Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
6. júní 2011

Þátttaka í útboðum

Fjölmenni mættu á fund upplýsingatæknifyrirtækja sem bar yfirskriftina „Þátttaka í útboðum“. Þetta var fjórði og síðasti fundurinn, a.m.k. í bili, sem haldin er í fundaröð um markaðs- og sölumál upplýsingatæknifyrirtækja.

Það eru Íslandsstofa og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja (SUT) sem standa að fundunum, en þeim er ætlað að vera vettvangur fyrir fyrirtæki, sem annað hvort eru í útflutningi eða ætla sér það í framtíðinni, til að hittast og ræða málin.

Eftir að Jón Ingi Björnsson, varaformaður SUT setti fundinn tók Erna Björnsdóttir frá Íslandsstofu til máls. Erna kynnti Enterprise Europe Network og sagði frá verkefni um opinber útboð sem Íslandsstofa tekur þátt í. Verkefninu er ætlað að miðla upplýsingum og auka vitund fyrirtækja um tækifæri sem felast í verkefnum fyrir opinbera aðila og styður þannig við áherslur Evrópusambandsins um að hvetja lítil og meðastór fyrirtæki til þátttöku í opinberum útboðum.

Eins og venjulega deildu fulltrúar þriggja fyrirtækja reynslu sinni með fundarmönnum. Brynjar Bragason frá verkfræðistofunni Eflu reið á vaðið þar sem hann sagði frá reynslu stofunnar af þátttöku í erlendum verkefnum, en Efla hefur m.a. starfað mikið á Norðurlöndunum og í Bretlandi.
Í máli Hinriks A. Hansen frá Applicon kom m.a. fram að þegar fyrirtæki eru að íhuga að taka þátt í útboðum væri mikilvægt fyrir þau að finna hverjir væru helstu styrkleikar þeirra, af hverju aðilar ættu að vilja vinna með þeim frekar en öðrum. Fyrirtækin ættu síðan að finna samstarfsaðila á viðkomandi markaði sem hefðu þá styrkleika sem upp á vantaði. Í því sambandi væri tenglanetið mikilvægt. Arnþór Þórðarson frá VJI ráðgjöf hefur vaktað útboð um árabil og kom hann með ýmsar gagnlegar ábendingar um hvar upplýsingar um útboð væri helst að finna. Arnþór vildi meina að sá gagnabanki sem væri áhugaverðastur fyrir íslensk fyrirtæki væri TED (Tender Electronic Daily) en aðgangur að honum er ókeypis.

Eftir að allir höfðu flutt erindi sín var boðið upp á léttan málsverð. Þar sköpuðust miklar umræður enda er eitt af aðalmarkmiðum þessara funda að skapa vettvang fyrir fólk úr sama geira til að læra af reynslu hvers annars og jafnvel skapa samstarfsgrundvöll þeirra í milli.

Dagskrá fundar

Setning  -
Jón Ingi Björnsson – varaformaður SUT
 
Almennt um útboð, mikilvægustu atriðin sem hafa ber í huga -
Erna Björnsdóttir, Íslandsstofu

Reynslusögur
• Brynjar Bragason, Eflu verkfræðistofu – Reynsla af öflun verkefna erlendis
• Hinrik A. Hansen, Applicon - Reynsla fyrirtækisins af útboðum í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi
• Arnþór Þórðarson, VJI Ráðgjöf - Hvar eru útboðsauglýsingarnar og hvernig skal bregðast við þeim?

Léttur hádegisverður þar sem gert er ráð fyrir að menn spjalli saman og efli tengslanet sitt


 

Deila