Loading…

Markaðsverkefni um íslenska hestinn

Markaðsverkefni um íslenska hestinn var ýtt úr vör í apríl 2015 með aðkomu helstu samtaka og hagsmunaaðila í greininni, Íslandsstofu og stjórnvalda. Fyrsta áfanga markaðsverkefnis lauk með formlegri stefnumótun, og framhald verkefnisins til næstu fjögurra ára hófst í byrjun janúar 2016. Íslandsstofa sér um framkvæmd verkefnisins. 

Markmiðið er aukin verðmætasköpun

Lagðar hafa verið línur um hvernig auka megi verðmætasköpun á vörum og þjónustu tengdri íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um allan heim og byggja upp sterkt vörumerki. Stefnumörkun liggur fyrir sem og markmið og aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára. Um er að ræða markaðssamstarf sem nýtist heildarhagsmunum í að byggja upp orðspor íslenska hestsins til að leggja grunn að auknum gjaldeyristekjum af sölu á hestinum, vörum og þjónustu.

Ímyndin byggir meðal annars á því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem hesturinn sem færir fólk nær náttúrunni; kraftmikill, ævintýragjarn, tilgerðarlaus og ósvikinn hestur sem tekur þér opnum örmum. Stoðir vörumerkisins byggja á tengslum hans við sögu Íslands og menningu, ævintýri og félagsskap, sem og nálægð við náttúruna.Smellið á myndina til að skoða bæklinginn


Víðtækt samstarf og samvinna

Markaðsverkefnið, sem ber heitið “Horses of Iceland”, er nú í víðtæku samstarfi við tæplega 60 aðila í hestageiranum og tengdum greinum. Öllum þeim aðilum sem rækta íslenska hestinn, framleiða hestavörur eða selja þjónustu tengda hestinum býðst að taka þátt í verkefninu sem og samtökum þessara aðila. Einnig geta aðrir sem eru tilbúnir að taka þátt í verkefninu fjárhagslega, s.s. þjónustuaðilar, birgjar og stofnanir eða félög, gerst aðilar að verkefninu. Þátttakendur taka þátt í að móta áherslur og markaðsaðgerðir og þeir verða kynntir á vefsíðunni Horses of Iceland og í miðlun út á við. Stjórnvöld leggja verkefninu til 25 milljónir króna árlega í fjögur ár, 2016-2019, gegn sama framlagi úr greininni. Ennþá er hægt að tengjast verkefninu. Áhugasömum er bent á að hafa samband við verkefnastjórann, Jelenu Ohm. 
Senda fyrirspurn

Sjá nánar myndband með kynningu á stefnumótun í markaðssamskiptum, á íslensku og á ensku og á vefnum Horses of Iceland.

Verkefnið á samfélagsmiðlum