Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
25. maí 2015

Vel sóttir fundir um tækifæri í viðskiptum Íslands og Kína

Vel sóttir fundir um tækifæri í viðskiptum Íslands og Kína
Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Kína stóðu nýverið fyrir tveimur fundum um málefni tengd viðskiptum Íslands og Kína.

Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Kína stóðu nýverið fyrir tveimur fundum um málefni tengd viðskiptum Íslands og Kína. Fundirnir voru haldnir í tilefni af heimsókn Péturs Yang Li, viðskiptafulltrúa sendiráðsins hingað til lands og voru þeir vel sóttir.

Á fyrri fundinum var fjallað um efnahagsþróun í Kína, utanríkisviðskipti og sérstaklega skoðuð þróun viðskipta milli Íslands og Kína og frekari tækifæri á því sviði. Í máli Péturs kom m.a. fram að stefna stjórnvalda í Kína er leggja aukna áherslu á nýsköpun og horfa um leið frá þeim fókus sem hefur verið á útflutning og ódýrt vinnuafl. Stefnt er að því að vöxtur verði víðar en í fáum stórum borgum og fólk hvatt til að eyða meiru til að auka lífsgæði sín.  Pétur kom einnig inn á  þau tækifæri sem skapast hafa í kjölfar fríverslunarsamnings Íslands og Kína og hvernig tölur um útflutning héðan til Kína geta sveiflast allt eftir viðskiptum einstakra fyrirtækja.

Á síðari fundinum var sérstakur fókus settur á áskoranir og tækifæri sem tengjast útflutningi á sjávarafurðum. Auk Péturs Yang Li viðskiptafulltrúa tóku Jóhann Freyr Aðalsteinsson frá Tollstjóra og Sigmar J. Halldórsson frá MAST þátt í umræðum og sátu fyrir svörum varðandi útflutning á sjávarafurðum. Á þessum fundi var talsvert rætt um fríverslunarsamninginn og málefni tengd honum, m.a. upprunasannanir. Þá koma fram að þótt tollar hefðu fallið niður þýddi það ekki sjálfkrafa að hægt væri að flytja héðan allar sjávarafurðir. Borið hefur á því að langan tíma taki að fá viðurkenndar tegundir sem fyrirtæki hafa ekki flutt út áður. Brýnt er að leysa þetta í góðu samstarfi við kínversk yfirvöld.

Upptökur frá fundunum má nálgast á vefnum. Seinni fundurinn hefst þegar um 1 klst. og 20 mín. eru liðnar af myndbandinu.

Deila