Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
2. maí 2017

Sjálfbær stjórnun rædd á ársfundi Íslandsstofu

Sjálfbær stjórnun rædd á ársfundi Íslandsstofu
Fjölmenni var á opnum ársfundi Íslandsstofu sem haldinn var sl. föstudag í Silfurbergi í Hörpu. Þema fundarins var mikilvægi sjálfbærni- og umhverfisvottana í alþjóðlegu markaðsstarfi en þar fjallaði Sandja Brügmann, sérfræðingur í sjálfbærum rekstri, um vægi þess í viðskiptum að njóta trausts viðskiptavinarins

Fjölmenni var á opnum ársfundi Íslandsstofu sem haldinn var sl. föstudag í Silfurbergi í Hörpu.
Þema fundarins var mikilvægi sjálfbærni- og umhverfisvottana í alþjóðlegu markaðsstarfi en þar fjallaði Sandja Brügmann, sérfræðingur í sjálfbærum rekstri, um vægi þess í viðskiptum að njóta trausts viðskiptavinarins. Þarna spila inn í, að sögn Söndju, atriði eins og trúverðugleiki, gagnsæi, heiðarlegir viðskiptahættir og virðing fyrir umhverfinu. Hún sagði m.a. að til að öðlast velgengni þurfa fyrirtæki að vera meðvituð um breyttar kröfur í samfélaginu og bregðast við þeim. Ekki dugi lengur að einblína eingöngu á fjárhagslegan ávinning og vöxt í fyrirtækjum heldur skipti hlutir eins og traust, ánægja starfsmanna, umhverfisvitund, samfélagsleg ábyrgð og samkennd sífellt meira máli. Þá sagði hún að Ísland stæði þegar framarlega í ýmsum málefnum er varða sjálfbæra stjórnun og vísaði þar til verkefnisins Ábyrgar fiskveiðar/Responsible Fisheries, sem hefur að leiðarljósi sjálbæra nýtingu sjávarafurða og rekjanleika þeirra. 

Hér má nálgast kynningu Söndju Brügmann

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra ávarpaði fundinn og sagði m.a. í erindi sínu að íslenskt atvinnulíf hefði aldrei áður verið í eins mikilli kjörstöðu til að afla nýrra markaða og að aldrei áður hefðu Íslendingar séð viðlíka áhuga á landinu. Sagði hann það sameiginlegt verkefni að spila sem allra best úr stöðunni og til þess að svo mætti verða yrði að brýna þau tæki og tól sem okkur stæði til boða. „Tækifærin eru allt í kringum okkur, áskoranirnar sömuleiðis. Það er hagur þjóðarbúsins sem er endanlegur mælikvarði á hvernig við höfum staðið okkur,“ sagði utanríkisráðherra í ræðu sinni.

Þá skýrði Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu frá skýrslu stjórnar þar sem hann fór yfir starfsemi síðasta árs. Hér má nálgast ársskýrslu Íslandsstofu.
Á fundinum var einnig frumsýnt myndband þar sem rætt var við aðila frá nokkrum íslenskum fyrirtækjum sem eru með vottaða vöru. Fundarstjóri var Sigsteinn Grétarsson, formaður stjórnar Íslandsstofu. Að lokinni formlegri dagskrá var gestum boðið að þiggja veitingar í forrými.

Við þökkum öllum gestum ársfundarins kærlega fyrir komuna!

Hér að neðan má sjá upptöku og ljósmyndir frá ársfundinum
 

Deila