Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. apríl 2016

Vel heppnuð kynning á íslenskum matvælum í Óðinsvéum

Vel heppnuð kynning á íslenskum matvælum í Óðinsvéum
Tíu íslenskir matvælaframleiðendur kynntu vörur sínar fyrir dönskum innkaupa- og dreifingaraðilum þann 7. apríl sl. í glæsilegum húsakynnum Nordatlantisk hússins í Óðinsvéum.

Matvæla- og menningarkynning var haldin í glæsilegum húsakynnum Nordatlantisk hússins í Óðinsvéum dagana 7.-9. apríl s.l. Tíu íslenskir matvælaframleiðendur kynntu vörur sínar fyrir dönskum innkaupa- og dreifingaraðilum þann 7. apríl. Dönsku aðilarnir voru virkilega áhugasamir um íslensku matvælin en þeir voru fulltrúar sælkeraverslana, verslanakeðja, veitingaþjónustu og veitingahúsa. Framboðið var fjölbreytt en þar mátti m.a. finna bjór, líkjör, lax, bleikju, lambakjöt, þorsklifur, skyr og skyrkonfekt, jurtasalt og ýmsar vörur sem unnar eru úr íslenskum jurtum.

Matvælakynningin var samstarfsverkefni Íslandsstofu, sendiráðs Íslands í Kaupmannahöfn og Dansk-íslenska viðskiptaráðsins. Sendiráð Íslands bauð framleiðendum og dönsku gestunum til kvöldverðar þar sem Friðrik Sigurðsson matreiðslumaður galdraði fram rétti úr íslensku hráefni.

Föstudaginn 8. apríl hófst íslensk menningardagskrá í Nordatlantisk húsinu sem samanstóð af ljósmyndasýningu Hlyns Pálmasonar, tónlistaratriði frá íslenskum jazz tónlistarmönnum, auk þess sem boðið var upp á íslenskan matseðil á veitingastað hússins, Restaurant Nordatlanten. Í upphafi viðburðarins buðu íslensku matvælaframleiðendurnir gestum að bragða á afurðum sínum og vöktu þær mikla lukku. Menningardagskránni lauk með upplestri Einars Más Guðmundssonar rithöfundar á laugardeginum.

Matvæla- og menningarkynningin var mjög vel sótt og gerðu danskir fjölmiðlar henni góð skil. 

Deila