Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
13. maí 2020

Tilkynning frá Íslandsstofu vegna fjölmiðlaumfjöllunar

Tilkynning frá Íslandsstofu vegna fjölmiðlaumfjöllunar
Tilkynning frá Íslandsstofu vegna fjölmiðlaumfjöllunar um útboð markaðsverkefnisins Ísland - Saman í sókn

Ríkiskaup, að beiðni Íslandsstofu, bauð út afmarkaðan hluta af markaðsverkefninu „Ísland - saman í sókn“ og birtist útboðið að morgni 7.4.2020. Hér að neðan eru spurningar og svör sem Íslandsstofa telur rétt að koma á framfæri í ljósi fréttaflutnings af niðurstöðu útboðsins. Rétt er að taka fram að Íslandsstofa getur ekki tjáð sig efnislega um ákveðin atriði í útboðsferlinu fyrr en að 10 daga biðtíma liðnum.

Hvað var verið að bjóða út?

Íslenska ríkið hefur samþykkt að veita 1500 milljónir til markaðsverkefnis fyrir íslenska ferðaþjónustu sem hlotið hefur nafnið Ísland – saman í sókn. Útboðið sneri að stefnumörkun, hugmyndavinnu, almannatengslum, hönnun og framleiðslu markaðsefnis fyrir verkefnið, sem áætlað er að muni kosta um 20% af þeim 1.500.000 milljónum sem hefur verið úthlutað í verkefnið. Áætlað er að um 80% af verkefnafénu verði varið til birtinga á erlendum mörkuðum. Útboð vegna alþjóðlegra birtinga auglýsinga verður auglýst á næstu dögum. 

Af hverju var farið í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu? 

Ríkisstjórn Íslands fjármagnar verkefnið að fullu. Um framkvæmdina gilda því lög um opinber innkaup nr. 120/2016. Samkvæmt þeim skulu öll kaup á þjónustu umfram 18.120.000 kr. boðin út á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta eru reglur sem ekki er hægt að víkja frá. 

Það voru margar íslenskar stofur sem sóttu um – af hverju varð erlend stofa fyrir valinu?

Allar tillögurnar sem sendar voru inn áttu það sameiginlegt að vera samstarf innlendra og erlendra aðila. Það er því ljóst að í öllum tilfellum væri stór hluti þeirrar þjónustu sem boðið var í veittur af erlendum aðilum.

Valnefnd valdi þá tillögu sem þótti best og líklegust til að skila árangri, í samræmi við kröfur útboðsgagna. Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir bæði íslenska ferðaþjónustu, og þjóðina alla, að vel takist til við að örva áhuga á Íslandi sem áfangastað þegar ferðaáhugi tekur að glæðast á ný. 

Samkvæmt lögum um opinber innkaup er valnefnd óheimilt að gera upp á milli tillagna með vísan til þjóðernis. Valnefnd er einungis uppálagt að velja bestu innsendu tillöguna í samræmi við kröfur útboðsgagna, óháð þjóðerni. 

Í tillögu M&C Saatchi var jafnframt tekið fram að auk þess sem það væri með innlendan samstarfsaðila væri gert ráð fyrir að öll þjónusta við framleiðslu og kostnaður vegna hennar verði hér á landi

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að skapa störf hér á landi eftir heimsfaraldurinn. Væri ekki eðlilegast að öll starfsemin við markaðssetninguna færi fram hér?

Meirihluti þess 1,5 milljarðs kr. sem verður varið í verkefnið fer í birtingakostnað á helstu markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu. Stærstur hluti þess fjár sem verður varið í framleiðslu efnis verður nýttur hérlendis.

Framlag verkefnisins til atvinnusköpunar hérlendis felst einkum í að auka fjölda ferðamanna til landsins, og styðja við þá atvinnu- og gjaldeyrissköpun sem á sér stað í íslenskri ferðaþjónustu.

Vissuð þið að auglýsingastofan er í rannsókn hjá breska fjármálaeftirlitinu þegar valið fór fram?

Þeim aðilum sem bjóða í verkið er gert að skila greinargóðum upplýsingum um fjárhagsstöðu sína, meðal annars ársreikninga, staðfestingu á eiginfjárstöðu frá banka, og staðfestingu að fyrirtæki sé skuldlaust við skattayfirvöld í sínu heimalandi. Ekkert kom fram um rannsókn breska fjármálaeftirlitsins í þeim gögnum sem M&C Saatchi skilaði.  

Hvernig starfar valnefnd?

Í valnefnd sátu 13 aðilar sem tilnefndir voru af Atvinnuvegaráðuneytinu, Samtökum ferðaþjónustu, Reykjavíkurborg, markaðsstofum landshlutanna, og Íslandsstofu. Allir tilboðsgjafar héldu kynningu á hugmyndum sínum fyrir valnefndinni. Hver og einn aðili í valnefnd fyllti út einkunnarblað þar sem lagt var mat á tilboðs hvers fyrirtækis í samræmi við valforsendur sem komdu fram í útboðsgögnunum. Einkunnir byggðu 90% á gæðum og 10% á verði. Niðurstaða valnefndar sem kynnt var tilboðsgjöfum í gær byggði alfarið á stigagjöf í samræmi við það sem kom fram í útboðsgögnum. Rétt er að taka það fram að valnefnd leggur einungis mat á gæði tillagnanna, en Ríkiskaup annast útreikninga á verði.

Samkvæmt lögum um opinber innkaup er valnefnd óheimilt að gera upp á milli tillagna með vísan til þjóðernis. Valnefnd er einungis uppálagt að velja bestu innsendu tillöguna í samræmi við kröfur útboðsgagna, óháð þjóðerni. 

Ríkiskaup hafði eftirlit með valferlinu og sat fulltrúi frá Ríkiskaupum alla fundi valnefndar. Sáu þeir um að staðfesti niðurstöðu valnefndar og tilkynna hlutaðeigandi aðilum um niðurstöðuna. 

Deila