Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
18. febrúar 2016

Vel mætt á fund Íslandsstofu um markaðssetningu ferðaþjónustunnar

Vel mætt á fund Íslandsstofu um markaðssetningu ferðaþjónustunnar
Nýjasti áfangi markaðsverkefnisins Ísland – allt árið var kynntur á fundi Íslandsstofu „Íslensk ferðaþjónusta – Markaðssetning í breyttu umhverfi sem haldinn var miðvikudaginn 17. febrúar. Hér má nálgast myndbandsupptöku og kynningar frá fundinum.

Nýjasti áfangi markaðsverkefnisins Ísland – allt árið var kynntur á fundi Íslandsstofu „Íslensk ferðaþjónusta – Markaðssetning í breyttu umhverfi sem haldinn var miðvikudaginn 17. febrúar.  Herferðin nefnist Iceland Academy og miðar að því að hámarka ánægju og áhuga ferðamanna með því að upplýsa þá á skemmtilegan hátt um ýmislegt sem varðar Íslandsferð, allt frá því hvernig á að njóta heita pottsins sem best yfir í hvernig eigi að huga að öryggi í ferðum sínum um landið.  Herferðin fer formlega af stað 25. febrúar nk.

Í fararbroddi herferðarinnar eru átta íslenskir leiðbeinendur en leiðtogi þeirra verður leiðsögumaðurinn Kristín Bang sem mun stýra fræðslu um ábyrga ferðamennsku. Aðrir leiðbeinendur eru Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg sem leiðbeinir um öryggismál, Ylfa Helgadóttir meðlimur íslenska kokkalandsliðsins sem fræðir um íslenska matargerð, Guðmundur Karl Jónsson umsjónarmaður skíðasvæðisins á Akureyri kynnir íslenska vetrarafþreyingu, Kamilla Ingibergsdóttir fyrrum kynningarstjóri Iceland Airwaves og núverandi starfsmaður Of Monsters and Men segir frá íslenskum hátíðum, Baldur Kristjánsson ljósmyndari sýnir erlendum gestum hvernig best er að fanga norðurljósin á mynd, Guðrún Bjarnadóttir fræðir ferðamenn um íslenskar heilsulindir og loks mun Sigríður Margrét Guðmundsdóttir eigandi Landnámsseturs fræða ferðamenn um íslenska sögu.

Fyrstu fjögur námskeið „Iceland Academy“ verða sýnileg á vef Inspired By Iceland  Tilvonandi ferðamönnum sem horfa á námskeiðin gefst kostur á að þreyta próf og kanna þekkingu sína á efninu. Þeir sem ljúka öllum námskeiðunum með prófi gefst svo kostur á að vinna útskriftarferð til Íslands.

Fundurinn var mjög vel sóttur en hátt í 350 manns mættu.  Á fundinum kynnti Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu, áherslur ársins 2016 ásamt því að fara yfir árangur ársins 2015.  Einnig var kynning um markaðsgreiningu á helstu mörkuðum ásamt þjálfunartóli fyrir ferðaþjónustuaðila, innlenda sem erlenda sem og að Kristín Sóley Björnsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, kynnti vinnu við markhópagreiningu.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir þetta líka ríma vel við það sem stjórnvöld séu að gera.  „Við erum farin að huga að nákvæmlega þeim viðfangsefnum sem ferðaþjónustan er að glíma við núna og við öll - það er að tryggja öryggi og auka upplýsingar“.  Ragnheiður Elín telur þetta átak gott skref í að auka öryggi ferðamanna. „Þetta eru þau viðfangsefni og áskoranir sem hefði kannski átt að vera búið að leysa fyrir tíu árum síðan eða einhverjum árum síðan. Það hefur þó margt þegar verið gert með aðstoð framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það verða nýjar tillögur afgreiddar á næsta fundi stjórnstöðvar ferðamála í byrjun mars. Við ætlum að láta verkin tala hratt og örugglega og ég vona svo sannarlega að við sjáum úrbætur hratt og örugglega þegar við erum búin að koma þessum tillögum í gang.“ 

Deila