Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. maí 2015

Stjórnarformaður Íslandsstofu varar við Hornstrandar-heilkenninu

Stjórnarformaður Íslandsstofu varar við Hornstrandar-heilkenninu
Það er nauðsynlegt að hagsmunaaðilar standi saman um æskilegar lausnir til að auka útflutningstekjur þjóðarinnar, að öðrum kosti gæti Ísland í heild sinni staðið frammi fyrir svipuðum örlögum og Hornstrandir, sagði Vilborg Einarsdóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu, í ávarpi á ársfundi Íslandsstofu 28. apríl sl.

Það er nauðsynlegt að hagsmunaaðilar standi saman um æskilegar lausnir til að auka útflutningstekjur þjóðarinnar, að öðrum kosti gæti Ísland í heild sinni staðið frammi fyrir svipuðum örlögum og Hornstrandir, sagði Vilborg Einarsdóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu, í ávarpi á ársfundi Íslandsstofu 28. apríl sl.

Í ræðu sinni lagði Vilborg mikla áherslu á mikilvægi þess að auka útflutningstekjur þjóðarinnar, sem hún kvað þurfa að tvöfalda á næstum 15 árum ef drífa ætti viðunandi hagvöxt með auknu verðmæti útflutningsvöru. Gjaldeyristekjur þyrftu þannig að hækka um 60 milljarða ár hvert á næstum 15 árum. Vilborg sagði Ísland verða að geta boðið lífskjör og tækifæri sem væru í engu lakari en gerist í okkar nágrannalöndum, að öðrum kosti mætti ætla að komandi kynslóðir Íslendinga flyttu einfaldlega þangað.

„Við höfum þegar fengið nasaþefinn af þessari þróun á undanförnum árum og það getur brugðið til beggja vona. Ísland í heild sinn gæti því hlotið svipuð örlög og  Hornstrandir – orðið falleg jaðarbyggð, sem laðar til sín brottflutta og göngufólk um hábjartan sumartímann,“ sagði Vilborg. Að lokum sagði hún að vilji og metnaður Íslandsstofu væri að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að Hornstrandar-heilkennið yrði ekki að veruleika með því að aðstoða íslensk fyrirtæki við að ná árangri á alþjóðlegum mörkuðum með vörur sínar og þjónustu.

Ræðu formannsins má lesa í heild sinni hér að neðan.

 

Ársfundur Íslandsstofu 28. apríl 2015

Ávarp Vilborgar Einarsdóttur formanns stjórnar Íslandsstofu

Ráðherra og góðir gestir.

Mér er það sönn ánægja að bjóða ykkur velkomin á þennan ársfund Íslandsstofu, þann fimmta í röðinni, því um þessar mundir eru liðin fimm ár frá því að Alþingi samþykkti lög um stofnun Íslandsstofu.

Fimm ár er ekki langur tími í lífi einstaklinga en á þeim tíma ná þó flestir meiri og hraðari þroska en nokkurn tíma síðar á lífsleiðinni.  Íslandsstofa hefur þannig á þessum skamma tíma náð að vaxa og dafna og verða að öflugum vettvangi markaðs- og kynningarmála á erlendum markaði.

Starfsemi Íslandsstofu á öll að stuðla að því að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Það er megin hlutverk stofunnar í samvinnu við fyrirtækin í landinu og stjórnvöld.

Og ekki veitir af! Gjaldeyristekjur landsmanna þurfa að tvöfaldast á næstu 15 árum, ef hagsvöxtur drifinn áfram af auknum verðmætum í útflutningi á vöru og þjónustu á að tryggja að hagur landsmanna dafni og að lífskjör hér nái fyrri styrk.

Við erum því að tala um að gjaldeyristekjur þjóðarinnar þurfi að verða eitt þúsund milljörðum íslenskra króna  hærri eftir 15 ár, en þær eru í dag.  Það jafngildir rúmlega 60 milljörðum í viðbótartekjur á hverju ári næstu 15 árin. Slíkt gerist ekki af sjálfu sér og það er nauðsynlegt að allir hagsmunaaðilar – stjórnvöld, atvinnurekendur og launafólk – geri sér grein fyrir því mikla starfi sem inna þarf af hendi til að framtíðarspá þessi verði að veruleika.

Hér er allt undir. Ef Ísland getur ekki boðið íbúum sínum lífskjör og tækifæri til að njóta lífsins, menntunar sinnar og hæfileika, sem eru engu lakari en í nágrannalöndunum, þá má ætla að fólk flytji einfaldlega þangað. Fyrst fara þeir sem hafa sérhæfða menntun eða verkkunnáttu – svo hinir.

Við höfum þegar fengið nasaþefinn af þessari þróun á undanförnum árum og það getur brugðið til beggja vona. Ísland í heild sinn gæti því hlotið svipuð örlög og  Hornstrandir – orðið falleg jaðarbyggð, sem laðar til sín brottflutta og göngufólk um hábjartan sumartímann.

Mér er ekki tamt að vera með dómsdagsspár, vil heldur líta á hinar björtu hliðar lífsins.  En stundum þarf að draga upp dramatískar myndir til að fá viðbrögð og til að fá fólk til að líta á alvöru málanna. Við þurfum samstöðu um æskilegar lausnir, við þurfum að ræða um það í hvernig þjóðfélagi viljum við búa og hvað þarf til.

Metnaður Íslandsstofu, bæði stjórnar og starfsmanna, stendur til þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að Hornstranda - heilkennið verði ekki að veruleika.

Við viljum stuðla að framþróun íslensks samfélags og aukinni velmegun þjóðarinnar með því að aðstoða íslensk fyrirtæki við að ná árangri á alþjóðlegum mörkuðum með vörur sínar og þjónustu.

Við viljum styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegum viðskiptum með því að leggja rækt við jákvæða ímynd lands og þjóðar.

Og vil viljum auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs með því að laða til landsins erlenda fjárfestingu.

Aukinn útflutningur og erlendar fjárfestingar hér á landi skapa grundvöll fyrir aukinni framleiðni, aukinni velferð og skapa nauðsynlegan vöxt gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið.

Ágætu fundarmenn.

Hjá Íslandsstofu starfar skapandi, kraftmikið og metnaðarfullt fólk. Fyrir hönd stjórnar Íslandsstofu langar mig að þakka framkvæmdastjóra og hans frábæra starfsfólki fyrir vel unnin störf. Það eru forréttindi að vinna með ykkur. Mig langar að biðja fundgesti um að gefa þeim gott klapp.

------

 

 

Deila