Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
3. febrúar 2016

Spænskir stjörnukokkar kunna vel að meta saltaðar þorskafurðir frá Íslandi

Spænskir stjörnukokkar kunna vel að meta saltaðar þorskafurðir frá Íslandi
Dagana 25.-27. janúar fór fram á Spáni ein virtasta matarráðstefna heims Madrid Fusion. Íslandsstofa skipulagði kynningu á söltuðum þorskafurðum á ráðstefnunni undir merkjum markaðsverkefnisins "Smakkaðu og deildu leyndarmálum íslenska þorsksins (Bacalao de Islandia)".

Dagana 25.-27. janúar fór fram á Spáni ein virtasta matarráðstefna heims Madrid Fusion. Íslandsstofa skipulagði kynningu á söltuðum þorskafurðum á ráðstefnunni undir merkjum markaðsverkefnisins "Smakkaðu og deildu leyndarmálum íslenska þorsksins (Bacalao de Islandia)".  Þátttaka „Bacalao de Islandia“ á Madrid Fusion var tvískipt: eldamennska á sviði þar sem Michelin stjörnukokkar elduðu úr íslenska hráefninu og þátttaka í sýningu sem var samhliða ráðstefnunni.

Hápunktur þátttökunnar var þegar íslenski þorskurinn komst á stóra sviðið í Madrid. Þá elduðu tveir af þekktustu kokkum Spánar, Sergi Arola og Eneko Atxa, úr íslensku gæðahráefni fyrir framan fullan sal af gestum og blaðamönnum. Báðir kokkarnir eru Michelin kokkar með þekkta veitingastaði: Sergi Arola restaurante í Madrid og Azurmendi í Bilbao og njóta þeir mikillar virðingar á Spáni. Á sviðinu var þar að auki spilað myndband frá Íslandi, og kynnir tók viðtal við fulltrúa markaðsverkefnisins sem er starfsmaður eins þeirra rúmlega tuttugu fyrirtækja sem sameinast hafa um að kynna saltaðar þorskafurðir inn á Spánarmarkað og Ítalíu og Portúgal.

Fjöldi manns heimsótti íslenska básinn á sýningunni og gæddi sér á fjölbreyttum réttum sem matreiddir voru úr íslenskum þorski, m.a. bacalao brandade, bacalao pil pil og basknesk súpa. Smakkið vakti mikla lukku og voru fjölmargir sem tóku þátt í getraunaleik sem var í gangi á básnum enda til mikils að vinna, ferð til Íslands fyrir tvo heppna gesti.

Madrid Fusion er haldin árlega og eru gestir um 10.000, aðallega matreiðslumeistarar og aðrir fagaðilar í matarheiminum, sem koma og kynna sér strauma, stefnur og nýjungar í veitingageiranum. Eitt af markmiðum markaðsverkefnisins er að treysta orðspor meðal matreiðslumanna erlendis og efla samstarf við veitingastaði. Þátttakan í Madrid Fusion er aðgerð sem miðar beint að því að auka vitund um gæðahráefni frá Íslandi meðal matreiðslumanna og annarra lykilaðila í matarheiminum á Spáni. Þannig má vinna að því að styrkja stöðu og treysta orðspor íslenskra þorskafurða á Spánarmarkaðinum þar sem samkeppnin er mikil.

Viðburðinum hefur verið gerð góð skil á Facebook og Twitter þar sem einnig var í gangi leikur og vinningar eru gjafabréf á veitingastaðinn DSTAgE í Madrid.

Hér að neðan má sjá myndir frá viðburðinum

Deila