Ljósmynd

Ferða­þjón­usta

Ferðaþjónusta

Ferðaþjónustan er einn helsti máttarstólpi íslensks útflutnings.

Hröð viðspyrna íslenskrar ferðaþjónustu

Íslensk ferðaþjónusta var fljót að ná vopnum sínum á ný eftir heimsfaraldur í samanburði við aðra áfangastaði. Meðan ferðatakmarkanir voru í gangi árin á undan var áhersla lögð á að viðhalda vitund og áhuga meðal markhóps og standa vörð um viðskiptatengsl. Sú vinna ásamt aðgerðum stjórnvalda og markaðsstarfi ferðaþjónustufyrirtækja stuðlaði að því að sterk eftirspurn var eftir ferðum til Íslands á árinu.

Greiningar í lok árs sýndu að staða Íslands sem áfangastaðar hjá erlendum ferðamönnum er sterk. Ísland er í 6. sæti hjá Bandaríkjamönnum yfir bestu áfangastaði í heimi samkvæmt könnun Yougov greiningarfyrirtækisins meðal „Responsible Travel segment“ sem er í reynd markhópur íslenskrar ferðaþjónustu. Áfangastaðurinn er jafnframt á topp 10 lista hjá sama hópi meðal Breta. Þá er Ísland í fyrsta sæti á lista áfangastaða sem eru utan alfaraleiðar (off-the-beaten path) og í fimmta sæti á lista vinsælla áfangastaða (hot destinations) samkvæmt greiningu PriceWaterHouseCoopers sem unnin var fyrir USTOA, samtök ferðaskipuleggjenda í Bandaríkjunum. 

Mikilvæg viðskiptatengsl

Covid bylgja í janúar og innrás Rússa í Úkraínu í febrúar höfðu áhrif á viðburði í upphafi árs en lögð var áhersla að fara fljótt af stað með vinnustofur um leið og færi gafst. Íslandsstofa skipulagði þátttöku á yfir 30 vinnustofum og sýningum á árinu þar sem hátt í 300 fyrirtæki samanlagt, ásamt Áfangastaðastofum landshlutanna áttu fundi með erlendum ferðaheildsölum til að mynda og efla viðskiptatengsl.

rich text image

Frá World Travel Market í London í nóvember þar sem 25 íslensk fyrirtæki tóku þátt.

Meðal viðburða voru FITUR ferðasýningin á Spáni, fimm landa vinnustofa í London, vinnustofur í N-Ameríku, Ítalíu, Benelux og á Indlandi, ITB Asia í Singapúr, Top Resa í Frakklandi, MICE sýningin IMEX America í Las Vegas og luxury sýningin ILTM í Cannes. Stærsti viðburður ársins var skipulagning þátttöku Íslands á ferðasýningunni WTM í London í nóvember. Þar var Ísland eitt Norðurlandanna með bás þar sem 25 íslensk fyrirtæki stóðu vaktina ásamt Markaðsstofu Norðurlands og Höfuðborgarstofu.

Dýrmæt umfjöllun

Árið 2022 kom Íslandsstofa að 50 fjölmiðlaverkefnum þar sem erlendir fjölmiðlamenn heimsóttu Ísland og skrifuðu í kjölfarið umfjallanir um áfangastaðinn. Þar af voru níu hópfjölmiðlaferðir þar sem farið var í alla landshluta með samtals 40 aðilum úr fjölmiðlum. Íslandsstofa vinnur þessi verkefni í nánu samstarfi við almannatengslastofur á lykilmörkuðum og Áfangastaðastofur landshlutanna. Meðal miðla sem birtu umfjallanir í kjölfar þessarar vinnu eru Good Morning America, CNN Travel, Food Network, Travel + Leisure, The Washington Post, BBC, Metro News,  Zeit Online, Züddeutsche Zeitung Online, Die Welt og Echeppées Belles, L'.

Fyrir áfangastaðinn Ísland

Neytendamarkaðssetning

feature image

Ísland - Saman í sókn

Stærsta markaðsverkefnið í ferðaþjónustu er Ísland saman í sókn sem snýr að neytendamarkaðssetningu.


Á árinu voru tvær tvær markaðsherferðir keyrðar á lykilmörkuðum; OutHorseYour Email og Mission Iceland. OutHorseYour Email herferðin fór í loftið í júní með almannatengslum í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Lesa má nánar um markaðsaðgerðir Saman í sókn hér að neðan.

Lesa um verkefni Saman í sókn á árinu 2022

Vinnum saman

Samstarfsverkefni í ferðaþjónustu

feature image

Meet in Reykjavik

Meet in Reykjavík – Iceland Convention Bureau markaðsverkefnið snýst um að styrkja ímynd Íslands og Reykjavíkur sem eftirsóknarverður áfangastaður fyrir ráðstefnur, fundi, hvataferðir og alþjóðlega viðburði.

Meet in Reykjavik sótti MICE sýningarnar IMEX Frankfurt í maí, IMEX America í Las Vegas í október og IBTM World Barcelona í nóvember. Samtals tóku 32 íslensk fyrirtæki þátt í þessum viðburðum.

Lesa um verkefni MiR á árinu 2022

Aukið flugframboð á Norður- og Austurlandi

Markverður árangur náðist í markaðsverkefninu Nature Direct sem snýst um að kynna flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum í samstarfi Íslandsstofu, ISAVIA, Austurbrúar og Markaðsstofu Norðurlands, með fjárhagslegum stuðningi stjórnvalda. Tilkynnt var að þýska flugfélagið Condor myndi hefja beint flug frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða yfir sumarið 2023. Svissneska flugfélagið Edelweiss tilkynnti jafnframt að það myndi hefja áætlunarflug milli Zürich í Sviss og Akureyrar sumarið 2023. Þetta er í fyrsta sinn sem Edelweiss flýgur til Akureyrar en flugfélagið hefur síðan 2021 boðið upp á áætlunarflug til Keflavíkurflugvallar. Fjölmiðlamenn sem sérhæfa sig í umfjöllun um flug voru boðnir í ferð til Íslands sem skilaði umfjöllunum um Akureyri og Egilsstaði sem nýjar gáttir inn í landið.

Samstarf við Norðurlöndin

Ferðaþjónustuteymi Íslandsstofu á gjöfult og gott samstarf við hin Norðurlöndin í gegnum hin ýmsu samstarfsverkefni og teygir það anga sína um víða veröld. Á liðnu ári voru haldnar sameiginlegar norrænar vinnustofur og sýningar á Spáni, Ítalíu, Bretlandi og Þýskalandi. Einnig er Íslandsstofa þátttakandi í markaðsverkefni á Bandaríkjamarkaði sem styrkt er af Norrænu ráðherranefndinni og ETC þar sem öll sjö Norðurlöndin koma saman undir heitinu „The Nordics“. Í samstarfinu er haldin sameiginleg vinnustofa með ferðaþjónustuaðilum frá öllum löndunum og staðið fyrir bæði neytendamarkaðssetningu og fagmarkaðssetningu. Hið farsæla samstarf Íslands, Grænlands og Færeyja undir merkjum NATA (North Atlantic tourism Association) heldur ótrautt áfram á hinum ýmsu sviðum markaðssetningar en flaggskip samstarfsins er árlega ferðasýningin Vestnorden.

rich text image

Sjálfbærnisagan skrifuð

Vinna hófst við að skilgreina sjálfbærnisögu áfangastaðarins Íslands í samstarfi við Íslenska ferðaklasann. Haldin var opin vinnustofa með ferðaþjónustufyrirtækjum þar sem sænska ráðgjafarfyrirtækið Kairos Future fór yfir helstu strauma varðandi sjálfbærni í tengslum við markaðssetningu áfangastaða. Þá leiddu þau einnig vinnu við að skilgreina styrkleika áfangastaðarins Íslands út frá sjálfbærni. Fyrstu niðurstöður voru kynntar á Degi ábyrgrar ferðaþjónustu.

Cruise Iceland

Á árinu 2022 var gerður samningur milli Íslandstofu og Cruise Iceland sem eru samtök hagmunaaðila sem koma að móttöku skemmtiferðaskipa. Markmið samningsins er að auka vitund um Ísland sem áfangastaðar skemmtiferðaskipa á völdum markaðssvæðum og stuðla að aukinni nýtingu farþega skipanna á íslenskri afþreyingu og þjónustu. Markmiðið er einnig að stuðla að ábyrgri ferðahegðun farþega skemmtiferðaskipa og sjálfbærni í þessari tegund ferðamennsku. Samningurinn felur í sér að Íslandsstofa annast umsjón og framkvæmd á sýningum sem samtökin taka þátt í, ásamt því að framleiða markaðsefni sem notað verður til markaðssetningar á Íslandi gagnvart farþegum skipa í takti við áherslur um sjálfbærni.

Ísland á miðlum

Vefir og samfélagsmiðlar

Visit Iceland vefurinn vekur athygli

Stöðug vinna var í gangi árið um kring við færslur á samfélagsmiðlum þar sem eru yfir ein milljón fylgjendur. Þá var unnið við að efla neytendavef Visiticeland.com sem alhliða upplýsingagáttar fyrir erlenda ferðamenn, í samstarfi Íslandsstofu, Ferðamálastofu og menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Vefurinn var útnefndur best hannaði ferðavefur í heimi af Skift sem er leiðandi fréttamiðill og upplýsingaveita um ferðaþjónustu í heiminum.

rich text image

Eldgos hófst að nýju í Meradölum í Fagradalsfjalli þann 3. ágúst en stóð í þetta sinn stutt yfir

Vakin var sérstök athygli á framsetningu á sjálfbærri ferðaþjónustu á vefnum: „Aðgengi að grænni ferðamöguleikum á vefsíðum er alltaf plús — Visit Iceland er með heila síðu sem er tileinkuð því að hjálpa ferðamönnum að taka þátt í skuldbindingu Íslands um að varðveita náttúru landsins, þar á meðal lista yfir umhverfisvottuð fyrirtæki, reiknivél fyrir kolefnisfótspor og lista með ábendingum yfir sjálfbær ferðalög á Íslandi.“

Meðal nýjunga á árinu var kort með upplýsingum um staðsetningu hleðslustöðva á Íslandi. Ferðaþjónustuaðilar geta nálgast upplýsingar um hleðslustöðvar á korti, slegið inn upplýsingar um upphafs- og ákvörðunarstað og séð hvaða hleðslustöðvar eru aðgengilegar á leiðinni. Þegar hleðslustöð er valin koma fram upplýsingar um hvers konar hleðslu er að ræða sem og þá gisti- og afþreyingarmöguleika sem eru í nágrenninu.

Eldgos enn á ný

Þegar eldgos hófst í Meradölum í ágúst tóku Íslandsstofa og Áfangastaðastofa Reykjaness, í samstarfi við Safetravel, saman hagnýtar upplýsingar um svæðið, bílastæði, kort, gönguleiðir, útbúnað og fyrirtæki sem bjóða upp á ferðir að gosstöðvunum.

Á vefnum var einnig beint streymi frá eldgosinu. Sjá Volcano Guide á vef Visit Iceland og Volcano Guide á Instagram

Mikilvægustu gestir áfangastaðarins

Markhópagreining

Markhópar íslenskrar ferðaþjónustu

Íslandsstofa vinnur gögn og greiningar sem styðja við markaðsstarf íslenskrar ferðaþjónustu, s.s. viðhorfskönnun meðal neytenda, viðhorfskönnun meðal erlendra ferðarheildsala, greiningar á lykilmörkuðum, markhópagreiningu o.fl. Markhópagreining á erlendum mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu var uppfærð á árinu. Markhópagreiningin gerir aðilum í ferðaþjónustu kleift að dýpka skilning sinn á þeim markhópum sem þykja hvað ákjósanlegastir fyrir íslenska ferðaþjónustu ásamt leiðbeiningum um hvernig hægt sé að skerpa betur á markaðssetningunni. Rannsakaðir voru 7.000 ferðamenn á sjö markaðssvæðum (Bandaríkin, Kanada, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Svíþjóð og Danmörk) og var greiningin framkvæmd í mars 2022.
Sjá markhópa fyrir íslenska ferðaþjónustu

Ársskýrsla 2022 - Ferðaþjónusta

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu