Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
21. maí 2015

Spænskir matreiðslunemar kynnast söltuðum þorskafurðum frá Íslandi

Spænskir matreiðslunemar kynnast söltuðum þorskafurðum frá Íslandi
Þann 19. maí sl. fór fram kynning á framleiðslu og matreiðslu á söltuðum þorskafurðum frá Íslandi í CSHM kokkaskólanum í Madrid.

Þann 19. maí sl. fór fram kynning á framleiðslu og matreiðslu á söltuðum þorskafurðum frá Íslandi í CSHM kokkaskólanum í Madrid. Þar fengu tæplega 60 nemendur að komast í snertingu við hráefnið og fræðast um hvernig staðið er að veiðum og vinnslu á Íslandi, auk þess sem boðið var upp á sýnikennslu meistarakokks í matreiðslu fjölbreyttra rétta úr íslensku hráefni. Kynningin í skólanum er liður í markaðsverkefni í Suður Evrópu sem Íslandsstofa vinnur í samstarfi við íslenska fiskframleiðendur og útflytjendur. Markmiðið er að auka vitund um Ísland sem upprunaland hágæðaafurða, meðal neytenda og matreiðslumanna.

Í kynningunni var sagt frá veiðum, vinnsluaðferðum og hvernig hámarksgæði eru tryggð, en Íslendingar hafa stundað mikið þróunar- og nýsköpunarstarf síðustu ár til að ná stöðugum gæðum. Sýnd voru myndbönd frá Íslandi og m.a. frá heimsókn Mikel Publación sem kom til Íslands á síðasta ári sérstaklega til að skoða framleiðsluaðferðir og aðstæður í upprunalandinu. Diego Guerrero, sem er virtur matreiðslumaður frá Vitoria í Baskalandi, sá um sýnikennslu (show cooking). Honum þótti mikið til íslenska hráefnisins koma og miðlaði þekkingu sinni áfram til nemendanna sem fylgdust með af miklum áhuga. Eftir sýnikennslu Diego Guerrero var boðið upp á saltfisksmökkun sem nemendur og kennarar skólans sáu um að útbúa. Kennararnir voru ánægðir með samstarfið við Ísland og hvernig til tókst og sýndu því strax áhuga að fá slíka kynningu í Valencia þar sem skólinn er einnig með starfsemi.

Að sögn Ásbjörns Björnssonar sem sá um kynninguna tókst hún einstaklega vel: „Það var virkilega gaman að taka þátt í þessu verkefni og nemendur skólans voru einstaklega áhugasamir um íslenska þorskinn.“ Ásbjörn var mjög ánægður með frammistöðu baskneska kokksins. „Hann þekkir saltfisk gríðarlega vel og miðlaði því á mjög svo árangursríkan hátt til nemenda skólans“. Greinilegt er að matreiðslumenn á Spáni njóta mikillar virðin og því er mikilvægt að eiga gott samstarf við þá, einkum í því mikilvæga verkefni að fræða ungt fólk sem margt hefur ekki eins góða þekkingu og þeir sem eldri eru.

CSHM kokkaskólinn hefur hlotið viðurkenningu á gæðum námsins og aðstöðu  frá Alþjóðasamtökum matreiðslumeistara (WACS), fyrstur spænskra matreiðsluskóla.

Þá má nefna að Kristinn Björnsson, meistaranemi við Háskólann í Reykjavík, gerði könnun meðal matreiðslumanna í Madrid, og munu niðurstöður hennar nýtast vel í frekari markaðsaðgerðum í verkefninu. 

Vefsíða saltfiskverkefnisins á Spáni
Spænska facebook síða verkefnisins

Hér að neðan má sjá nokkar myndir frá kynningunni

Deila