Loading…

Mannauðsstefna Íslandsstofu

Samskipti, skipulag, samvinna og upplýsingamiðlun 

 • Við fáumst við margbreytileg verkefni, komum hlutum í framkvæmd og erum stolt af okkar störfum.
 • Við fögnum öll þegar við náum markmiðum okkar og tökum höndum saman um að efla starf okkar þegar verr gengur. Við leitum lausna og einblínum ekki um of á mistök.
 • Við stuðlum að því að Íslandsstofa sé skemmtilegur vinnustaður með góðan starfsanda og höfum samheldni starfshópsins að leiðarljósi í störfum okkar.
 • Hlutverk sviða er skýrt og verkferlar eru skilgreindir.
 • Við miðlum innbyrðis upplýsingum um störf okkar og lærum hvort af öðru.
 • Við stuðlum að opinni skapandi umræðu um verkefnin og vinnustaðinn.
 • Við berum ábyrgð á verkefnum okkar, tryggjum gæði og áreiðanleika vinnu okkar. Við ljúkum verkefnum á tilsettum tíma.
 • Við hvetjum okkur sjálf og samstarfsfólk, tökum jákvætt í hugmyndir og nýjungar og nálgumst öll verkefni okkar af jákvæðni.

Stjórnun og endurgjöf

 • Stjórnendur bera ábyrgð á starfi Íslandsstofu og árangri af því.
 • Stjórnendur veita starfsmönnum endurgjöf um störf þeirra og ræða við starfsmenn um hlutverk, árangur og markmið í starfi, m.a. í árlegum starfsmannasamtölum.
 • Stjórnendur hvetja starfsmenn sína til dáða, styðja við störf þeirra og gefa sér tíma til að fara yfir verkefni með starfsmönnum.
 • Stjórnendur stuðla markvisst að uppbyggingu jákvæðrar og árangursmiðaðrar fyrirtækjamenningar Íslandsstofu m.a. með virkri upplýsingamiðlun.
 • Stjórnendur stuðla að samræðu og tryggja með markvissri upplýsingagjöf að starfsmenn viti hvaða áherslur eru lagðar í starfseminni hverju sinni og hvaða áhrif það hefur á störf þeirra.
 • Stjórnendur afla sér þekkingar um stjórnun og viðhalda þannig ávallt hæfni í stjórnendahlutverki sínu.
 • Hæfni og starfsferill, ráðningar
 • Gerðar eru skýrar hæfni- og starfslýsingar þar sem hlutverk og ábyrgð starfsmanna er skýr.
 • Vinnustaðurinn okkar er upplýstur og lögð er áhersla á símenntun og þjálfun.
 • Við berum öll ábyrgð á því að afla okkur nauðsynlegrar þekkingar og viðhalda hæfni okkar og þróun í starfi.
 • Fræðsla er skipulögð með markvissum hætti hjá Íslandsstofu út frá greiningu á þörfum Íslandsstofu varðandi þekkingu og hæfni starfsmanna m.v. hlutverk stofunnar og verkefni.
 • Við nýtum nýja þekkingu í störfum okkar og tryggjum þannig að tilsettur árangur verði af fræðslu sem fjárfest er í.
 • Við tökum vel á móti nýjum starfsmönnum.
 • Við ráðningar er lögð áhersla á að fá til starfa hæfa, drífandi og árangursmiðaða einstaklinga. Við stöndum faglega að ráðningum og starfslokum.

Starfsumhverfi

 • Markmið okkar er að starfsumhverfi Íslandsstofu sé þægilegt og örvandi.
 • Skipulag vinnuumhverfisins tekur mið af þörfum starfseminnar og starfsfólks, lögum og reglum og þeim ramma sem húsnæði okkar og fjárhagur setur hverju sinni.
 • Starfskjör, jafnrétti og fjölskylduábyrgð, einelti og áreitni
 • Laun og kjör hjá Íslandsstofu taka mið af inntaki starfa, álagi, hæfni og árangri starfsmanna.
 • Starfsmenn geta óskað eftir launaviðtali árlega. Launaviðtöl eru tekin af  framkvæmdastjóra.
 • Íslandsstofa er jafnréttissinnaður vinnustaður.
 • Við gætum að því að störf hjá okkur flokkist ekki í karla og kvennastörf og vinnum markvisst að því að jafna kynjahlutföll í starfahópum.
 • Við ráðningar er gætt að því að ráða ávallt hæfasta einstaklinginn til starfa og að mismuna ekki eftir kyni. Við viljum að það höfði jafnt til beggja kynja að starfa hjá Íslandsstofu.
 • Hjá Íslandsstofu er sveigjanlegur vinnutími og stuðlað að því með skipulagi vinnunnar að starfsmenn geti samhæft starf sitt, fjölskylduábyrgð og einkalíf með gagnkvæmri samvinnu og sveigjanleika.
 • Bæði kyn njóta sömu tækifæra til starfsþróunar og fræðslu.
 • Konur og karlar fá sömu laun og kjör fyrir sömu eða sambærileg störf og við komum í veg fyrir kynbundinn launamun.
 • Einelti eða kynferðisleg áreitni er ekki liðin hjá Íslandsstofu. Til er aðgerðaráætlun um viðbrögð ef upp kemur grunur um einelti eða áreitni á vinnustaðnum.