Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa


Meginmarkmið Seafood from Iceland verkefnisins er að auka virði og útflutningsverðmæti með því að auka vitund og bæta viðhorf markhóps gagnvart íslenskum sjávarafurðum.   

Þróun að sameiginlegu markaðsátaki fyrir íslenskan fisk hefur verið í bígerð frá árinu 2014. Árið 2018 komst verkefnið síðan á skrið þegar stjórn SFS samþykkti að fara af stað með Seafood from Iceland, en það hófst sem hluti af herferð Inspired by Iceland. Árið 2019 skrifuðu SFS og Íslandsstofa undir samstarfssamning sín á milli. Þann 28. ágúst 2020 hófst markaðssókn á erlenda markaði þegar Fishmas herferðin var sett í loftið á Bretlandsmarkaði. 

Tveir markhópar hafa verið skilgreindir fyrir markaðsverkefnið, “heilsumeðvitaðir foreldrar” á Bretlandsmarkaði og “erlendir ferðamenn” á Íslandi, en þar eru Bretar og Bandaríkjamenn í forgangi.

Seafood from Iceland er fjármagnað af þátttökufyrirtækjunum, en auk þess lagði Íslandsstofa til aukafjárframlag þegar verkefnið fór af stað.   


ímynd og vitund um íslenskar sjávarafurðir í bretlandi


Í neytendakönnun sem lögð var fyrir á Bretlandsmarkaði árið 2019 kom fram að Ísland virðist ekki vera ofarlega í hugum breskra neytenda þegar kemur að fiskmeti. Þegar þátttakendur voru beðnir að nefna upprunaland þegar spurt var um gæða sjávarafurðir voru niðurstöðurnar sláandi. Eldri neytendur nefndu Ísland mun oftar en þeir yngri og stafar það líklega vegna þess að eldri kynslóðir hafa sterkari tengingu við íslenskan sjávarútveg í sögulegu samhengi eins og t.d. Þorskastríðið. Ímynd Íslands er einnig ekki eins einsleit og áður fyrr þar sem fleiri þættir eru tengdir við land og þjóð eins og íslensk tónlist og ferðaþjónusta.

Ef litið er á 20 – 45 ára aldursbilið þá má sjá að sá hópur nefnir mun oftar norskan uppruna. Þetta er sá markhópur sem Norðmenn hafa sótt að hvað harðast á síðastliðnum árum með markaðssetningu og hafa þeir náð talsverðu markaðsforskoti á Ísland. Ef sú staða heldur áfram óbreytt til lengri tíma mun íslenskur sjávarútvegur eiga þá hættu að missa markaðshlutdeild á breska markaðinum þar sem eftirspurn neytenda íslenskum sjávarafurðum mun dragast saman umtalsvert. Var því ákveðið að hefja markaðsherferð til að hámarka virði og auka vitund um íslenskar sjávarafurðir á Bretlandsmarkaði, sem hófst í ágúst 2020.