Ljósmynd

Meet in Reykjavik

Meet in Reykjavik

Markmiðið er að styrkja ímynd Íslands og Reykjavíkur sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir ráðstefnur og aðra alþjóðlega viðburði

Tilvalinn staður fyrir alþjóðlega viðburði

Ráðstefnuborgin Reykjavík (Meet in Reykjavík) var stofnuð árið 2012 af Reykjavíkurborg, Icelandair Group og Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúsi til að annast markaðssetningu á Reykjavík sem alþjóðlegri ráðstefnu- og viðburðaborg. Um áramótin 2020 færðist Meet in Reykjavík til Íslandsstofu sem hefur séð um rekstur verkefnisins síðan undir merkjum Meet in Reykjavík - Iceland Convention Bureau. 

Markmið verkefnisins er að styrkja ímynd Íslands og Reykjavíkur sem eftirsóknarverðs áfangastaðar fyrir ráðstefnur, fundi, hvataferðir og alþjóðlega viðburði (MICE) og auka hlutfall þeirra ferðamanna sem koma í þeim tilgangi allan ársins hring. Markaðsverkefnið er unnið í samræmi við leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu, útflutningsstefnu Íslands og ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar. Í drögum að nýrri ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar er stefnt að því að auka hlutfall ráðstefnu-, hvata- og viðburðagesta í borginni í 15% af heildarfjölda ferðamanna fyrir árslok 2025.

Meet in Reykjavík – Iceland Convention Bureau markaðsverkefnið er opið öllum fyrirtækjum sem hafa hagsmuni af MICE ferðaþjónustu og eru með gild starfsleyfi og tryggingar.

rich text image

Verkefni ársins 2022

Starfsfólk Íslandsstofu sækir ICCA Nordic Chapter, sem er samnorrænn vinnufundur, haldinn árlega og skiptist árlega á milli Norðurlandanna. Að þessu sinni var fundurinn haldinn í Reykjavík og Ísland með formennsku í ráðinu, en yfir 90 gestir sóttu fundinn í Hörpu. ICCA World Conference er alþjóðlegur viðburður sem er einnig mikilvægur vettvangur fyrir MICE starfsmenn til að endurnýja þekkingu og efla tengslamyndun.

Fimmtán tilboð í alþjóðlegar ráðstefnur voru send á árinu. Reynslan sýnir að um 25% af innsendum umsóknum skila viðburði til landsins. Á þessu ári skiluðu sex tilboð af þeim 15 sem voru send sérstaklega í viðburði, sem samsvarar 40% árangri.  

Meet in Reykjavik sótti sýningarnar IMEX Frankfurt í maí, IMEX America í Las Vegas í október og IBTM World Barcelona í nóvember, en þetta eru allt sértækar sölusýningar fyrir MICE markað. Samtals tóku 32 fyrirtæki þátt í þessum viðburðum. Meet in Reykjavík keypti jafnframt birtingar gagnvart markhópi í tengslum við sýningarnar í Frankfurt, Barcelona og Las Vegas. Meet in Reykjavik skipulagði einnig blaðamannaferð sem sótt var af þremur blaðamönnum frá MICE miðlum í Bretlandi. 

rich text image

Ársfundur Meet in Reykjavík – Iceland Convention Bureau fór fram í apríl. MICEland vinnustofa var haldin í september þar sem fagfólk í MICE ferðaþjónustu réð ráðum sínum. Viðburðurinn Jólabjór í bala fór fram í desember, þar sem farið var yfir niðurstöður í Nordplus verkefninu “Jumpstarting tourism post Covid".

Árangur

MICE ferðaþjónusta á heimsvísu tók hraðar við sér eftir heimsfaraldurinn en spáð var og árið 2022 gekk töluvert betur en reiknað var með. Talsverðir hagsmunir eru í húfi fyrir áfangastaði að byggja upp orðspor og eftirsókn innan MICE ferðaþjónustu enda er markaðurinn talinn vera einn af lykildrifkröftum hagrænnar innspýtingar vegna arðbærni hans. 

Á árinu náðust í gegnum keyptar auglýsingabirtingar 27 milljón snertingar við markhóp, 491.000 áhorf á kynningarmyndbönd, 254.000 smellir á auglýsingar, og 522.000 viðbrögð á samfélagsmiðlum. Þá birtust sjö umfjallanir í MICE miðlum með 6,6 milljóna króna virði í auglýsingum í kjölfar blaðamannaferðar.

Sjá vef Meet i Reykjavik

Ársskýrsla 2022 - Meet in Reykjavik

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu