Sjálfbær vöxtur til framtíðar

Íslenskur útflutningur stendur traustum fótum.

Skýrt merki um það er öflugur viðsnúningur í þróun útflutningsverðmæta í kjölfar heimsfaraldursins. Á seinasta ári námu útflutningstekjur yfir 1.700 milljörðum króna, sem er aukning um yfir 40% frá árinu 2021. Þetta kemur í kjölfarið á öðru góðu útflutningsári, þar sem vöxtur var um 25% milli ára.

Það er líka styrkleikamerki að þessi aukning milli ára er ekki drifin áfram af einni atvinnugrein, heldur eru flestar stoðir útflutnings að vaxa og allar nema tvær eru að skila met afkomu, þó báðar séu þær nærri því. Innbyrðishlutföll einstakra útflutningsgreina í verðmætasköpuninni eru einnig jafnari en oft áður. Við þekkjum öll söguna af bóndanum sem átti bara eina körfu undir eggin sín.

Við vitum þó jafnframt að okkar stærstu útflutningsgeirum – orku, sjávarútvegi og ferðaþjónustu – eru settar skorður af náttúrunnar hendi sem takmarkar vaxtarmöguleika þeirra til framtíðar. Aukin verðmætasköpun þarf því í auknum mæli að sækja sinn efnivið í aðrar auðlindir og óefnisleg verðmæti, líkt og hugvit, traust og ímynd.

Íslenskar hugvitsgreinar hafa verið í stöðugri sókn undanfarin ár, og það er ánægjulegt að sjá að hve miklu leyti okkar grunnatvinnuvegir hafa verið vettvangur nýsköpunar og reynst frjóir akrar fyrir skapandi huga. Hvort heldur það eru nýsköpun í matvælagerð í krafti íslenskrar orku, tæknivæðing sjávarútvegs, eða hugbúnaðargerð fyrir þjónustugeiranna. Við verðum að halda áfram að hlúa að þessum greinum og skapa þeim skilyrði til vaxtar.

Ímynd og traust eru huglægir þættir sem munu skipta miklu máli fyrir öflun útflutningstekna í framtíðinni. Við eigum greiðari leið inn á markaði og sækjum hærri verð fyrir okkar afurðir í krafti jákvæðrar ímyndar landsins og þess mikla trausts sem til okkar er borið, sem hyggin og ábyrg þjóð.

Íslenskt samfélag fyrirmynd

Sú góða ímynd og það mikla traust sem Ísland nýtur á erlendri grundu er ekki sjálfgefin sannindi. Þetta eru áunnin verðmæti sem við höfum skapað á grunni þeirra gilda sem móta samfélag okkar og samskipti við aðrar þjóðir, hvort heldur er í stjórnmálum eða viðskiptum.

Þessi gildi endurspeglast meðal annars í þeirri langtímastefnu sem við höfum sett okkur fyrir íslenskar útflutningsgreinar. Framtíðarsýn hennar er að Ísland verði þekkt sem leiðandi land á sviði sjálfbærni.

Umræðuefni þessa fundar er að miklu leyti innblásið af þessum hugleiðingum: Skipta gildi máli í alþjóðaviðskiptum?

Eða er sama hvaðan gott kemur?

Á alþjóðavettvangi hefur Ísland jafnan verið rödd jafnréttis og lýðræðis. Við höfum verið málsvarar réttlætis og friðar gert okkur far um að vera leiðandi í ábyrgri nýtingu auðlinda og að leggja okkar af mörkum til úrlausnar loftslagsvandans svo eitthvað sé nefnt.

Og eftir þessu er tekið. Fjölmargar rannsóknir á ímynd Íslands sýna að þeir þættir sem heimurinn þekkir í okkar fari, og metur hvað mest, eru þættir sem snúa einmitt að stjórnarfari og uppbyggingu samfélagsins. Þetta eru þættir sem erlendir fjölmiðlar gera ítrekað að umfjöllunarefni sínu og fræðimenn koma hingað til lands til að rannsaka.

Mikilvægasta verkefni samtímans er að halda áfram að byggja upp hágæðasamfélög en á sama tíma að takast á við loftslagsvandann. Þetta er hnattrænt verkefni, hér er engin þjóð eyland. Við Íslendingar erum hér í öfundsverðri stöðu, í landi grænna orkuauðlinda. Það er ákaflega mikilvægt að við náum sátt um það hvernig frekari orkuöflun muni fara fram á Íslandi, ekki hvort hún muni eiga sér stað heldur hvernig.

Við erum í góðri stöðu en „Good is the enemy of Great“ sagði Jim Collins í bók sinni from Good to Great. Við höfum alla burði til þess að vera fremst í veröldinni þegar kemur að sjálfbærri nýtingu orku. Við eigum ekki að sætta okkur við kyrrstöðu sem í raun kann að fela í sér afturför. Við eigum að læra af reynslu okkar og annarra þjóða og halda áfram á okkar sjálfbæru vegferð, í sátt við þjóðina og atvinnulífið í heild sinni.

Umbrotatímar í alþjóðasamstarfi

Fyrir ári hófst þetta ávar á því að fjalla um nýhafin átök í Úkraínu, og þörfina fyrir órofa samstöðu með íbúum landsins. Það væri óskandi að þar hefði eitthvað breyst á því ári sem er liðið, en staðreyndin er að  sú að stríðið í Úkraínu heldur áfram.

Við höfum tekið þátt í fjölþjóðlegum aðgerðum sem miða að því að knýja fram frið í Úkraínu í krafti viðskiptaþvinganna. Við höfum talað fyrir réttlæti og jafnrétti á alþjóðlegum vettvangi hvort sem það snýr að Úkraínu eða réttindum minnihlutahópa. Við megum vera afar stolt af framgöngu íslenskra stjórnvalda í þessu máli. Við höfum staðið með Úkraínu, skýrt og skilyrðislaust. Og hér vil ég sérstaklega minnast á þátt okkar utanríkisráðherra sem hefur verið áberandi á alþjóðavettvangi og flutt okkar mál af festu sem eftir hefur verið tekið.  

En váin er víða. Við sjáum í sífellu aukin merki pólaríseringar í stjórnmálum og samskiptum. Þetta á við hvort heldur er innan ríkja eða milli ríkja. Eflaust er áhrifa þess þegar farið að gæta í alþjóðaviðskiptum. Það hefur því líklega aldrei verið meira krefjandi að velta vöngum yfir því hvort gildi skipti máli í alþjóðaviðskiptum.  

Eða er sama hvaðan gott kemur?

Ársskýrsla 2021 - Ávarp stjórnar

Meira frá ársskýrslu 2022

    Aftur í ársskýrslu