Loading…

GAGNSÆI OG GÓÐIR VIÐSKIPTAHÆTTIR


Íslensk fyrirtæki sem sækja á erlenda markaði standa frammi fyrir ólíkum áskorunum. Viðskiptamenning er mismunandi og í sumum ríkjum eru spilling og mútur alvarlegt vandamál sem grafa undan góðum stjórnarháttum og efnahagsþróun auk þess að skekkja samkeppnisstöðu. Gagnsæi og heiðarleiki eru lykillinn að því að bregðast við þessari hættu og jafnframt er nauðsynlegt fyrir íslensk fyrirtæki að hafa vitneskju um þau lög sem gilda hér á landi um erlend mútubrot. 

Á vef innanríksráðuneytisins er nánar fjallað um spillingu og mútur, þar á meðal erlend mútubrot. Nánar um góða menningarhætti.

Menningarlæsi
Menningarlæsi er afar mikilvægt í alþjóðaviðskiptum. Það snýst um að þekkja, virða og kunna að vinna með þær – oftast óskrifuðu – samskiptareglur sem gilda á öðrum mörkuðum og menningarsvæðum. 

Þrír þættir ákvarða fyrst og fremst hvernig við hugsum og hegðum okkur: mannlegt eðli, persónuleiki og menning. Menning snýst um viðhorf hópsins. Hvað hópurinn telur vera rétt og rangt, gott og slæmt, æskilegt og óæskilegt í allri framkomu og hegðun. Hver hópur hefur sínar skrifuðu og óskrifuðu reglur sem mikilvægt er að þekkja og vita á hverju byggjast. Jafnrétti kynja til allra starfa er gott dæmi. Það þykir sjálfsagt á Íslandi, en í mörgum löndum þykir eðlilegt að karlmenn sinni ákveðnum störfum og verkefnum og konur öðrum.