Loading…

Samstarfsverkefni

Íslandsstofa vinnur náið með öðrum aðilum í stuðningsumhverfi íslenskra fyrirtækja að verkefnum sem snúa að útflutningi og kynningarstarfi erlendis.

Stærsta samstarfsverkefnið sem Íslandsstofa tekur þátt í er verkefni sem nefnist Ísland allt árið og miðar að því að efla heilsársferðaþjónustu hérlendis og að dreifa ferðamönnum um land allt. Um er að ræða samstarfsverkefni opinberra aðila og einkafyrirtækja, en Íslandsstofa sér um rekstur verkefnisins sem rekið er undir merkjum Inspired by Iceland.

Verkefni sjávarútvegsins um upprunamerki og ábyrgar fiskveiðar, Iceland Responsible Fisheries, nýtur þjónustu Íslandsstofu um kynningu og markaðssetningu erlendis. Íslandsstofa sér um kynningarstarf á mörkuðum fyrir íslenskar sjávarafurðir undir merkjum Iceland Responsible Fisheries.

Íslandsstofa er einnig framkvæmdaraðili að markaðsverkefninu Iceland Naturally ásamt utanríkisþjónustunni. Verkefnið er samstarfsverkefni opinberra aðila og einkafyrirtækja og stuðlar að kynningu á Íslandi og íslenskum vörum og þjónustu í Norður-Ameríku.

Horses of Iceland, markaðsverkefni um íslenska hestinn er hýst hjá Íslandsstofu og nýtur aðkomu helstu samtaka og hagsmunaaðila í greininni. Um að ræða markaðssamstarf sem nýtist heildarhagsmunum í að byggja upp orðspor íslenska hestsins til að leggja grunn að auknum gjaldeyristekjum af sölu á hestinum, vörum og þjónustu.

Íslandsstofa er framkvæmdaraðili að verkefninu Saltaðar þorskafurðir í Suður-Evrópu sem er unnið í nánu samstarfi við saltfiskframleiðendur. Markmið verkefnisins er að efla samkeppnisstöðu og auka verðmætasköpun saltaðra þorskafurða frá Íslandi. Áhersla er lögð á helstu útflutningsmarkaði Íslendinga í Suður Evrópu; Spán, Portúgal og Ítalíu. 

Verkefnið Film in Iceland er rekið af Íslandsstofu, en markmið þess er m.a. að kynna Ísland sem væntanlegan tökustað fyrir erlendum kvikmyndaframleiðendum. Sjá nánar á vefnum www.filminiceland.com

Íslandsstofa sér þar að auki um framkvæmdina á Útflutningsverðlaunum forseta Íslands, í nánu samstarfi við skrifstofu forseta Íslands og stendur að Nýsköpunarverðlaunum Íslands, sem veitt eru á Nýsköpunarþingi ár hvert, í samstarfi við Rannís, Nýsköpunarmiðstöð og Nýsköpunarsjóð.