
Vörumerkið Icelandic
Vörumerkið Icelandic
Gæði og íslenskur uppruni sjávarafurða.

Stöðugleiki í rekstri og sókn til framtíðar
Félagið Icelandic Trademark Holding ehf. (ITH) er eigandi vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood. ITH er í eigu íslenska ríkisins en Íslandsstofa hefur haft umsjón með daglegum rekstri félagins síðan 1. júlí 2020. Ný stefna ITH var mörkuð seinni hluta árs 2020 og í byjun árs 2021 en megininntakið í nýju stefnunni lýtur að því að auka verðmæti og auðvelda markaðsaðgengi íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum á grundvelli gæða, sjálfbærni og uppruna. Í nýju stefnunni er gert ráð fyrir að skráningar á vörumerkjunum Icelandic og Icelandic Seafood miðist við kjarnastarfsemi ITH, þ.e. íslenskar sjávarafurðir ásamt tengdum afurðum og þjónustu.
Nýir samningar sem gerðir voru hjá félaginu í lok árs 2020 og byrjun árs 2021 í anda nýrrar stefnu félagsins hafa styrkt rekstrargrundvöll ITH til framtíðar. Á árinu 2021 tókst að draga verulega úr rekstrarkostnaði og á árinu 2022 var síðan viðhaldið þeim viðsnúningi í rekstri félagsins sem fram hafði komið á fyrra ári. Þannig varð á árinu 2022 hagnaður af starfsemi félagsins og sjóðstreymi jákvætt, líkt og á árinu 2021, eftir taprekstur undangenginna ára. Viðsnúningur síðustu tveggja ára gera félaginu kleift að blása til sóknar fyrir framtíðina og vinna enn frekar að því að styrkja Icelandic vörumerkið svo það megi halda áfram að leggja sína lóð á vogarskálarnar við almenna ímyndaruppbyggingu íslensks sjávarfangs.