Ljósmynd

Ísland - Saman í sókn

Ísland - Saman í sókn

Aukum eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkjum ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhöldum samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu.

Besti áfangastaður í heimi?

Markmið verkefnisins er að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina. Verkefnið er unnið í samræmi við framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem ber yfirskriftina „Leiðandi í sjálfbærri þróun“ og langtímastefnu stjórnvalda og atvinnulífs fyrir íslenskan útflutning. 

Verkefnið á að styrkja ímynd og auka eftirspurn í því skyni að auðvelda fyrirtækjum að auka sölu. Íslandsstofa vinnur markaðsáætlun og greiningar í breiðu samstarfi og viðheldur virkri upplýsingagjöf milli hagaðila.

Mission Iceland herferðin var keyrð í nóvember

Mission Iceland herferðin hvatti vongóða geimferðalanga til að hugleiða Ísland í staðin fyrir rándýrar ferðir út í geim. Enda betri áfangastaður.

Markaðsaðgerðir á árinu

Tvær markaðsherferðir voru keyrðar á lykilmörkuðum á árinu 2022; OutHorseYour Email og Mission Iceland. OutHorseYour Email herferðin fór í loftið í júní með almannatengslum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Keyptar voru birtingar í Bandaríkjunum og Þýskalandi. Mission Iceland herferðin fór í loftið í nóvember með almannatengslum í Bandaríkjunum, Kanada, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Keyptar voru birtingar í Bandaríkjunum, Bretlandi og Þýskalandi. Þá var einnig framleitt sígrænt markaðsefni sem tekið var upp í fjórum ólíkum landshlutum og sýnir fjölmarga kosti Íslands sem áfangastaðar. Efnið er til notkunar í birtingum óháð markaðsherferðum. 


Árangurinn mældur

Skilgreindir árangursmælikvarðar fyrir herferðir snúa m.a. að fjölda snertinga við markhóp gegnum keyptar birtingar, fjölda umfjallana gegnum almannatengsl og áhrif markaðsefnis á vilja til að ferðast til Íslands.  

Helstu árangurstölur fyrir OutHorse herferðina:  

 • Rúmlega 607 umfjallanir um herferðina í erlendum fjölmiðlum sem náðu samanlagt 3,7 milljarða neytenda. Uppreiknað auglýsingavirði 924 milljónir 

 • Tæplega 1 milljón ókostaðar spilanir á kynningarmyndband verkefnisins 

 • Rúmlega 18 milljón kostaðar birtingar og 1,2 milljón kostuð áhorf á myndband.  

 • 14% aukning að meðaltali á áhuga á að ferðast til Íslands hjá þeim hóp sem sá kynningarmyndband herferðarinnar 

 • Dekkun á samfélagsmiðlum var 4,4 milljón notenda og 21 milljón birtinga 

 • 21.000 skráningar í OutHorse þjónustuna 

Helstu árangurstölur fyrir Mission Iceland herferðina:  

 • 170 umfjallanir um herferðina í erlendum fjölmiðlum sem náðu samanlagt til 678 milljón neytenda. Uppreikna auglýsingavirði 173 milljónir.  

 • 20,3 milljón kostaðar birtingar og 3,7 milljón kostaðar spilanir á kynningamyndband herferðarinnar.  

 • 10,6% aukning að meðaltali á áhuga á að ferðast til Íslands hjá þeim hóp sem sá kynningarmyndband herferðarinnar 


Íslensk ferðaþjónusta hefur átt skjóta endurkomu í kjölfar heimsfaraldurs. Áhugi ferðamanna á að ferðast til Íslands hefur aldrei mælst meiri og má með sanni segja að verkefnið hafi náð þeim markmiðum sem því voru sett í upphafi, þ.e. að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu við erfiðar aðstæður í gegnum heimsfaraldur. 

Nánar um verkefnið Saman í sókn

Ársskýrsla 2022 - Saman í sókn

Meira frá ársskýrslu 2022

  Aftur í ársskýrslu