Loading…
Íslandsstofa
Íslandsstofa
11. desember 2019

Nýr snertiflötur við neytendur í markaðssetningu

Nýr snertiflötur við neytendur í markaðssetningu
Íslandsstofa bauð til morgunverðarfundar fyrir fullum sal á Grand Hótel Reykjavík í gær. Á fundinum var rætt um áfangastaðinn Ísland á ferða- og bókunarsíðum þar sem fulltrúar frá stærstu ferða- og bókunarsíðum heims komu saman og sögðu m.a. frá því hvernig Ísland birtist á þeirra miðlum.

Daníel Oddsson, verkefnisstjóri Ísland – allt árið hjá Íslandsstofu ræddi bókunarvélar frá sjónarhóli neytenda í erindi sínu. Rifjaði hann upp markmið Ísland- allt árið og ákjósanlega markhópa fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Þá nefndi hann þróun og umfang bókunarsíðna á netinu en áætlað er að samanlögð velta bókunarsíðna á næsta ári verði 101 þúsund milljarðar króna eða sem samsvarar um 200 sinnum útflutningsverðmæti allrar ferðaþjónustu á Íslandi. Sagði hann að bókunar- og ferðasíður væru nýr snertiflötur við neytendur í markaðssetningu og greindi frá þeirri ákvörðun Íslandsstofu að fara í samstarf við Expedia og birta nýjustu herferð Inspired by Iceland „It‘s about time“ á þeirra miðlum. Herferðin hefur skilað góðum árangri og á fyrstu sex vikunum var heildarfjöldi birtinga (e. impressions) 7,2 milljónir í Bandaríkjunum og arðsemi heildarfjármagns sem lagt var í herferðina (e. return on investment) 1:56, sem er nokkuð umfram væntingar. 
Hér má skoða kynningu Daníels

Nicholas Merrett, yfirumdæmisstjóri upplifana hjá TripAdvisor kynnti starfsemi og markmið TripAdvisor. Ræddi hann vægi umsagna og sagði þær hafa gríðarleg áhrif þegar kemur að ákvarðanatöku varðandi ferðalög og aðrar upplifanir, en að jafnaði skoða yfir 70% umsagnir á netinu áður en þeir bóka. Þessi prósenta er síðan enn hærri þegar kemur að mat en um 85% skoða umsagnir veitingastaða áður en þeir bóka borð. Jákvæðar umsagnir á TripAdvisor eru algengari en neikvæðar en fólk virðist hafa meiri þörf fyrir að deila jákvæðri upplifun, að sögn Nicolas. Hinsvegar kvað hann það mjög mikilvægt fyrir fyrirtæki að svara umsögnum á netinu, og þá ekki síður þeim neikvæðu. Það sé mun persónulegra og gæti skilað sér í auknum bókunum.  
Hér má skoða kynningu Nicholas

Magnús Magnússon, svæðisstjóri Booking.com á Íslandi greindi frá því hvernig fyrirtækið vinnur að því að hjálpa ferðamönnum að „uppgötva“ Ísland í þeim hafsjó áfangastaða sem í boði eru. Sagði hann fækkanir í bókunum til Íslands þó ekki vegna þess að landið sé óþekkt. Öllu heldur spili þar inn í þættir eins og hátt verðlag og sú staðreynd að það eru ekki margir staðir á Íslandi sem eru þekktir á alþjóðavettvangi. Þá hafi þekkt vörumerki líka ákveðið vægi því fólk leitar að því sem það þekkir, en samkvæmt könnunum telja um 84% Bandaríkjamanna mikilvægt að velja viðurkennd vörumerki. Þessi vörumerki séu fremur fá á Íslandi, fyrir utan Icelandair og önnur alþjóðleg flugfélög. Þá eru ferðalangar haldnir nokkrum valkvíða, að sögn Magnúsar, og heimsækja að jafnaði sjö mismunandi ferða- og bókunarsíður áður en þeir bóka. Jafnframt geri um 86% ítarlegan verðsamanburð áður en þeir taki endanlega ákvörðun.  
Hér má skoða kynningu Magnúsar

Að lokum var komið að David Peters, svæðisstjóra Danmerkur og Íslands hjá Expedia Group. David ræddi þá vegferð sem ferðamenn fara í áður en þeir ákveða sig en að hans sögn heimsækja þeir að jafnaði 140 mismunandi síður áður en þeir bóka endanlega. Fyrir vikið er bókunarglugginn opinn lengur og samkvæmt tölum frá Expedia eru um tveir þriðju ekki búnir að ákveða fyrirfram hvert ferðinni er heitið. Má því hafa áhrif á ákvarðanatöku þessa hóps með markvissum auglýsingum. David fór ofan í kjölinn á og ræddi samstarf við Inspired by Iceland og markaðssetningu Expedia á „It's about time" í Bandaríkjunum. Samstarfið hefur gengið framar vonum, eins og kom fram í erindi Daníels. Herferðin miðar að því að fjölga heimsóknum til Íslands og auka vitund á landi og þjóð - og hvetja alla þessa óákveðnu einstaklinga til að velja landið sem sinn næsta áfangastað.
Samkvæmt útreikningum Expedia má rekja um 35% heimsókna ferðamanna til Íslands árið 2018 til auglýsinga Expedia Group.
Hér má skoða kynningu Davids

Fundarstjóri var Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri þróunar, sölu- og markaðssviðs Bláa Lónsins sem stýrði fundinum og stjórnaði umræðum af stakri prýði.


Deila