Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
16. maí 2011

Útflutningsverðlaun 2011

Ferðaþjónusta bænda hlaut Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2011 og Kristinn Sigmundsson fékk sérstaka heiðursviðurkenningu.

Mánudaginn 16. maí, veitti Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, Ferðaþjónustu bænda Útflutningsverðlaun forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Það var Sævar Skaptason framkvæmdastjóri sem veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd fyrirtækisins.

Í tilefni þeirra tímamóta að Íslandsstofa tekur nú við umsjón verðlaunanna ákvað úthlutunarnefndin þess vegna því að festa í sessi veitingu sérstakrar heiðursviðurkenningar til einstaklinga sem með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og þannig stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð.

Heiðursviðurkenning
Í ár er það Kristinn Sigmundsson óperusöngvari sem hlýtur heiðursviðurkenninguna. Varla hefur nokkur íslenskur óperusöngvari náð jafn langt í sínu fagi og Kristinn Sigmundsson, sem er fastagestur í virtustu óperuhúsum heims og fær hvarvetna mikið lof fyrir flutning sinn. Öll hans framganga í leik og starfi er landi og þjóð til sóma og er okkur því mikil ánægja að veita honum þessa viðurkenningu.

Útflutningsverðlaun forseta Íslands eru veitt í viðurkenningarskyni fyrir markvert framlag til eflingar útflutningsverslun og gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar.
Úthlutunarreglur kveða á um að verðlaunin skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði. Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni: Þórunn Sveinbjörnsdóttir frá Alþýðusambandi Íslands, Ingjaldur Hannibalsson frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, Björgólfur Jóhannsson frá Landsnefnd Alþjóða verslunarráðsins, Örnólfur Thorsson frá embætti forseta Íslands og Friðrik Pálsson frá Íslandsstofu, en Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.

Útflutningsverðlaunin voru fyrst veitt Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin eru: Lýsi hf., 3X-Stál hf., Bláa lónið hf., Samherji hf., Guðmundur Jónasson hf., Sæplast hf., Össur hf., Flugleiðir, Marel hf., Vaki og á síðasta ári hlaut CCP verðlaunin.

Útflutningsverðlaun forseta Íslands 2011
Ferðaþjónusta bænda fær verðlaunin fyrir þá forystu sem fyrirtækið hefur sýnt í þróun ferðaþjónustu í hinum dreifðu byggðum landsins, fyrir afburða árangur í sölu og markaðsmálum og fyrir þá framsýni sem fyrirtækið hefur sýnt í að innleiða sjónarmið sjálfbærrar þróunar í starfsemi sinni. Ferðaþjónusta bænda er góður fulltrúi fyrir þann vaxandi fjölda fyrirtækja sem laða til landsins erlenda gesti, veita þeim afbragðs góða þjónustu og gera dvöl þeira hér á landi að ógleymanlegri upplifun.

Ferðaþjónustan er orðin stærsta atvinnugrein í heimi – og er þá sama hvort litið er á greinina út frá veltu, fjölda starfa eða fjölda fyrirtækja og er áætlað að á þessu ári muni einn milljarður mann leggja land undir fót og nýta sér þjónustu fyrirtækja í þessari grein. Vöxtur ferðaþjónustunnar hér á landi hefur einnig verið ævintýralegur. Erlendir gestir sem komu til landsins árið 1980 voru 65.000, en 30 árum síðar þ.e. í fyrra voru þeir um 500.000. Gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar hafa aukist að sama skapi á þessu tímabili og nema nú um 20% af heildargjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Fullyrða má að starfsemi Ferðaþjónustu bænda hafi lyft Grettistaki fyrir íslenskar sveitir og að þær væru fámennari og fátæklegri ef ekki væri fyrir þá merkilegu starfsemi sem unnin er á vegum fyrirtækisins og félags ferðaþjónustubænda. Hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu hefur verið höfð að leiðarljósi og áhersla lögð á aukna fagmennsku með þátttöku í verkefnum tengdum gæða- og umhverfismálum og nú síðast vöruþróunarverkefnum með áherslu á lengingu ferðamannatímabilsins.


 

 

 

Deila