Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
18. maí 2016

Upplifun skapar forskot í viðskiptum

Upplifun skapar forskot í viðskiptum
Í liðinni viku stóð Íslandsstofa fyrir vinnustofu og fyrirlestri með Joseph Pine, einum helsta talsmanni markaðssetningar á upplifun.

Í liðinni viku stóð Íslandsstofa fyrir vinnustofu og fyrirlestri með Joseph Pine, einum helsta talsmanni markaðssetningar á upplifun. Samkvæmt Pine má skipta þróun hagkerfa í nokkur stig. Fyrst kemur hrávörustigið, þá neytendavörustigið og svo þjónustustigið. Nú er upplifunarstigið gengið í garð þar sem ekki nægir að veita viðskiptavininum vandaða vöru eða fumlausa þjónustu, heldur þurfa viðskiptin að fela í sér eftirminnilega upplifun. Það er upplifunin sem skapar samkeppnisforskotið og jafnframt aukinn hagnað fyrir fyrirtækið.

Í erindi sínu benti Pine á hvernig nýta mætti upplifun sem markaðstæki. Hann segir hugtakið um upplifunarhagkerfið hafa orðið til fyrir tíma samfélagsmiðlanna en vefsíður eins og Facebook sýni vel hvað upplifunin skiptir miklu fyrir markaðssetningu nú til dags. „Það efni sem birtist þar snýst allt um upplifun. Áður fyrr brýndi markaðsfólk fyrir fyrirtækjum að reyna að fá viðskiptavininn til að líta upp úr símanum, en í dag viljum við þvert á móti að fólk sé með símann sem mest uppi við til að taka myndir og deila.“

Samkvæmt Pine er það hægara sagt en gert að skapa upplifun og má viðskiptavinurinn ekki fá það á tilfinninguna að upplifunin sé óekta. Hann þarf að upplifa eitthvað persónulegt og eftirminnilegt, „Góð þjónusta snýst um að afgreiða viðskiptavininn vel og á sem skemmstum tíma, en þegar við bætum við áherslu á upplifun erum við að reyna að tryggja að viðskiptavininum finnist þeim tíma vel varið sem hann eyðir með fyrirtækinu.“

Deila