Loading…

Fjármögnun frá
fjölþjóðastofnunum
og sjóðum


Einkafyrirtæki og frumkvöðlar sem hafa áhuga á að stunda viðskipti, þróa viðskiptahugmyndir eða fjárfesta í þróunar- og ný­markaðs­ríkjum geta í sumum tilfellum leitað til alþjóða­fjármála­stofnana eftir styrkjum, áhættutryggingum og lánum á óviðjafnanlegum vaxtakjörum. Hér fyrir neðan hafa verið teknar saman helstu stofnanir sem bjóða fram ýmiskonar fjármögnun, en allar halda þær uppi sterkri viðveru á umræddum markaðs­svæðum.

Flestar eru stofnanirnar bundnar við ákveðna heimshluta, athafnasvið, og verkefni af tilteknum tegundum og stærðargráðum, eins og eftirfarandi lýsingar draga fram.—–- Fyrstan skal kynna Alþjóðabankann, sem oft heldur opin alþjóðleg útboð þar sem fyrirtæki, verktakar og ráðgjafar eru fjármagnaðir á grundvelli gæða og verðs. Fjármögnuð verkefni eru í öllum mögulegum geirum, um allan heim.

» Sjá Nánar um Alþjóðabankann og undirstofnanir hans


—–- Norræni þróunarsjóðurinn (Nordic Development Fund, NDF) veitir styrki til norrænna loftslagsverkefna í ýmsum Afríkulöndum, auk sex ríkja í Asíu og þremur í Rómönsku Ameríku.

» Sjá Nánar um Norræna þróunarsjóðinn


—–- Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið (Nordic Environment Finance Corporation, NEFCO) fjármagnar verkefni norrænna fyrirtækja um allan heim með sérstakri áherslu á lönd Austur-Evrópu.

» Sjá nánar um Norræna umhverfisfjármögnunarfélagið—–- Græni loftslagssjóðurinn (Green Climate Fund, GCF) fjármagnar ýmiskonar loftslagsverkefni, en stofnanir þurfa fyrst að fara í gegnum faggildingu (e. accreditation) áður en hægt er að sækja um fjármögnun verkefna.

» Sjá Nánar um Græna loftslagssjóðinn


—–- Endurreisnar- og þróunarbanki Evrópu (European Bank for Reconstruction and Development, EBRD) vinnur með einkafyrirtækjum í þeim löndum þar sem hann starfar - mestmegnis í Austur-Evrópu og Mið-Asíu - og veitir lán til ýmissa verkefna sem eru til þess fallin að tryggja að markaðshagkerfi landanna geti starfað eðlilega. 

» Sjá Nánar um Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu


—–- Asíski Innviðafjárfestingabankinn (Asian Infrastructure Investment Bank, AIIB) er nýleg alþjóðafjármálastofnun, stofnuð í kringum samstarf þjóða um að taka á innviðafjárfestingarþörf í Asíu, styrkja tengingar og hagræna þróun á svæðinu og styðja þannig við hagvöxt og aðgengi að grunnþjónustu.

» Sjá Nánar um Asíska innviðafjárfestingabankann


—–- Uppbyggingarsjóður EES (EEA Grants) fjármagnar margskonar verkefni í Mið- og Suður-Evrópu, en auk Íslands standa að sjóðnum Noregur og Liechtenstein.

» Sjá Nánar um Uppbyggingarsjóð EES