinu. Ljóst er að tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki í efnaminni löndum eru fjölmörg og mörg hver eftirsóknarverð en að sama skapi er ekki alltaf einfalt eða auðvelt að finna þau og sækja. Kallað er eftir auknum fjárfestingum einkageirans í atvinnu- og verðmætasköpun og líta má á þróunar- og uppbyggingarlönd sem ört vaxandi framtíðarmarkaði.

Lausnir og sérþekking íslenskra fyrirtækja geta með áhrifamiklum hætti stuðlað að framþróun innan landa sem þurfa að byggja upp mikilvæga inniviði og þekkingu. Íslenskt atvinnulíf hefur og sýnt að þar er áhugi á að taka þátt og þannig styðja við framgang heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmiðið með Heimstorginu er að auka aðgengi og möguleika íslenskra fyrirtækja á þátttöku í eftirsóknarverðum verkefnum, byggja brýr á milli aðila og stuðla þannig að framþróun atvinnulífs og útflutnings á íslensku hugviti með sjálfbærni að leiðarljósi. 

rich text image

Í lok árs gerði Íslandsstofa samkomulag um landsaðgang fyrir íslensk fyrirtæki að Development Aid gagnagrunninum. Þar er að finna yfirgripsmikið yfirlit alþjóðlegra viðskiptatækifæra, fjármögnunarmöguleika hjá alþjóðastofnunum, upplýsingar um möguleg samstarfsfyrirtæki, fyrirtæki sem hafa komist á úrtakslista og unnið útboð sem og fyrirtæki á refsilistum. Mun þessi viðbót kynnt fyrir atvinnulífinu á nýju ári.  

Það er von okkar að aðgangur sem þessi nýtist íslenskum fyrirtækjum sem allra best í sinni vegferð á alþjóðlegum vettvangi og verði mikilvæg viðbót við Heimstorgið og Útflutningsþjónustu Íslandsstofu.  

 Kynntu þér Heimstorgið

Ársskýrsla 2023 Heimstorgið

Meira frá ársskýrslu 2023

    Aftur í ársskýrslu